Fara í efni  

Skagamenn létu ljós sitt skína á Menningarnótt

Það fór eflaust ekki framhjá neinum að Menningarnótt var haldin í Reykjavík um síðastliðna helgi og var Akraneskaupstaður sérstakur heiðursgestur þeirrar hátíðar í ár. Framlag Akraness til Menningarnætur var sýningin Af bæ í borg í húsnæði Messans við Grandagarð 8. Á sýningunni komu bæjarlistamenn Akraness frá upphafi saman og létu ljós sitt skína. Þá kynntu matvælaframleiðendur frá Akranesi jafnframt afurðir sínar við þetta tækifæri. Fjölmargir Skagamenn sem og aðrir gestir litu við og nutu þess sem var í boði.

Það voru þeir Björn Blöndal borgarfulltrúi og staðgengill borgarstjóra og Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri sem opnuðu sýninguna og þar á eftir tóku Sveinn Arnar Sæmundsson bæjarlistamaður 2012 og Kalmans kórinn nokkur lög. Á sýningunni mátti sjá og versla skart eftir Dýrfinnu Torfadóttur bæjarlistamann 2010, leirlist eftir Kolbrúnu Kjarval bæjarlistamann 2017 og myndir og leirlist eftir Gyðu Jónsdóttur Wells bæjarlistamann 2015. Rithöfundarnir Kristján Kristjánsson (2002), Kristín Steinsdóttir (1998) og Sigurbjörg Þrastardóttir (2013) sýndu bækur sínar og lásu upp fyrir gesti ásamt því sem verk Braga Þórðarsonar (2004) voru einnig til sýnis. Þá mátti einnig skoða og kaupa málverk eftir myndlistarmennina Bjarna Þór Bjarnason (1997) og Ernu Hafnes (2014). Helena Guttormsdóttir myndlistamaður og bæjarlistamaður árið 1993 sýndi verk sín ásamt verkum föður síns, Guttorms Jónssonar högglistamanns sem var bæjarlistamaður árið 1994. Philippe Ricart handverksmaður og bæjarlistamaður árið 1996 sýndi og seldi verk sín ásamt því mátti sjá listaverk eftir Hrein Elíasson sem var bæjarlistamaður árið 1992. Smári Vífilsson bæjarlistamaður árið 2001 tók lagið ásamt Arnhildi Valgarðsdóttur sem lék á píanó og rétt um klukkan 18 tóku Slitnir strengir, sem voru bæjarlistamaður árið 2016 og samanstendur af fiðluleikurum ásamt undirspilurum nokkur vel valin lög fyrir gesti utandyra í sól og blíðu. Gestum gafst jafnframt kostur á því að smakka góðgæti frá Vigni G. Jónssyni, Norðanfiski, Akraborg, Verslun Einars Ólafssonar og Kaja organic.

Skemmst er frá því að segja að farþegar Akranesferjunnar voru tæplega 700 talsins þennan dag. Ferjan sigldi 7 ferðir milli Reykjavíkur og Akraness og að sögn Gunnlaugs Grettissonar forstöðumanns Sæferða ríkir mikil ánægja með þennan dag enda gat veðrið ekki verið betra. Fram að mánaðarmótum mun ferjan sigla fjórar ferðir á dag alla virka daga sem og einnig tvær ferðir 26. og 27. ágúst næstkomandi.

Akraneskaupstaður þakkar bæjarlistamönnum og matvælaframleiðendum fyrir gott samstarf við framkvæmd og undirbúning sýningarinnar sem og allra annarra sem að henni komu. Myndir frá deginum má skoða hér fyrir neðan.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00