Fara í efni  

Einar Skúlason 9.febrúar 1957 – 19.ágúst 2023

Einar Skúlason
9.febrúar 1957 – 19.ágúst 2023

Í dag kveðjum við góðan félaga, vin og manneskju sem hafði mikil áhrif á börn og ungmenni á Akranesi í vel á fjórða áratug.

Einar bjó yfir þeim einstaka eiginleika að fara aldrei í manngreinarálit, hann kom jafnt fram við alla og hjá honum fengu allir tækifæri. Einar var alltaf tilbúin til að hlusta og aðstoða eftir fremsta megni og reyndist mörgum vel.

Þegar hugsað er til baka um allan þann fjölda ungmenna sem áttu þess kost að kynnast Einari og fá leiðsögn í félagsmiðstöðinni og unglingavinnunni á Skaganum þá rifjast upp ljúfar minningar. Minningar um það góða starf sem Einar stýrði í vinnuskólanum og sem forstöðumaður Arnardals.

Blákaldar staðreyndir og samtal um hlutina eins og þeir voru. Einar lagði mikla áherslu á heiðarleika, vinnusiðferði, kurteisi og stundvísi. Undirbúningur fyrir lífið og vinnumarkaðinn var honum kappsmál og aldrei reyndi maður að koma sér undan verkum. Hann var óspar á hrós þegar maður átti það skilið og heiðarlegur var hann ef það þurfti að gera betur.

„Mætið á réttum tíma“, „ekki eyða tíma í að kvarta og kveina“, „þetta er ekki það erfiðasta sem þið lendið í“, „ef þið vinnið þetta hratt og vel þá veitir það vellíðan“, „...svo tökum við góða pásu á eftir“.

Einar var oftar en ekki fyrsti yfirmaður unglinga á Akranesi þegar þau stigu sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Hann var leiðbeinandi, mentor, vinur og stuðningsmaður.

Hann tók alltaf fullan þátt í viðburðum á vegum Arnadals og var ófeimin við að taka að sér ýmis hlutverk. Hann gerði óspart grín af sjálfum sér en passaði vel upp á aðra.

Einar var hafsjór af fróðleik, en tónlist stóð þar framar öðru og spilaði hún stórt hlutverk allt til síðasta dags í lífi Einars.

Það er söknuður og eftirsjá en fyrst og fremst þakklæti sem eru efst í huga á þessum degi.

Minningu um Einar er best haldið á lofti með því að rækta þau góðu gildi sem hann kenndi okkur á unglingsárunum, heiðarleika, kurteisi, stundvísi og jafnrétti.

Við vottum fjölskyldu og vinum Einars okkar dýpstu samúð.

Fyrir hönd æskulýðs Akraness síðastliðna áratugi langar okkur að fá að segja,

Takk.

 

 

Hér fyrir neðan má sjá minningargrein sem birtist í morgunblaðinu, frá starfsmönnum Akraneskaupstaðar.

Fallinn er frá kær vinnufélagi okkar Einar Skúlason. Einar var starfsmaður Akraneskaupstaðar frá árinu 1987 til og með 2020. Hann var lengst af æskulýðsfulltrúi og sá þá m.a. um félagsmiðstöðina Arnardal. Síðar varð hann rekstrarstjóri Vinnuskólans ásamt því að sinna öðrum sértækum verkefnum fyrir kaupstaðinn.

Einar var mjög vinsæll í sínu starfi. Ungdómurinn naut þess að vera í samskiptum við hann, þar sem hann átti auðvelt með að setja sig í þeirra spor auk þess sem víðtæk tónlistarþekking hans smitaði út frá sér. Það sem einkenndi hann í þessu starfi var að hann var góður félagi en um leið náði hann alltaf að halda uppi góðum aga. Það birtist m.a. í því að krakkar vöndust á að mæta á réttum tíma til vinnu í Vinnuskólanum og á þá viðburði sem voru hverju sinni.

Einar hafði mikinn metnað í sínu starfi þannig að eftir var tekið. Allt sem hann kom nálægt stóðst eins og stafur á bók. Metnaður hans fyrir hönd kaupstaðarins og unglinganna var ómetanlegur og verður lengi í minnum hafður.

Einar var hrókur alls fagnaður á vinnustaðarskemmtunum þar sem hann oftar en ekki spilaði undir á gítar af sinni alkunnu snilld, alveg sama hvaða lag var beðið um, Einar kunni þau öll.

Við starfsmenn viljum að lokum fá að þakka kærum vini og vinnufélaga samfylgdina og um leið votta fjölskyldu hans og vinum okkar dýpstu samúð.

Starfsmenn Akraneskaupstaðar


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00