Fara í efni  

Listavinnuskólinn á Akranesi 2025 – Tónlist í öndvegi og skapandi ungmenni

Hér má sjá hluta listavinnuskóla hópsins ásamt Kristjáni og Saidhbhe.
Hér má sjá hluta listavinnuskóla hópsins ásamt Kristjáni og Saidhbhe.

Í sumar hefur Listavinnuskólinn á Akranesi hafið göngu sína á ný, en verkefnið hefur fest sig í sessi sem mikilvægur vettvangur fyrir skapandi störf ungs fólks í bæjarfélaginu. Með stuðningi úr Sóknaráætlun Vesturlands hefur Akraneskaupstaður frá árinu 2023 boðið upp á þetta metnaðarfulla sumarverkefni þar sem áhersla er lögð á listsköpun, sjálfstæða hugsun og samstarf kynslóða.

Árið 2023 hófst vegferðin með myndlistarkonunni Tinnu Royal, sem ásamt hópi ungmenna skapaði heillandi bæjarskreytingar fyrir Írska daga – þar á meðal 30 nýja álfa sem prýddu ljósastaura bæjarins. Árið 2024 tók myndlistarkonan Angela Árnadóttir Snæland við keflinu og lagði áherslu á gagnrýna hugsun í listsköpun. Ungmennin héldu sýningu í lok smiðjunnar þar sem þau spegluðu samfélag sitt í gegnum blóm – og umræðu um hvað sé fagurt, ljótt, rétt eða rangt.

Í ár hefur listavinnuskólinn fengið nýja og kraftmikla stefnu með áherslu á tónlist. Það eru þau Saidhbhe Emily Canning og Kristján Alexander Reiners Friðriksson sem leiða hópinn, en bæði hafa þau djúpa reynslu og brennandi áhuga á að miðla tónlist til ungs fólks.

Saidhbhe er með BA-próf í skapandi tónlistarmiðlun með áherslu á rhythmic píanó og Complete Vocal Technique frá LHÍ, hún hefur lært á píanó, franskt horn, þverflautu og söng frá því hún var fimm ára gömul í tónlistarskóla á Írlandi þar sem hún er fædd og uppalin. Saidhbhe hefur reynslu af því að halda tónlistarsmiðjur fyrir flóttafólk, fólk í endurhæfingu og einstaklinga með heilabilun, ásamt ýmsu öðru. Nýlega tók hún þátt í tónleikum á Írskum dögum – bæði Óður til Írlands og Keltneskt hljóð – þar sem ég söng á írsku og spilaði á þjóðleg hljóðfæri eins og tinflautu (feadóg stáin) og skeiðar (spúnóga). Síðasta vetur starfaði hún sem tónmennta- og myndmenntakennari í Grundaskóla og hefur hún sérstaka ástríðu fyrir írskri tónlist, spuna og skapandi miðlun.

Kristján Alexander er með MT gráðu í kennslufræðum, hann hefur lært á píanó, bassa og trommur frá því hann var barn. Kristján starfar í dag sem tónmenntakennari í Grundaskóla en hef líka annan fótinn í tónlistarsenunni sem flytjandi í fjöldanum öllum af hljómsveitum, þar má nefna Gaddavír og Dys. Kristján hefur tekið virkan þátt í skipulagningu fjölda tónlistarviðburða, sem sjálfboðaliði á Norðanpaunki og K-Town Hardcore fest og einn aðal skipuleggjanda Lilló Hardcore fest. ,,Listavinnuskólinn í ár hefur verið einstakt tækifæri fyrir unglinga til að spreyta sig í tónlist, og þá hefur líka verið gaman fyrir mig að miðla mína þekkingu til þeirra og sjá þau taka tónlistarlegar framfarir“. Segir Kristján.

Rapp grúppan NSS á fyrsta degi þeirra í hljóðvinnslu, en þeir fá aðgang að hljóðveri í Grundaskóla.

Kraftur og fjölbreytni í tónlistarsköpun ungmenna

Í sumar eru það ungmenni fædd 2009 og 2010 sem taka þátt í tónlistarævintýri listavinnuskólans. Þau hafa myndað þrjár ólíkar hljómsveitir sem vinna sjálfstætt að tónlistarsköpun og undirbúningi tónleika:

  • NSS – rapphljómsveit skipuð þeim Bjarka Berg, Viðar Jarl, Kolbeinn Grétar, Adrían Kári, Guðni Geir og Evald Orri Sæmundsen sem semja og flytja eigin texta með tilheyrandi taktsmíði.
  • Strumparnir – pop-rock sveit skipuð þeim Önnu Lísu (Söngur) Jónasi Laxdal (Rafmagns gítar) Lindu Kristey (Söngur) og Ara Úlrik (Bassa). Bæði söngvara og hljóðfæraleikara sem vinna að frumsömdu efni og útfærslu þekktra laga.
  • Hland – þungarokksveit skipuð þeim Ísak Óla (Rafmagns gítar), Arnóri Degi (Trommur og percussion), og Nóa Andersen (Rafmagns gítar). Strákarnir láta til sín taka með kraftmiklum hljómi.

Hljómsveitirnar hafa undirbúið efni fyrir pop-up tónleika sem haldnir verða víðs vegar um Akranes yfir sumarið – þar sem bæjarbúar fá að njóta ferskrar tónlistar úr smiðju næstu kynslóðar tónlistarfólks. Að sögn Kristjáns hefur verið einstakt að fylgjast með framvindu hópanna: „Það er gaman að sjá hversu sjálfstæð þau eru og hvernig þau taka ákvarðanir um tónlistina sjálf. Þau vaxa hratt sem tónlistarfólk.“

Saidhbhe bætir við: „Listavinnuskólinn er bæði skemmtilegt og þroskandi verkefni. Tónlist er allt í kringum okkur, og þessi vettvangur gerir ungu fólki kleift að tjá sig, efla sjálfstraust og skapa eitthvað sem skiptir máli.“

Skapandi framtíð í heimabyggð

Með Listavinnuskólanum vill Akraneskaupstaður rækta jarðveginn fyrir barnamenningu og skapa tækifæri fyrir börn og ungmenni til að kynnast listum sem raunverulegu starfsvali. Verkefnið styrkir ekki aðeins menningarlíf bæjarins heldur eykur sjálfstraust og samfélagslega þátttöku ungmenna.

Listavinnuskólinn er hluti af framtíðarsýn Akraneskaupstaðar um að samfélagið sé vettvangur þar sem sköpun, fjölbreytni og tjáning fá að blómstra.

Þess má geta að þau ætla að hefja pop-up tónleikadagskránna með tónleikum á Akratorgi í dag klukkan 17:00!


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00