Fara í efni  

Fjölbreyttar og flottar sýningar opna á Vökudögum

Frá rithöfundakvöld 2015.
Frá rithöfundakvöld 2015.

Lista- og menningarhátíðin Vökudagar hefst formlega í dag með opnun fjölda sýninga og afhendingu menningarverðlauna Akraneskaupstaðar.

Í Guðnýjarstofu, Safnaskálanum Görðum opnar fyrrum bæjarlistamaðurinn Gyða L. Jónsdóttir Wells yfirlitssýningu af ævistarfi sínu, frá barnæsku hér á Akranesi, út í heim og til Akraness aftur. Sýningin opnar kl. 17 og munu félagar úr Kór Akraneskirkju koma við á opnunardegi og gleðja gesti með söng sínum. Sýningin er opin frá þriðjudegi til laugardags milli kl. 10-18 fram til 25. nóvember og mun Gyða halda sýnikennslu alla laugardaga frá kl. 14-17 meðan á sýningu stendur.

 

Á sama tíma opnar Dýrfinna Torfadóttir gullsmiður, skartgripahönnuður og fagurkeri sýningu í Garðakaffi á skartgripahönnun sinni ásamt skóm í einkaeigu. Sýningin er opin á opnunartíma Garðakaffis milli kl. 10-18 þriðjudaga til laugardaga. Í Stúkuhúsinu opnar sýning sem fjallar um forsögu þess að vínbannið var sett á og þær hreyfingar sem börðust fyrir banninu t.d. Templara og Ungmennafélögin. Jafnframt er fjallað um bruggaðferðir og þekkta Skagamenn sem þótti sopinn góður s.s. Guðmund Árnason í Halakoti og Odd sterka. 

Ljósmyndaklúbburinn Höfrungur stendur fyrir ljósmyndasýningu í Akranesvita á þriðju hæð og opnar hún kl. 16:30. Á annarri hæð vitans er ljósmyndasýning Marc Koegel sem hefur verið frá því í september síðastliðnum og á fjórðu hæð sýna nemendur leikskóla á Akranesi listaverk í tengslum við Akranesvita og Breið. Akranesviti er opin þriðjudaga til laugardaga frá 11-17.  

Sýningin „Selfí“ opnar kl. 19:30 í húsnæði Café Kaju og Gallerí Urmuls að Kirkjubraut 54. Selfí er afrakstur átta stúlkna sem voru á listmálara námskeiði hjá Önnu Leif Elídóttur. Sýning er opin á Vökudögum á opnunartíma Café Kaju. Í Pennanum Eymundsson er handavinnusýning starfsfólks Leikskólans Vallarsels. Ýmis handavinna til sýnis, sem þeir hafa unnið að bæði nýlega og áður. Þá opna jafnframt leikskólabörn á Vallarseli sýningu í Tónlistarskóla Akraness undir heitinu „Langisandur og umhverfið okkar“, leikskólabörn á Akraseli opna myndlistarsýninguna „Ég og fjölskyldan mín" í húsnæði Bónus að Smiðjuvöllum 32, leikskólabörn á Teigaseli opna „Myndlistarsýningu barna" í setustofu Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og leikskólabörn á Garðaseli opna ljósmyndasýningu á Dvalarheimilinu Höfða undir heitinu „Það sem augað mitt sér“.  Á Bókasafni Akraness verður boðið upp á sýninguna „Þetta vilja börnin sjá" Sýningin samanstendur af myndskreytingum í íslenskum barnabókum eftir tuttugu myndlistarmenn sem gefnar voru út á árinu 2015.

 

Listakonan Sylvía Vinjars verður með myndlistarsýningu á Skökkinni á Vökudögunum. Sýningin er opin á opnunartíma Skakkarinnar alla daga frá kl. 12-17. Í Tónlistarskólanum á Akranesi er ljósmyndasýningin og kvikmyndin „Töfrar himins". Ljósmyndasýningin er aðgengileg á opnunartíma skólans en kvikmyndin verður sýnd sunnudaginn 30. október og sunnudaginn 6. nóvember kl. 14 og 16. Jafnframt verður opið á ljósmyndasýninguna þá sunnudaga frá kl. 13-17. Ljósmyndir og kvikmynd er eftir Jón R. Hilmarsson og tónlist í kvikmynd er eftir Alexöndru Chernyshovu.

Það er nóg um að vera á Vökudögum - hér má skoða dagskrá hátíðarinnar!


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00