Akranes iðar af menningu á Vökudögum 2025
Í lok október og byrjun nóvember verða mannlíf og menning í forgrunni þegar Vökudagar 2025 taka yfir bæinn dagana 23. október til 2. nóvember. Þá fyllast götur, vinnustofur og salarkynni listum, tónlist, orku og lífi.
Hátíðin er sameiginlegt afrek samfélagsins – samspil einstaklinga, hópa, fyrirtækja og stofnana sem leggja sitt af mörkum til að skapa lifandi, fjölbreytt og hlýlegt menningarumhverfi. Í ár er boðið upp á um 90 viðburði, og ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi – allt frá tónleikum og listasýningum til smiðja, bókmenntakvölds og skapandi uppákoma fyrir alla aldurshópa.
Vökudagar minna okkur á mikilvægi þess að rækta menningu og sköpun, ekki aðeins fyrir listafólk, heldur fyrir okkur öll. Þegar við gefum okkur tíma til að mæta, upplifa og taka þátt í menningarviðburðum, eflum við samfélagið, sköpum samkennd og bætum birtuna í skammdeginu. Menningin er lífæð samfélagsins – hún styrkir tengsl milli fólks, vekur forvitni, örvar ímyndunarafl og byggir upp sameiginlega reynslu sem við deilum sem bæjarbúar.
Hápunktar hátíðarinnar eru margir: Setningarhátíð og Listaganga Vökudaga fimmtudaginn 23. október, þar sem veitt verða Menningar- og umhverfisverðlaun Akraneskaupstaðar og í kjölfarið ganga bæjarbúar um Akranes og líta við á sýningaropnunum, listafólk opnar vinnustofur sínar fyrir gestum og margar verslanir hafa opið lengur. Þá verða haldnar tvær tónlistarhátíðir – HEIMA-SKAGI, þar sem tónleikar fara fram í heimahúsum, hjá fyrirtækjum og í menningarhúsum bæjarins, og Lilló Hardcorefest, kraftmikil pönkhátíð í Gamla Landsbankanum. Einnig verður hið sívinsæla Bókmenntakvöld Bókasafns Akraness haldið, þar sem gestir geta notið lestrar, samtala og fundið innblástur í orðum höfunda. Í ár verður einstakur viðburður á dagskrá þar sem við heiðrum bæjarlistamann Akraness 2025 Orra Harðarson á huggulegri kvöldstund á Bókasafninu, hvetjum fólk til að skrá sig og ná sæti á ,,Minning um Orra"
Við bendum sérstaklega á fjölbreytta dagskrá fyrir börn og ungmenni, þar sem þau fá tækifæri til að skapa, læra og njóta – því framtíð menningarinnar byggir á forvitni þeirra og þátttöku. Á viðburðardagatali Vökudaga má finna alla viðburði ætlaða börnum með sérstakri merkingu.
Öll dagskrá Vökudaga 2025 er aðgengileg á viðburðardagatali Akraneskaupstaðar, og á heimasíðu kaupstaðarins má einnig má finna rafrænan bækling og heildaryfirlit hátíðarinnar.
Vökudagar 2025 – menningin sem lýsir upp myrkrið.
Komdu, sjáðu og taktu þátt í hátíð sem fagnar sköpun, samveru og samfélagi.
Fréttasafn
- 2025
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember