Fara í efni  

Skuldahlutfall Akraneskaupstaðar lækkar verulega

Akranesviti
Akranesviti

Samþykkt var á fundi bæjarstjórnar Akraness þann 8. nóvember að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2017 svo og þriggja ára áætlun fyrir árin 2018-2020 til síðari umræðu í bæjarstjórn þann 13. desember næstkomandi.

Á árinu 2017 er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu í A hluta, rúmlega 185 milljónum króna og 171 milljóna króna afgangi í samstæðunni í heild, A og B hluta.

Veltufé frá rekstri er áætlað 692 milljónir í A og B hlutanum eða 10,8% af rekstrartekjum, veltufjárhlutfall A og B hluta verði 1,6, skuldahlutfall A hluta 92,6% og skuldahlutfall A og B hluta 88% . Skuldahlutfall samstæðunnar lækkar verulega á milli ára, þar sem lífeyrisskuldbinding vegna hjúkrunarheimilisins Höfða verða yfirteknar af ríkinu frá og með árinu 2016 í samræmi við samkomulag fjármálaráðherra og formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 28. október síðastliðinn. Skuldahlutfall A hluta lækkar einnig mikið þar sem afborganir af lánum hafa verið töluverðar en Akraneskaupstaður hefur greitt niður langtímalán um einn milljarð og sjö hundruð milljónir króna á undanförnum fimm árum.

Gert er ráð fyrir 2,1 milljarði króna í fjárfestingar og framkvæmdir á árunum 2017 til 2020 án lántöku. Á fundinum kom fram að samstaða ríki á meðal bæjarfulltrúa um helstu verkefni sem þarf að ráðast í á næstu árum, meðal annars endurbyggingu gatna og uppbyggingu og viðhaldi á íþróttamannvirkjum og skólahúsnæði. Ennfremur þarf að huga að frekari þróun á Dalbrautarreit og Sementsreitnum. Bæjarfulltrúar lýstu yfir ánægju með þá samvinnu sem hefur átt sér stað á milli meirihluta og minnihluta við forgangsröðun verkefna en haldnir hafa verið þrír vinnufundir með öllum bæjarfulltrúum þar sem farið hefur verið yfir fyrirliggjandi verkefni og óskir.  Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun verður tekin fyrir við síðari umræðu í bæjarstjórn sem fer fram þann 13. desember næstkomandi, en samþykkt var að fela skipulags og umhverfisráði að ganga endanlega frá forgangsröðun verkefna til fjögurra ára og senda tillögu þar að lútandi til bæjarráðs.

Gert er ráð fyrir óbreyttu útsvari, 14,52 %, sömu álagningarhlutföllum í fasteignasköttum og á árinu 2016, og lóðarleigu sem verði áfram 1,598% af fasteignamatsverði atvinnulóða og 1,055% af fasteignamatsverði íbúðarhúsalóða. Þjónustugjaldskrár taki mið af verðlagsþróun og munu hækka um 3,2 %.

Íbúafjölgun á Akranesi er tæplega 2% á milli áranna 2015 og 2016 en íbúum hefur fjölgað um 136 á einu ári og búa nú 7.021 íbúi á Akranesi.

Hér í fundargerð bæjarstjórnar má sjá fjárhagsáætlun 2017, þriggja ára áætlun 2018 til 2020,  ræðu bæjarstjóra við framlagningu frumvarpsins og glærur sem fylgja með ræðunni.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00