Fara í efni  

Fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar árið 2016

Akratorg.
Akratorg.

Síðari umræða um fjárhagsáætlun var í bæjarstjórn Akraness þann 15. desember og var fjárhagsáætlun ársins 2016 samþykkt. Á árinu 2016 er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu í A hluta, um 151 milljón króna og rúmlega 51 milljón króna afgangi í samstæðunni í heild, A og B hluta. Í B hlutanum er hjúkrunarheimilið Höfði en lífeyrisskuldbindingar vega þar þungt sem hefur áhrif á niðurstöðu A og B hluta samstæðunnar.

Akraneskaupstaður mun halda áfram að leggja áherslu á að greiða niður skuldir en langtímalán A hluta hafa verið greidd niður um tæpa tvo milljarðar frá árinu 2008. Á árinu 2016 er gert ráð fyrir að greiða langtímaskuldir A hluta niður um 280,7 m.kr. Veltufé frá rekstri er 11,9% í A hlutanum, skuldahlutfall 100,9 %  og veltufjárhlutfall 0,95. Gjaldskrár hækka um 3,2 % vegna verðlagshækkana en sorpgjöld hækka einungis um 1,5 %.

Samþykkt var að auka niðurgreiðslur til foreldra sem eru með börn 2 ára og eldri hjá dagforeldrum þar til leikskólapláss hefur verið tryggt. Fjárfestingar hækka verulega á milli áranna 2015 og 2016 og verða nettó framkvæmdir og fjárfestingar 412,9 milljónir á árinu 2016. Helstu fjárfestingar verða á Sementsreitnum svokallaða en gert er ráð fyrir 100 milljónum í það verkefni á árinu og um 80 milljónir í fjárfestingu á sundlaugarsvæðinu Jaðarsbökkum. Í framkvæmdir og fjárfestingar vegna opinna svæða er ráðgert að setja 70 milljónir, 81,5 milljón fara í götur og gangstéttir, 25 milljónir vegna nýrrar kennslustofu við Grundaskóla, 10 milljónir í hönnun vegna FEBAN húsnæðisins að Dalbraut 6 og 5 milljónir króna til að ljúka byggingu bátahúss við Byggðasafnið í Görðum. 

Að sögn Regínu Ásvaldsdóttur bæjarstjóra er ekki mikið svigrúm í rekstrinum vegna þeirra launahækkana og hækkunar á áföllnum lífeyrisskuldbindingum sem orðið hafa á árinu. Hún segir áætlunina varfærna hvað varðar tekjur ársins 2016 en það eru mun lægri útsvarstekjur á Akranesi en til dæmis í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og þróun tekna að undanförnu benda ekki til breytinga. Sveitarfélagið hefur hinsvegar ágætt svigrúm til fjárfestinga, sem helgast af því að lífeyrisskuldbindingar vega þungt í rekstrinum en það eru bókfærð útgjöld að mestu leyti sem koma til greiðslu síðar. Regína er fulltrúi í nefnd sem skipuð hefur verið af fjármálaráðuneytinu sem mun fara yfir lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarheimila með sveitarfélagaábyrgð en í nefndinni eru einnig fjármálastjórar Reykjavíkur og Akureyrar. Regína segir að það að fá ríkið til að viðurkenna ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum hjúkrunarheimila, á sama hátt og þeir hafi gert varðandi sjálfseignarstofnanir sé eitt brýnasta viðfangsefnið sem bæjaryfirvöld standi frammi fyrir þar sem skuldbindingarnar hafi mikil áhrif á rekstur samstæðunnar.  

Upptöku fundarins, fundargerð og fylgigögn má nálgast hér á heimasíðu Akraneskaupstaðar 


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00