Fara í efni  

Deiliskipulag vegna fiskþurrkunar samþykkt til opinberrar kynningar

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum þann 26. janúar, með fimm atkvæðum gegn fjórum, að auglýsa til kynningar tillögu að breyttu deiliskipulagi svokallaðs Breiðarsvæðis á Akranesi vegna áforma HB Granda um að reisa þar nýjar byggingar við núverandi fiskþurrkun. Gert er ráð fyrir að byggingarnar verði reistar í tveimur áföngum.

Fjórir bæjarfulltrúar, sem höfnuðu tillögunni, lögðu fram breytingartillögu um aðra staðsetningu og var hún felld.

Í skipulagstillögunni, sem samþykkt var til kynningar, er gert ráð fyrir að sameina for- og eftirþurrkun HB Granda undir einu þaki. Í fyrsta áfanga framkvæmdanna er stefnt að því að bæta við eftirþurrkunarhúsi við núverandi forþurrkunarhús.

HB Grandi vann mat á umhverfisáhrifum með skipulagstillögunni þar sem gerð er ítarlega grein fyrir áformum fyrirtækisins og aðgerðum til að lágmarka  lyktamengun og mæla, samkvæmt ákveðnum viðmiðunum í lyktarskynmati, árangur aðgerða félagsins. Meginniðurstaða umhverfisskýrslunnar er að með fyrirhuguðum framkvæmdum minnki áhrifasvæði lyktar verulega og breytist ekki þrátt fyrir að afköst aukist með síðari áfanga framkvæmdanna.

Í skipulagstillögunni kemur fram að óheimilt er að veita byggingarleyfi fyrir öðrum áfanga nema tekist hafi að tryggja viðunandi grenndaráhrif í áfanga 1 samkvæmt þeim viðmiðunum á lyktarskynmati sem fyrirtækið hefur sett sér.

Deiliskipulagsbreytingin verður nú kynnt Akurnesingum í lögboðnu ferli og þeim þannig gert kleift að kynna sér málið og  koma athugasemdum á framfæri í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Eftir að auglýsing um deiliskipulagsbreytinguna birtist hafa íbúar sex vikur til að skila inn athugasemdum. Að kynningu lokinni fer málið aftur til bæjaryfirvalda til ákvörðunar. Til enn frekari kynningar á verkefninu munu bæjaryfirvöld, á auglýsingatíma tillögunnar, hlutast til um að halda opinn íbúafund til frekari kynningar á þeim gögnum sem nú liggja fyrir varðandi ofangreinda skipulagsbreytingu.

Gert er ráð fyrir að setja á laggirnar óháðan lyktarskynmatshóp til að meta lyktarmengun fyrir og eftir framkvæmdir á tilteknum stöðum í bænum. Niðurstöður hópsins verða nýttar til að meta hvort fyrirtækið nái þeim markmiðum, um lágmörkun lyktar, sem það hefur sett sér.

Meðfylgjandi er helstu gögn málsins.

  1. Tillaga að breytingu á deiliskipulag , Breiðargötu 8, 8A og 8B, sem samþykkt var að auglýsa í bæjarstjórn.
  2. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi, skýringaruppdráttur.
  3. Áhrifasvæði fiskþurrkunar nú (efri mynd) og eftir framkvæmdir (neðri mynd) samkvæmt niðurstöðu mats á umhverfisáhrifum breyttrar starfsemi.
  4. Umhverfisskýrsla HB Granda fyrir deiliskipulag Breiðarsvæðis á Akranesi. 
  5. Skýrsla VSÓ um umhverfismat framkvæmdanna.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00