Fara í efni  

Forseti Íslands heimsækir Brekkubæjarskóla

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands í heimsókn í Brekkubæjarskóla. Allir nemendur og kennarar skó…
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands í heimsókn í Brekkubæjarskóla. Allir nemendur og kennarar skólans höfðu raðað sér upp frá bílastæði að elsta- og aðal inngangi skólans.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands heimsótti Brekkubæjarskóla snemma í morgun, þann 2. október, í tilefni forvarnardagsins sem er í dag en forvarnardagurinn er haldin að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. 

Móttaka forseta Íslands í Brekkubæjarskóla.Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri og Arnbjörg Stefánsdóttir skólastjóri Brekkubæjarskóla tóku á móti forsetanum ásamt öllum nemendum og starfsfólki skólans. Ólafur Ragnar gaf sér góðan tíma og heilsaði öllum með handarbandi á leið sinni inn í skólann. Unglingakór Brekkubæjarskóla tók þar næst á móti honum og flutti lagið Stingum af eftir lagahöfundinn og söngvarann Mugison. Í framhaldinu átti forsetinn fund með nemendum og kennurum 9. bekkjar en hann er verndari forvarnardagsins og virkur þátttakandi. Forsetinn hélt stutta tölu um mikilvægi ástundunar íþrótta, tónlistarnáms og annarrar uppbyggjandi iðkunar líkama og sálar og ítrekaði þann boðskap að ungt fólk flanaði ekki að neyslu áfengis heldur geymdi það  þangað til líkamlegur og andlegur þroski leyfði. Að lokum bauð forsetinn upp á almennt spjall og spurðu unglingarnir hann nokkurra spurninga um hans hagi og t.d. hvaða íþróttir hann stundaði sem ungur maður. Eitt svarið vakti þó sennilega mesta athygli, en það var að í fótbolta héldi hann með ÍA og rakti það til sinna yngri ára sem Vestfirðings þegar Skagamenn voru eina landsbyggðarliðið sem keppti í efstu deild.

Akraneskaupstaður þakkar Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands kærlega fyrir ánægjulega heimsókn. 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00