Fara í efni  

Uppbygging hefst á Dalbrautarreit

Akraneskaupstaður og Bestla ehf. undirrituðu fyrr í dag samning um úthlutun og uppbygginu á lóð við Dalbraut 4 á Akranesi. Undirritunin átti sér stað í húsakynnum félagsstarfs eldri borgara (FEBAN) að Kirkjubraut sem þótti afar viðeigandi, einkum vegna þess í umræddu húsnæði á Dalbraut 4 verður húsnæði fyrir þjónustumiðstöð aldraðra. Dagurinn var afar hátíðlegur og voru viðstödd undirskriftina bæjarstjórn og bæjarstjóri Akraness, Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra, fulltrúar frá fyrirtækinu Bestla ehf., fulltrúar frá FEBAN, embættismenn Akraneskaupstaðar og fjölmargir aðrir gestir.

Viðar Einarsson formaður FEBAN tók fyrstu manna til máls og fór yfir aðdraganda að ákvörðun um byggingu húsnæðis fyrir félagsstarf aldraða á Akranesi og lýsti yfir einlægri ánægju með niðurstöðuna og um samstarf FEBAN með bæjarstjórn og bæjarstjóra. Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri tók næstur til máls og þakkaði FEBAN fyrir ánægjulegt samstarf og fagnaði því að loks væri komin niðurstaða sem allir hluteigandi aðilar væru sammála um. Hann kynnti stuttlega fyrirtækið Bestlu sem mun hefja uppbyggingu á reitnum um leið og allar teikningar eru tilbúnar og samþykktar. Sigurður Páll Harðarson sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs fór yfir skipulagsmál á Dalbrautarreitnum og næstu skref sem framundan eru. Ólafur Adolfsson og Vilborg Þórunn Guðbjartsdóttur tóku næst til máls f.h. bæjarstjórnar þar sem farið var annars vegar yfir niðurstöðu íbúaþings um farsæl efri ár á Akranesi sem haldið var í september síðastliðinn og hins vegar yfir verkefni sem meirihlutinn hefur unnið að á kjörtímabilinu í þessu sambandi. Ásmundur Einar ráðherra var síðastur á mælendaskrá og lýsti hann einnig ánægju sinni með uppbygginguna sem á sér stað á Akranesi um þessar mundir, ljóst væri að Akranes er bæjarfélag í sókn.  

Að lokinni formlegri dagskrá var skrifað undir samninginn og gætt sér á kaffi, kleinum og kökum í boði FEBAN. „Það má segja að við svífum um á skýi, að klára stórt mál eins og þetta er afar ánægjulegt. Við hlökkum til að hefja þá vinnu að hanna nýja húsnæðið þar sem félagsstarfið verður staðsett. Húsnæðið sem um ræðir verður u.þ.b. 1.270 m2 að stærð í heild og verður þetta líklega staðurinn þar sem flestu dansleikirnir verða haldnir í framtíðinni“ segir Sævar Freyr með bros á vör.

Í byrjun apríl síðastliðinn auglýsti Akraneskaupstaður eftir kauptilboðum í byggingarrétt á fjórum lóðum á Dalbrautarreitnum svokallaða, Þjóðbraut 3 og 5 og Dalbraut 4 og 6. Bestla skilaði tilboði í Dalbraut  og var það eina tilboðið sem barst. Lóðirnar sem ekki var boðið í verða fljótlega settar inn á lista yfir lausar lóðir á heimasíðu Akraneskaupstaðar. 

Akraneskaupstaður sendir öllum hamingjuóskir með daginn. Hér að neðan eru myndir frá athöfninni.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00