Fara í efni  

Vökudagar voru formlega settir í gær

Gyða L. Jónsdóttir Wells
Gyða L. Jónsdóttir Wells

Vökudagar voru formlega settir í gær þann 27. október í Safnaskála Byggðasafnsins í Görðum með afhendingu menningarverðlauna Akraness og opnun þriggja sýninga.

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri ávarpaði gesti og kynnti sýningarnar sem eru sýning Gyðu L. Jónsdóttur Wells í Guðnýjarstofu,  Hver vegur að heiman er vegur heim en nafnið er tilvísun í ljóð Snorra Hjartarsonar Langt af fjöllum, sýningu Dýrfinnu Torfadóttur í Garðakaffi, Skart við skóna og sýninguna Bannárin, brennivínið og bæjarbytturnar í Stúkuhúsinu í umsjón þeirra Gerðar Jóhannsdóttur héraðsskjalavarðar og Nönnu Þóru Áskelsdóttur deildarstjóra ljósmyndasafnsins.  

Sýning Gyðu spannar ævistarf listamannsins og þar kennir ýmissa grasa. Leirlistaverk Gyðu eru fyrirferðamest á sýningunni en þar eru einnig sýnd málverk, teikningar og myndir af listaverkum frá Kings Cross lestarstöðinni og undirgöngum við Blackfriers Bridge og Dover í London sem Gyða vann að. Gyða verður með sýnikennslu á sýningunni alla laugardaga í október og nóvember en sýning hennar stendur a.m.k. til 25 nóvember. Sýningarstjóri er Guðrún Sigríður Haraldsdóttir, listamaður og sýningahönnuður, sem kom frá London gagngert til að vinna að uppsetningu sýningarinnar. Félagar úr Kirkjukór Akraness fluttu óskalög listakonunnar við sýningaropnun og Gunnar Kvaran sellóleikari og Haukur Guðlaugsson fyrrum tónlistarskólastjóri og organisti á Akranesi sem og söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar, léku nokkur lög af sinni alkunnu snilld.

Í Garðakaffi opnaði sýningin Skart við skóna. Það er gullsmiðurinn Dýrfinna Torfadóttir sem sýnir handsmíðaða skartgripi við skópör en hún hefur haft dálæti á skóm frá því hún man eftir sér. Í skartgripina notar Dýrfinna margvíslegt hráefni, allt frá akrýlplasti til fiskroðs. Hver gripur er hannaður og unninn sérstaklega út frá hverju skópari sem eru 14 talsins. Skartgripirnir eru allir unnir í ár en skópörin hefur Dýrfinna eignast á seinustu 20 árum.

Sýningin Bæjarbytturnar, brennivínið og bannárin opnaði í Stúkuhúsinu. Það eru söfnin á Akranesi sem standa að sýningunni en þar er fjallað um forsögu þess að vínbannið var sett á og þær hreyfingar sem börðust fyrir banninu. Jafnframt er fjallað um smygl, brugg og þekkta Akurnesinga sem þótti sopinn góður. Fimmtudagskvöldið 3. nóvember mun Stefán Pálsson sagnfræðingur halda fyrirlestur um efnið í Stúkuhúsinu og Gunnar Sturla Hervarsson flytja drykkjuvísur.

Menningarverðlaun Akraness árið 2016 voru einnig kynnt við athöfnina en það var formaður menningar- og safnanefndar, Ingþór Bergmann Þórhallsson sem kynnti val nefndarinnar þetta árið sem er félagsskapurinn Club 71.

Hér má sjá myndir frá setningunni


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00