Fara í efni  

Hornsteinn Sementsverksmiðjunnar verður hluti af grunnsýningu Byggðasafnsins í Görðum

Gunnar H. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri.
Gunnar H. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri.

Sementsverksmiðjan fagnaði þann 14. júní síðastliðinn 60 ára afmæli verksmiðjunnar. Af gefnu tilefni afhenti Gunnar H. Sigurðsson framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra hornstein úr Sementsverksmiðjunni sem var bjargað úr ofnhúsinu rétt áður en niðurrif hófst. 

Hornsteinninn er einstakur því þann 14. júní árið 1958 lagði þáverandi forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson, hornstein að Sementsverksmiðjunni við hátíðlega athöfn. Hornsteinninn var innmúraður í steyptri súlu við úttaksenda gjallbrennsluofnsins, en svæðið við enda ofnsins þar sem brennarinn var staðsettur var alla tíð kallað „fyrplads“ upp á danska vísu. Í hornsteininum er skjal þar sem eftirfarandi er skráð:

,,Sementsverksmiðja ríkisins Ríkisstjórn Íslands lét reisa þessa verksmiðju til framleiðslu á sementi í almennings þágu. Ár 1958, laugardag 14. dag júnímánaðar var hornsteinn lagður að verksmiðju þessari. Þá var forseti Íslands: Herra Ásgeir Ásgeirsson"

Árið 2013 eignaðist Akraneskaupstaður meirihluta landsvæðis undir Sementsverksmiðjunni og hófst niðurrif á hluta verksmiðjunnar sem ekki er notuð lengur, á haustmánuðum 2017. ,,Við munum viðhalda minningu um þessa merkilegu atvinnusögu sem Sementsverksmiðjan kom með hingað til Akraness. Við uppbyggingu á svæðinu munum við horfa til þess að reisa einhvers konar minnisvarða á svæðinu og að verksmiðjan fái veglegan sess í nýrri grunnsýningu Byggðasafnsins í Görðum, sem opnar í lok árs 2019, þar verður umræddur hornsteinn jafnframt staðsettur". Segir Sævar Freyr bæjarstjóri.  


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00