Fara í efni  

Tekjuafgangur hjá Akraneskaupstað

Ljósmynd: Michal Mogila
Ljósmynd: Michal Mogila

Ársreikningur Akraneskaupstaðar var lagður fram í bæjarráði síðastliðinn fimmtudag og var vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 28. apríl næstkomandi.

Afkoma Akraneskaupstaðar árið 2014 er betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, en rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 292 m.kr. eða um 6,2% af tekjum. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2014, ásamt viðaukum gerði ráð fyrir 138,1 m.kr. afgangi í A-hluta. Rekstrarafkoma A-hluta er því um 154 m.kr. hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Kennitölur úr rekstri A-hluta sýna sterka stöðu bæjarsjóðs. Skuldahlutfall A-hluta fer lækkandi og er 116%. Veltufé frá rekstri A-hluta er 779,4 m.kr. sem er um 16,5% af rekstrartekjum og eigið fé A-hluta nemur 6.229 m.kr. og er eiginfjárhlutfallið 53%. 

Rekstrarniðurstaða samstæðunnar, A og B hluta er einnig jákvæð og er rekstrarafgangur um 145,7 m.kr. en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu um 46,7 m.kr. Kennitölur samstæðunnar bera einnig vott um góða stöðu en veltufé frá rekstri er um 787,4 m.kr. sem er um 14,7% af rekstrartekjum. Eigið fé samstæðunnar nemur 5.398 m.kr. og er eiginfjárhlutfall 44%. Skuldahlutfall samstæðunnar er 126%.

Akraneskaupstaður fjárfesti á árinu fyrir um 387,7 m.kr. í varanlegum rekstrarfjármunum. Helstu framkvæmdir voru yfirlagningar á götum, viðbygging í Grundaskóla og endurgerð Akratorgs en einnig var hluti kaupverðs vegna Dalbrautar 6,  fyrir félagsaðstöðu eldri borgara greidd á árinu 2014. Greidd voru niður lán að fjárhæð um 262 m.kr. og greiðsla á lífeyrisskuldbindingu var um 76,9 m.kr.  Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri segir að Akraneskaupstaður hafi markvisst greitt niður lán á undanförnum árum en á síðustu þremur árum hafi Akraneskaupstaður greitt niður lán um einn milljarð króna. Lífeyrisskuldbindingar kaupstaðarins eru háar og skiptir því miklu máli að ná niður skuldum á móti. 

 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00