Fara í efni  

Fyrsti áfangi hverfisgarðs í Skógarhverfi tekinn í notkun

Nýr hverfisgarður í Skógarhverfi tekinn í notkun. Ljósmynd Hrannar Hauksson.
Nýr hverfisgarður í Skógarhverfi tekinn í notkun. Ljósmynd Hrannar Hauksson.

Skipulags- og umhverfisráð Akraneskaupstaðar samþykkti á síðasta ári áætlun um uppbyggingu hverfisgarða á Akranesi. Hverfisgarðar er nýtt hugtak sem felur í sér að byggja upp græn svæði innan hverfa þannig að fólk á öllum aldri geti nýtt sér til útivistar. Markmiðið með þessu er að ýta undir útivist og gera hana aðgengilegri í dagsins önn.  Garðarnir munu eflaust verða ólíkir eins og þeir eru margir og verða þeir mótaðar eftir þörfum íbúa í hverju hverfi fyrir sig. Sem dæmi má nefna leiksvæði, samkomu- og grillsvæði, matjurtagarðar og fleira sem íbúar setja í forgang. Forsenda þess að vel takist til er að vera í góðu samstarfi við íbúa allt frá upphafi hugmyndar og er það einn af útgangspunktum hverfisgarða að þeir séu mótaðir og hannaðir í samráði við þá. Áætlað  er að endurbyggja leiksvæðin á Akranesi með hugmyndafræði hverfisgarða að leiðarljósi og var ákveðið að fyrsti garðurinn sem yrði hannaður yrði í Skógarhverfi enda brýn þörf á að búa til grænt svæði fyrir íbúa hverfisins. Garðurinn og hönnun hans var unnin í samráði við íbúa en Hrannar Hauksson var helsti tengiliður við skipulags- og umhverfissvið. Nú er fyrsta áfanga lokið sem fól í sér að setja leiktæki á svæðið.  Næsti áfangi verður að girða svæðið af og planta gróðri s.s. trjám og runnum.  Að sögn Írisar Reynisdóttur garðyrkjustjóra er verkefnið lifandi og síbreytilegt og áttu til dæmis að vera færri leiktæki í upphafi í garðinum í Skógarhverfi en hægt var að fá fleiri á hagstæðara verði og eru þau framleidd á vistvænan máta. 

Endurbætur á Merkurtúni

Skógarhverfi verður ekki eina hverfið sem unnið verður með á þessu ári heldur verður einnig lögð áhersla á Neðri- Skaga og eru hugmyndir uppi um að gera endurbætur á Merkurtúni.  Eru íbúar hvattir til að taka virkan þátt í þessu verkefni og í upphafi verkefnis verður boðað til fundar með íbúum til að ræða hugmyndir og hvernig staðið verður að samvinnu svo og hönnun og framkvæmdum.  Áhugasamir íbúar eru hvattir til að  hafa samband við Írisi Reynisdóttir garðyrkjustjóra.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00