Fara í efni  

Húsfyllir á íbúafundi um breytingar á Kirkjubraut

Mjög góð mæting var á fundi um framtíð Kirkjubrautar, en hér má sjá mynd frá Stúdíó jæja af því hver…
Mjög góð mæting var á fundi um framtíð Kirkjubrautar, en hér má sjá mynd frá Stúdíó jæja af því hvernig svæðið gæti litið út eftir breytingar.

Tugir mættu á íbúafund í upphafi liðinnar viku þegar vinnslutillaga að nýju deiliskipulagi Kirkjubrautar var kynnt og góðar umræður sköpuðust.

“Það var mjög ánægjulegt að sjá svona góða mætingu,” segir Halla Marta Árnadóttir skipulagsfulltrúi Akraneskaupstaðar. “Við erum búin að vinna að þessu skipulagi frá því í byrjun árs í samvinnu við Stúdíó jæja sem kom á fundinn og kynnti hugmyndirnar.”

Um er að ræða deiliskipulag Kirkjubrautar sem afmarkast af Merkigerði til suðurs og Esjubraut til norðurs eða á máli innfæddra frá “spæleggi að sjúkrahúsi”.

Halla segir að bæjarstjórn hafi markað stefnu í aðalskipulagi um gerð hjólastíga í bænum og þetta sé fyrsta verkefnið þar sem þeirri stefnu er markvisst framfylgt. Meðal annarra breytinga má nefna aukinn gróður og að beygjuakrein við umferðarljósin verður tekin í burtu. Ásýnd Kirkjubrautar mun gjörbreytast. Verið er að breyta götunni úr bílagötu í götu fyrir mannlíf, þ.e.a.s. fyrir hjólandi og gangandi íbúa ásamt bílum. Kirkjubrautin er innkoman í bæinn og miðbæ Akraness og með þessum breytingum mun gatan taka á móti gestum og bæjarbúum með fallegri götumynd og mannlífi."

Halla segir að mikil vinna og greiningar á umferð liggi að baki tillögunni. "Þjónustustig götunnar á ekki að rýrna. Við héldum líka íbúavinnufund í maí og sú vinna hefur markað stefnu í götumynd og áningarstöðum við götuna."

Nú mun skipulags- og umhverfisráð ljúka gerð tillagnanna og leggja fyrir bæjarstjórn til afgreiðslu. Ákveði bæjarstjórn að auglýsa ofangreindar skipulagstillögur verður frestur til að gera athugasemdir við þær minnsta kosti 6 vikur.

Hægt er að koma á framfæri ábendingum og sjónarmiðum í gegnum skipulagsgátt eða í þjónustuveri Akraneskaupstaðar, Dalbraut 4.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00