Fara í efni  

Hækkun styrkja Akraneskaupstaðar - undirritun samnings við ÍA

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri og Marella Steinsdóttir, formaður Ía við undirritun samnings.

Undirritaður hefur verið nýr samningur um rekstur og samskipti Akraneskaupstaðar og Íþróttabandalags Akraness. Markmið samnings þessa er að viðhalda öflugu samstarfi kaupstaðarins og ÍA í því skyni að íþróttastarf á Akranesi verði áfram þróttmikið, æsku og almenningi á Akranesi til heilla. Eins og áður er áhersla lögð á forvarna- og uppeldisgildi íþrótta og virka samvinnu íþrótta- hreyfingarinnar við skólana og almenning með fyrrnefndar áherslur í huga. Samningurinn byggir á sameiginlegri vinnu Akraneskaupstaðar og ÍA á liðnu ári. Samningur þessi er til fimm ára og er áætlað að á þeim tíma verið unnið áfram að enn frekari eflingu samstarfs Akraneskaupstaðar og ÍA.

Í samningnum kemur fram að Akraneskaupstaður muni styrkja rekstur ÍA um 15,0 m.kr. og aðildarfélög innan ÍA um 45 m.kr. Greiðast styrkir út ársfjórðungslega og útdeilt í gegnum ÍA eftir úthlutunarreglum. Auk þess tekur ÍA að sér framkvæmd ákveðinna verkefna og fær greitt 4.5 m. kr. vegna þess. Samningurinn er vísitölutryggður í fyrsta skipti ásamt því að taka mið af fjölgun íbúa á milli ára. Akraneskaupstaður tekur yfir rekstur þreksalar og fellur niður samningur um skiptingu tekna salarins þar með. Framangreindar fjárhæðir eru samtals 64,5 m.kr. en til samanburðar voru þær 18 m.kr. árið 2018.

Akraneskaupstaður hefur um langt árabil stutt við rekstur Íþróttabandalags Akraness og aðildarfélaga þess. Á síðustu árum hafa kröfur til íþróttafélaga um fagmennsku í íþróttastarfi, fjármálum og fleiri þáttum aukist verulega.

Þetta krefst mikillar vinnu sem að mjög miklu leyti er unnin af sjálfboðaliðum. Akraneskaupstaður hefur stutt við þetta mikilvæga íþróttastarf með ýmsum hætti m.a. með tómstundaframlagi til íþróttaiðkenda, greiðslu launa starfsmanna vinnuskóla sem starfa fyrir íþróttafélög, beinum styrkjum til barna og unglingastarfs og einnig beinum rekstarstyrkjum til einstakra íþróttafélaga s.s. í formi viðhalds golfvallar, húsnæði Klifurfélags, húsnæði Kraftlyftingafélags, aðstöðusköpunar Vélhjólafélagsins, aðstöðusköpunar Skotfélagsins, og stuðnings við Norðurálsmót. Eru þessar greiðslur eða stuðningur að verðmæti um 83 m.kr. til viðbótar því sem nú er samið um.

„Með þessari ákvörðun eru bæjaryfirvöld að leggja áherslu á sjónarmið sitt um hversu mikilvægt starf íþróttahreyfingarinnar er í lífi og þroska barna og ungmenna og í félagslegri umgjörð bæjarfélagsins. Það er forgangsverkefni Akraneskaupstaðar að styðja við fjölbreytt og framúrskarandi íþróttastarf á Akranesi og með aukinni fjárveitingu getum við betur tryggt þann stuðning“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri.

Marella Steinsdóttir formaður ÍA: „Ég vil þakka góða vinnu starfshópsins sem lagði grunn að þessum samningi, sömuleiðis þakka Akraneskaupstað fyrir aukinn stuðning til íþróttamála og fagna því að bæjaryfirvöld sýna framsýni og skilning á því mikilvæga samfélagslega starfi sem unnið er í aðildarfélögum íA.“


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00