Fara í efni  

Umhverfisviðurkenningar 2022 voru afhentar við setningu Vökudaga

Undanfarin ár hefur Akraneskaupstaður veitt viðurkenningar í þágu umhverfisvitundar, hvernig fólk skynjar umhverfi sitt og hefur áhrif á snyrtingu og fegrun þess. Oft á tíðum er þetta fólk fyrirmyndir annarra varðandi atriði sem skipta máli í uppbyggingu og framtíðarmynd bæjarins.

Verðlaunaafhending fór fram við setningu Vökudaga í Tónbergi þann 27. október.

Í ár var unnið með fjögur þemu:

• Falleg einbýlishúsalóð - þar sem horft er til umhirðu húss og lóðar, hönnunar, notkunarmöguleika og fjölbreytileika í gróðri.

• Falleg aðkoma – þar sem horft er til samspils milli götu, húss og hönnunar þar sem framhliðar húsa eru andlit heimilisins.

• Tré ársins –þar sem horft er til útlits og menningarlegs gildis einstakra trjáa

• Samfélagsverðlaun - eru veitt hópum eða einstaklingum sem hafa unnið óeigingjarnt starf í þágu umhverfisins.


Bakkatún 4 - Fallegasta einbýlishúsalóðin. 

Viðurkenningu fyrir fallega einbýlishúsalóð fengu þau Brynhildur Björnsdóttir og Guðmundur Sigurbjörnsson fyrir lóð sína að Bakkatúni 4. Lóðin er á sögulegum stað á horni Vesturgötu og Bakkatúns, búið er að opna fyrir sýn inn á lóðina sem nýtur sín vel séð frá götunni. Lóðin er vel hirt og snyrtileg, með fallegri aðkomu og forgarði við innkeyrslu. Fjölbreyttur gróður er í henni miðað við erfiðar ræktunaraðstæður á Neðri Skaga. Lóð og umhverfi til fyrirmyndar.


Esjubraut 18 - Falleg aðkoma.

Viðurkenningu fyrir fallega aðkomu fékk Einar Ottó Jónsson fyrir forgarð sinn að Esjubraut 18. Garðurinn er í heild sinni einn ævintýragarður en sérstaka athygli vakti framhliðin þar sem samspil húss og götu er til fyrirmyndar og myndar skemmtilegt andlit heimilisins með einstaklega fjölbreyttum og sérstökum gróðri.


Vesturgata 63 - Tré ársins. 

Tré ársins stendur við Vesturgötu 63, húsið er í eigu Ingunnar Sveinsdóttur og Jónasar H. Ottóssonar. Tréð er um 60 ára gamalt sitkagreni. Það stendur framan við gamalt steinhús, og gefur húsinu og götumyndinni sérstakan svip. Ásýndin minnir á gamla tímann. Tréð hefur mátt þola ýmislegt í gegnum tíðina og er gott merki um það að gróður getur vel þrifist á Skaganum.


Katrín Leifsdóttir - Samfélagsverðlaun. 

Samfélagsverðlaunin í ár hlaut Katrín Leifsdóttir fyrir hreinsun og snyrtingu á umhverfi bæjarins, þar sem umhverfisvitund og umhyggja er í hávegum höfð. Mikilvæg fyrirmynd fyrir aðra íbúa í flokki plokkara. Katrín fer fyrir hópi þeirra sem er umhugað um bæinn og vilja taka til hendinni við að halda honum fallegum og snyrtilegum.

Öllum aðilum var þakkað kærlega fyrir þeirra hlut í að gera bæinn fallegri og vernda umhverfið. Framlag allra þessara aðila er dýrmætt fyrir umhverfi sveitarfélagsins og er þátttaka þeirra í að fegra bæinn frábær fyrirmynd annarra íbúa.

Akraneskaupstaður óskar viðurkenningarhöfum innilega til hamingju .

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá afhendingu verðlaunanna.


Guðmundur Ingþór formaður skipulags- og umhverfisráð, Jón Arnar Garðyrkjustjóri, Brynhildur Björnsdóttir, Sævar Freyr bæjarstjóri. 


Jón Arnar garðyrkjustjóri, Ásta Huld, Guðmundur Ingþór formaður skipulags- og umhverfisráðs, Sævar Freyr bæjarstjóri. 


Jón Arnar garðyrkjustjóri, Ingunn Sveinsdóttir, Jónas H. Ottósson, Sævar Freyr bæjarstjóri, Guðmundur Ingþór formaður skipulags- og umhverfisráðs. 


Jón Arnar garðyrkjustjóri, Katrín Leifsdóttir, Guðmundur Ingþór formaður umhverfis- og skipulagsráðs, Sævar Freyr bæjarstjóri. 


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00