Fara í efni  

Ályktun bæjarstjórnar Akraness um að fyrirhuguð stofnun þjóðgarða og friðlýstra svæða verði starfrækt á Akranesi

Á fundi bæjarstjórnar Akraness þann 26. febrúar var svohljóðandi bókun lögð fram og samþykkt einróma:

Bæjarstjórn Akraness skorar á Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfisráðherra að höfuðstöðvar nýrrar stofnunar um þjóðgarða og friðlýst svæði (hér eftir nefnd Þjóðgarðastofnun) verði staðsettar á Akranesi og að ný stofnun verði starfrækt með samlegð við Landmælingar Íslands. Hjá Landmælingum starfa nú 26 sérfræðingar en hjá nýrri stofnun munu mögulega starfa nokkrir tugir starfsmanna í heilsárstörfum auk fjölda landvarða í sumarstörfum og flestir þeirra munu sækja vinnu á starfstöðum þjóðgarða og friðlýstra svæða víða um land. Aðeins lítill hluti starfsmanna (mögulega 10%) nýrrar stofnunar munu starfa í höfuðstöðvunum.

Bæjarstjórn telur að með þessu megi stuðla að hagkvæmni í ríkisrekstri, húsrými er nægt fyrir báðar stofnanir í húsnæði Landmælinga á Akranesi og að áliti bæjarstjórnar mun starfsemi beggja stofnana styrkjast með slíkri samvinnu s.s. með því að nýta sameiginlega innviði á sviði upplýsingatækni, mannauðsmála, fjármálastjórnunar og gæðamála.

Akranes er hlutlaust svæði og ekki bundið af hagsmunum þeirra landsvæða þar sem þjóðgarðar eða friðlýst svæði eru rekin. Einnig samræmist staðsetning Þjóðgarðastofnunar á Akranesi þeim sjónarmiðum að nýjum stofnunum og opinberum störfum skuli fundinn staður á landsbyggðinni. Um leið er Akranes nálægt Reykjavík og býður þar með upp á nálægð við bæði stjórnsýslu og helstu ferðamannasvæði, sem stuðlar að skilvirkni.  Staðsetning starfa á Akranesi hentar bæði fyrir þá starfsmenn sem þar kjósa að búa og einnig fyrir þá starfsmenn sem vilja búa fyrir sunnan göng.

Þetta er að dómi bæjarstjórnar, frábært tækifæri til að skapa þessum tveimur stofnunum aðstæður þar sem einn plús einn gæti orðið miklu meira en bara tveir.

Bæjarstjórn Akraness vill benda á að nýlega höfum við misst bæði sýslumanns- og lögreglustjóraembætti og bæjarstjórn stendur nú í mikilli baráttu við að verja þau störf sem eftir eru hér á vegum þessara embætta.  Vesturland kemur verst út meðal landshluta þar sem einungis 3% opinberra starfa eru en 5% íbúa og hefur þeim einungis fjölgað um 1,8% frá 2013 – 2017 á meðan störfum á vegum ríkisins hefur fjölgað um 9,6% á landinu öllu.[1]"

Ályktunin er send umhverfis- og auðlindaráðherra, umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og þingmönnum Norðvesturkjördæmis.



[1] Á meðan fjölgunin á Suðurnesjum er 55%, á Norðurlandi eystra 15%, á Vestfjörðum 10%, á höfuðborgar-svæðinu 8%, á Austurlandi 7%, á Suðurlandi 4%.  Tölur fengnar úr kynningu Vífils Karlssonar,hagfræðings SSV á málþinginu „Ríkisstofnun úti á landi – búbót eða basl “ sem haldið var á Akranesi 22. febrúar 2019. 


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00