Fara í efni  

Glæsileg líkamsræktarstöð World Class opnar á Akranesi í haust

Spennandi tímar framundan á Akranesi, í þessu rými mun glæsileg World Class stöð opna.
Spennandi tímar framundan á Akranesi, í þessu rými mun glæsileg World Class stöð opna.

Það ríkir mikil eftirvænting á Akranesi. Í dag skrifuðu Akraneskaupstaðar og Laugar ehf. undir samning um opnun stórglæsilegrar World Class líkamsræktarstöðvar í bæjarfélaginu. Stefnt er að því að opna stöðina um mánaðamót september og október.

Stöðin verður til húsa í bragganum á Jaðarsbökkum. Stöðvarstjórar nýju stöðvarinnar verða þeir Gerald Brimir og Helgi Arnar, sem margir þekkja úr Ægir Gym en þeir munu leiða umbreytinguna yfir í nýja og kraftmikla World Class stöð. Athugið að áfram verður opið í Ægir Gym þar til breytingin yfir í WorldFit Ægir tekur formlega gildi.

Með tilkomu stöðvarinnar opnast íbúum á Akranesi enn fjölbreyttari möguleikar til heilsueflingar í hágæða aðstöðu sem uppfyllir ströngustu gæðakröfur.

Heilsuefling fyrir öll – allan sólarhringinn.

Stöðin býður upp á fjölbreytta aðstöðu fyrir alla sem vilja hlúa að líkama og sál. Þar verður meðal annars:

  • Fullbúinn tækjasalur með splunkunýjum tækjum frá LifeFitness og HammerStrength
  • Infrared heitur hóptíma- og jógasalur
  • WorldFit salur
  • PilatesClub (Reformer) salur

Þjónustan hentar jafnt byrjendum sem lengra komnum. Í boði verða opnir hóptímar, WorldFit-þjálfun, sérhæfðir pilates-tímar í PilatesClub, auk þess sem meðlimir fá aðgang að Jaðarsbakkalaug á opnunartíma hennar. Líkamsræktarstöðin verður opin allann sólarhringinn og er það meðal annars hugsað til þess að koma til móts við þá fjölmarga íbúa sem vinna í vaktavinnu.

Einnig er til skoðunar að bjóða upp á frekari þjónustu á borð við kírópraktík og rakarastúdíó — kærkomnar viðbætur við þá fjölbreyttu heilsu- og vellíðunarþjónustu sem Akranes hefur upp á að bjóða.

Ný störf og öflugur vinnustaður

Opnun World Class á Akranesi skapar um 20 ný störf til að byrja með — meðal annars í stöðum stöðvarstjóra, hóptímakennara, WorldFit- og pilates-þjálfara, ræstinga og mögulegs stuðnings í heilsutengdri þjónustu eins og kírópraktík og rakstri. Lögð verður áhersla á að byggja upp öflugan og fjölbreyttan vinnustað þar sem þjálfun, vellíðan og jákvæð starfsmenning eru í forgrunni.

Aðgangur að 20 stöðvum um land allt

Meðlimir World Class á Akranesi fá, líkt og aðrir meðlimir, sjálfkrafa aðgang að öllum stöðvum World Class á landinu — sem verða alls 20 með tilkomu Akraness. Einnig fylgir aðgangur að 10 sundlaugum víðs vegar um landið, meðal annars í Reykjavík, á Selfossi, Hellu, í Vestmannaeyjum og á Akureyri.

Framtíðin er björt á Akranesi – og hún byrjar í haust.

Með opnun World Class fá íbúar í heilsueflandi bæjarfélagi okkar nú aðgang að einni fullkomnustu líkamsræktarstöð landsins á Jaðarsbökkum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00