Fara í efni  

Fjárhagsstaða Akraneskaupstaðar styrkist með hverju ári sem líður

Ársreikningur Akraneskaupstaðar var lagður fram í bæjarráði mánudaginn 19. apríl síðastliðinn og var vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn Akraness sem fór fram þann 24. apríl. „Ljóst er að Akraneskaupstaður hefur fulla ástæðu til þess að vera sveitarfélag í sókn. Fjárhagsstaða bæjarins styrkist með hverju ári sem líður og á næstu árum munum við sjá afköst þess en mikil uppbygging er í bæjarlandinu um þessar mundir og gefum við ekkert eftir á næstu misserum.Útboð Dalbrautarreits er farið í gang og sömuleiðis fimleikahússins. Nýtt frístundahús á Garðavelli lítur dagsins ljós á næsta ári og niðurrif mannvirkja á Sementsreit ganga vonum framar.“ Segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri sem fór yfir helstu niðurstöður ársreikningsins í upphafi fundarins.

Afkoma Akraneskaupstaðar á árinu 2017 er betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og rekstrarniðurstaða A-hluta nam 722,2 m.kr. fyrir óreglulega liði. Til óreglulegra liða á árinu telst uppgjör á lífeyrisskuldbindingum við Brú lífeyrissjóð vegna breytinga á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna sbr. lög nr. 127/2016. Rekstrarafkoma A-hluta, að teknu tilliti til óreglulegra liða, nam 245,6 m.kr. en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkoma að fjárhæð 179,4 m.kr. að teknu tilliti til óreglulegra liða. EBITDA framlegð A- hlutans eykst verulega milli ára og nemur 12,5% á árinu 2017 en nam 4,3% á árinu 2016. Veltufjárhlutfall A- hlutans er enn mjög sterkt og nemur 1,7 í árslok 2017.

Skuldahlutfall A-hluta fer áfram lækkandi og er 98% í árslok 2017 en var 99% í árslok 2016. Eiginfjárhlutfall A- hluta er í árslok 52% og lækkar lítillega frá árinu 2016 eða um 3,0%. Veltufé frá rekstri er 14% og er það í samræmi við meðaltal síðustu ára, þ.e. 2012-2016 sem nemur 14,3%. Fjármögnunarhreyfingar A-hluta á árinu námu samtals 442,5 m.kr. en þar af námu afborganir langtímalána 265,7 m.kr. og  greiðsla lífeyrisskuldbindinga nam 177,3 m.kr.

Rekstrarniðurstaða samstæðunnar, þ.e. A- og B- hluta, var töluvert betri en til stóð og nam rekstrarafkoma samstæðunnar fyrir óreglulega liði 716,3 m.kr. en fjárhagsáætlun ársins hafði gert ráð fyrir 181,9 m.kr. í rekstrarafkomu. Rekstrarafkoma samstæðunnar að teknu tilliti til óreglulegra liða nam 239,7 m.kr. en þá hefur verið gjaldfært uppgjör lífeyrisskuldbindinga A-hluta að fjárhæð 476,6 m.kr. Sveitarfélög höfðu sérstaka heimild til þess að gjaldfæra lífeyrisskuldbindinguna á 30 árum en var ákvörðun bæjarstjórnar að gjaldfæra lífeyrisskuldbindinguna að fullu á árinu 2017 í samræmi við góða reikningsskilavenju.  Með þessu verður lífeyrisskuldbindingin ekki rekstrarlegur baggi í reikningum Akraneskaupstaðar til framtíðar. EBITDA framlegð samstæðunnar nam 11,6% á árinu 2017 hækkar því um 7,7% milli ára og er framlegðin einnig talsvert yfir meðaltali síðustu 5 ára, þ.e. áranna 2012-2016, sem nam 4,5%.

Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga miðast meðal annars við að:

  • Skuldaviðmið sveitarfélaga þ.e. að heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu í reikningsskilum séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum sveitarfélagsins. Skuldaviðmið samstæðu Akraneskaupstaðar í árslok 2017 er 61%.
  • Fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga tilgreina einnig um að rekstrarjöfnuður á hverju þriggja ára tímabili sé jákvæður og er þessi rekstrarjöfnuður hjá Akraneskaupstað jákvæður sem nemur 1.330 m.kr.

Eiginfjárhlutfall samstæðu í árslok 2017 er 50%. Veltufjárhlutfall samstæðunnar mælist 1,6 í árslok 2017 og er sveitarfélagið því vel í stakk búið til að inna af hendi nauðsynlegar greiðslur á næstu 12 mánuðum.

Fundargerð bæjarstjórnar ásamt fylgigögnum má nálgast hér. 


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00