Fara í efni  

Stefnt að opnum íbúafundi með HB Granda í apríl

HB Grandi hefur lagt fram beiðni til skipulags- og umhverfisráðs um stækkun á starfsemi fiskþurrkunar á Breið þar sem forþurrkun á fiski fer fram í dag. Með þessu yrði forþurrkun og eftirþurrkun á fiski á einum og sama stað. Bæjaryfirvöld fengu verkfræðistofuna VSÓ til að leggja mat á þessi áform en það eru Guðjón Jónsson efnaverkfræðingur og Birna Guðbjörnsdóttir matvælafræðingur sem hafa skoðað málið fyrir hönd VSÓ. Verkefni VSÓ er að skilgreina bestu fáanlegu tækni sem er til í fiskþurrkun af þessu tagi ásamt því að afla upplýsinga frá HB Granda um fyrirhugaðan tæknibúnað og vinnsluferli í nýrri verksmiðju.

Fimmtudaginn 19. mars s.l. hélt skipulags- og umhverfisráð vinnufund með VSÓ þar sem allri bæjarstjórn var boðið ásamt fulltrúum í starfshópi um Breiðina og embættismönnum Akraneskaupstaðar.

Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri segir vinnufundinn hafa verið mjög gagnlegan. Til stóð að skipulags- og umhverfisráð og bæjarstjórn færi og kannaði aðstæður í nýrri verksmiðju á Sauðárkróki, en hún á að vera með einna fullkomnasta hreinsibúnaðinn fyrir starfsemi af þessu tagi. Það hefur hinsvegar tekið lengri tíma en til stóð að koma starfseminni í fulla vinnslu og hefur því verið tekin ákvörðun um að fresta ferðinni norður, að minnsta kosti fram yfir páska. Regína segir að bæjaryfirvöld vilji vanda vel til verka og skoða allar hliðar þessa máls áður en nokkrar ákvarðanir verði teknar um stækkunina. Skipulags- og umhverfisráð mun ekki fjalla efnislega um umsókn HB Granda fyrr en nægar upplýsingar liggja fyrir. Þá mun ráðið halda opinn íbúafund um málið þar sem HB Grandi mun kynna fyrirætlanir sínar og þar verður einnig gerð grein fyrir niðurstöðu vinnu  sérfræðinga  VSÓ fyrir Akraneskaupstað.

Stefnt er að því að halda fundinn  í aprílmánuði en hann verður rækilega auglýstur á heimasíðu Akraneskaupstaðar og í Skessuhorni og Póstinum. 


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00