Fara í efni  

Samstarf um átak í eldvörnum á Akranesi

Mynd tekin við undirritun fyrr í dag.
Mynd tekin við undirritun fyrr í dag.

Eldvarnabandalagið og Akraneskaupstaður hafa gert með sér samkomulag um að efla eldvarnir á heimilum og í fyrirtækjum og stofnunum á Akranesi. Markmið samstarfsins er meðal annars að þróa verkefni sem geta nýst öðrum við eldvarnafræðslu og innleiðingu eigin eldvarnaeftirlits fyrirtækja og stofnana. Samstarfið felur í sér að Akraneskaupstaður innleiðir eigið eldvarnaeftirlit í stofnunum sínum í haust samkvæmt gögnum sem Eldvarnabandalagið hefur útbúið. Þá verður fræðslu um eldvarnir beint að umsækjendum um húsaleigubætur en rannsóknir sýna að eldvarnir eru mun lakari í leiguhúsnæði en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði.

Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi, segir spennandi fyrir Akraneskaupstað að taka þátt í verkefninu með Eldvarnabandalaginu. ,,Sveitarfélög hafa samkvæmt lögum ríkar skyldur í eldvörnum með rekstri slökkviliðs og opinberu eldvarnaeftirliti. Með samstarfinu við Eldvarnabandalagið förum við nýjar leiðir til að efla eldvarnir og öryggi fólks og njótum þar mikillar reynslu Eldvarnabandalagsins og efnis sem það hefur gefið út. Ef vel tekst til getur reynslan af þessu samstarfi vonandi nýst öðrum sveitarfélögum og fyrirtækjum og starfsfólki þeirra" segir Regína.

Eldvarnabandalagið hefur útbúið leiðbeiningar og önnur gögn vegna eigin eldvarnaeftirlits fyrirtækja og stofnana og verða þau höfð til hliðsjónar í samstarfinu við Akraneskaupstað. Þjálfaðir verða eldvarnafulltrúar sem annast eftirlit með eldvörnum í stofnunum bæjarins samkvæmt gátlistum Eldvarnabandalagsins. Þá fá allir starfsmenn bæjarins fræðslu um eldvarnir á vinnustaðnum og heima fyrir og verður þeim afhent handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins. Eldvarnabandalagið leggur til allt efni og fræðslu án endurgjalds.

Garðar H. Guðjónsson, verkefnastjóri Eldvarnabandalagsins, segir ánægjulegt að fá tækifæri til að þróa verkefnin í samvinnu við Akraneskaupstað og tæplega 20 stofnanir og nærri 600 starfsmenn hans. ,,Við bindum vonir við að reynslan af samstarfinu hér á Akranesi verði öðrum sveitarfélögum og fyrirtækjum hvatning til að feta sömu braut" segir Garðar.

Eldvarnabandalagið er samstarfsvettvangur um auknar eldvarnir á heimilum og vinnustöðum. Aðild að því eiga: Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, Félag slökkviliðsstjóra, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Mannvirkjastofnun, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf. og Vörður tryggingar hf.

Ljósmynd: sitjandi frá vinstri, Garðar H. Guðjónsson verkefnastjóri Eldvarnabandalagsins, Björn Karlsson forstjóri Mannvirkjastofnunar, Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri, Þráinn Ólafsson slökkviliðsstjóri.

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00