Fara í efni  

Heilbrigðisstarfsfólk á Akranesi eru Skagamenn ársins 2020

Á Þorrablóti Skagamanna sem haldið var rafrænt þann 23. janúar síðastliðinn var heilbrigðisstarfsfólk á Akranesi útnefnt Skagamenn ársins 2020. Það var Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri sem kynnti Skagamenn ársins með eftirfarandi erindum sem Heiðrún Jónsdóttir þjónustufulltrúi á bæjarskrifstofunni orti af þessu tilefni:

Skagamenn ársins 2020

Liðið ár var lítið gaman,
leika ekkert máttum saman.
Ekki hitta ömmu og afa,
aldrei partý geggjuð hafa.
Ekki faðmast, knúsa, kyssa
og kjarkinn vorum bara að missa.

Mörgu varð nú samt að sinna
og sumir alltaf þurftu að vinna.
Kúrt ei gátu á kodda að dreyma
og Covid beðið af sér heima.
Þau á vaktir meðan mættu
í minni aðrir voru hættu.

Covid setti á kerfin snúning,
kjarnafólk í grímubúning
önnuðust og vörðu veika
vörnum hvergi mátti skeika.
Veirufjanda dugleg drápu,
daglega með spritti og sápu.

Heilbrigðis- á starfsfólk stjörnum
stráum nú og færum kjörnum
fulltrúum úr flokki vænum
af fagmennsku sem vinna í bænum
heiður þann sem hetjum sönnum
hæfir, ársins Skagamönnum!

Að veita heilbrigðisstarfsfólki á Akranesi þessa nafnbót er einn þáttur í því að sýna þakklæti okkar til þessarar starfsstéttar en aukaálag hefur verið á heilbrigðisstarfsfólki síðastliðið ár út af heimsfaraldri. Þau Sigurður Már Sigmarsson sjúkraflutningamaður og Hulda Gestsdóttir hjúkrunarfræðingur tóku við viðurkenningunni ásamt málverki eftir Bjarna Þór Bjarnason sem ber heitir Undir verndarvæng og mun það sóma sig vel á vegg innan sjúkrahússins. Með málverkinu fylgdi einnig innrammað ofangreint kvæði Heiðrúnar og blómaskreyting frá Model.

Akraneskaupstaður sendir öllu heilbrigðisstarfsfólki á Akranesi hamingjuóskir með titilinn Skagamenn ársins 2020.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00