Fara í efni  

Frístundamiðstöðin við Garðavöll formlega opnuð við hátíðlega athöfn

Frá klippingu borða þegar ný frístundamiðstöð var opnuð formlega í dag þann 11. maí.
Frá klippingu borða þegar ný frístundamiðstöð var opnuð formlega í dag þann 11. maí.

Það var afar hátíðlegt í dag þann 11. maí þegar bæjarfulltrúar, bæjarstjóri, stjórn Golfklúbbsins Leynis og fulltrúar frá Íþróttabandalagi Akraness klipptu á borða við nýja frístundamiðstöð á Akranesi.

Efnt var til fjölskylduhátíðar við þetta tilefni og var skipulögð dagskrá milli kl. 12 og 15. Um hádegisbil voru samstarfssamningar golfklúbbsins við Olís og Landsbankann undirritaðir og var í beinu framhaldi formleg opnun Frístundamiðstöðvarinnar. Athöfnin hófst utandyra þar sem bæjarfulltrúarnir Elsa Lára Arnardóttir, Valgarður Jónsson og Rakel Óskarsdóttir ásamt Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra, Marellu Steinsdóttur formanni ÍA, Þórði Emil Ólafssyni formanni stjórnar golfklúbbsins og Guðmundi Sigvaldasyni framkvæmdastjóra golfklúbbsins klipptu á borða og í kjölfarið voru ræðuhöld innandyra. Sævar Freyr var með opnunarræðu um aðdraganda og markmið framkvæmdarinnar. „Hvers vegna Frístundamiðstöð?  Alhliða miðstöð fyrir frístundir ungs fólks, eldri borgara og í raun alla Skagamenn.  Það verður spennandi að koma nýtingu í húsið allan ársins hring og er þetta í takt við þá stefnu að við erum að verða heilsueflandi samfélag hér á Akranesi.“ Sævar afhenti að lokum gjöf til golfklúbbsins frá Akraneskaupstað sem innihélt hjartastuðtæki og blómaskreytingu. Formaður Íþróttabandalags Akraness, Marella Steinsdóttir tók næst til máls og færði Leyni einnig gjöf af þessu tilefni sem innihélt Íþróttabandalagsmerkingu til upphengingar innan húsnæðisins. Rekstrarsamningur milli kaupstaðarins og golfklúbbsins var undirritaður næst og tók síðan til máls formaður stjórnar golfklúbbsins, Þórður Emil Ólafsson sem þakkaði Akraneskaupstað fyrir samstarfið og það traust sem kaupstaðurinn hefur sýnt golfklúbbnum. Að lokum þakkaði Guðmundur Sigvaldason framkvæmdastjóri golfklúbbsins öllum kærlega fyrir komuna og sleit hinni formlegri dagskrá.

Það var margt um að vera þennan dag. Gestir gátu m.a. kynnt sér golfíþróttina á æfingasvæðinu, hoppukastalar og andlitsmálun voru fyrir börnin, Galito rekstraraðili veitingastaðarins sá um að grilla pylsur fyrir gesti og gangandi og var boðið uppá kaffi og súkkulaðiköku úr Kallabakarí á Akranesi.

Starfsemi Frístundamiðstöðvarinnar

Í nýrri frístundamiðstöð er boðið upp á glæsilega inni æfingastöðu með púttvelli og golfhermum auk þess sem miðstöðin býður upp á frábæra aðstöðu fyrir golfara og aðra gesti. Ný frístundamiðstöð er sannkallað fjölnotahús sem nýtist til margra hluta. Húsið er félagsaðstaða Leynis með afgreiðslu vallar, golfverslun, skrifstofum og fundaraðstöðu auk inni æfingaaðstöðu. Veislusalur hússins býður upp á móttöku gesta og kylfinga og rúmar 200 manns í sæti. Salurinn býður upp á að vera skipt upp í tvo til þrjá minni sali og því er hægt að vera með mismunandi hópa og gesti samtímis. Galito Bistro Café rekur veitingahluta hússins og þjónustar mat og drykk fyrir gesti hússins.

Undirbúningur og framkvæmd

Bæjarstjórn Akraness samþykkti í maí 2017 að ganga til framkvæmda við byggingu frístundamiðstöðvar þar sem fjárhagsstaða kaupstaðarins var og er sterk ásamt ríkti mikil samstaða innan bæjarstjórnar að fara í þessa framkvæmd. Akraneskaupstaður hefur fullt eignarhald á húsnæðinu sem er í anda áætlun bæjarstjórnar að eiga að fullu öll íþróttamannvirki á Akranesi. Útboð á framkvæmd var um mitt ár 2017 og hófust verklegar framkvæmdir í janúar 2018. Fyrsti áfangi hússins var tekinn í notkun í desember 2018 og annar áfangi í apríl síðastliðinn. Heildarframkvæmdartími var því um 14 mánuðir og kostnaður um 380 m.kr. sem stóðst áætlun. Frístundamiðstöðin er 1000 m2 að stærð, 700 m2 1. hæð og 300 m2 kjallari. Aðalhönnuður hússins var Halldór Stefánsson og Runólfur Sigurðsson Alhönnun sá um byggingateikningar. Verkfræðiteikningar vann Mannvit og kynningarteikningar vann Rut Sigurmonsdóttir. Verkefnastjóri framkvæmdarinnar var á höndum Guðmundar Sigvaldasonar framkvæmdarstjóra golfklúbbsins og einnig voru starfandi byggingarnefnd sem skipaði Sigurð Pál Harðarson sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs og Guðmund Sigvaldason og framkvæmdanefnd sem skipaði Alfreð Þór Alfreðsson, Lárus Ársælsson og Guðmund. Yfir 20 verktakar komu að framkvæmdinni og var meirihluti þeirra héðan af Akranesi.  

Meðfylgjandi eru svipmyndir frá deginum sem Myndasmiðjan tók.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00