Fara í efni  

Norðurlandameistaramót í eldsmíði fer fram á Akranesi um helgina

Heitt í kolunum

Norðurlandameistaramót í eldsmíði, Byggðasafninu Görðum, Akranesi 11.-14. ágúst 2022.

Nú er komið að því að vera með Norðurlandameistaramót í eldsmíði í annað sinn á Akranesi en liðin eru níu ár frá því að hamarshöggin dundu á slíku móti að Görðum síðast.

Öllu verður tjaldað til, enda koma fulltrúar frá Íslandi, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku, bæði til að keppa og dæma.

Helstu markmið slíks móts er að viðhalda áhuga og þekkingu á hinu forna handverki á Norðurlöndunum. Einnig er kappkostað að viðhalda gæðum við kennslu og vinnslu og að styrkja samstarf eldsmiða á milli Norðurlandanna.

 

Mörg járn í eldinum

Keppt er í þremur flokkum við að búa til Akkeri. Byrjendur fá að spreyta sig með frjálsum efnistökum í fjórar klukkustundir á föstudaginn. Þá munu eldsmíðasveinar spreyta sig á laugardeginum við að smíða skarpt horn og að slá gat á akkerið sitt. Meistara eldsmiðir munu svo þurfa að sýna snilli sína með því að búa til grip með skörp horn, slegið gat, samsuðu og vísa fram teikningu á sínum smíðisgrip. Nokkurra manna lið munu líka keppa frá öllum löndunum seinnipartinn á laugardaginn og þá er eins gott að vera ekki fyrir þegar eldglæringarnar munu skjótast undan sleggjunum.

Mótið er haldið fyrir opnum dyrum á útisvæði Byggðasafnsins og þar verður hægt að fræðast um eldsmíði, hugsanlega versla bæði handverk og léttar veitingar og njóta safnsins um leið.

Keppnin er haldin á vegum félags Íslenskra eldsmiða og styrkt af Sóknaráætlun Vesturlands og Byggðasafninu að Görðum, Akranesi. Formaður Íslenskra Eldsmiða er Guðmundur Sigurðsson. s. 8694748 / klett@simnet.is


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00