Fara í efni  

Breytingar á gjaldskrám Akraneskaupstaðar frá og með 1. janúar 2021

Bæjarstjórn Akraness samþykkti þann 15. desember síðastliðinn gjaldskrárbreytingar sem tóku gildi þann 1. janúar síðastliðinn.

Við fjárhagsáætlunargerð Akraneskaupstaðar fyrir árið 2021 voru gjaldskrár kaupstaðarins endurskoðaðar og gerður samanburður á einstaka gjaldskrám við sambærileg sveitarfélög. Eftir þá endurskoðun og samanburð hækkuðu einstaka gjaldskrár umfram almenna gjaldskrárhækkun sem er 2,5% á árinu 2021. Um er að ræða gjaldskrá íþróttamannavirkja og máltíðir í leik- og grunnskólum.

Helstu breytingar á gjaldskrá íþróttamannvirkja eru þær að frítt verður í sund fyrir 0-15 ára sem áður var 0-18 ára. Fjölmörg sveitarfélög á borð við Akureyri, Árborg, Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Borgarnes og Reykjanesbær innheimta gjald fyrir yngri hópa barna allt frá 6 eða 10 ára aldri. Samhliða fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar var ákveðið að lækka aldursviðmið þeirra barna sem fá frítt í sund á Akranesi en áfram stuðla að umhverfi sem er barnvænt. Frítt er í sund fyrir börn þar til 1. júní árið sem þau verða 16 ára. Sérstakt gjald verður fyrir aldurinn 16-18 ára en boðið upp á 50% afslátt af miðaverði og árskorti í sund. Við samanburðargreiningu kom einnig í ljós að Akraneskaupstaðar er 39% undir meðalverði þeirra sveitarfélaga sem litið var til og var mjög áberandi í fjölmiðlum sl. sumar hvað sundlaugarferðin á Akranesi var hagstæð og ódýr. Nú hefur Akraneskaupstaður sl. ár lagt mikla vinnu og fjármagn í endurnýjun pottasvæðis og búningsklefa við sundlaugina á Jaðarsbökkum, rekstarkostnaður sundlaugarinnar á Jaðarsbökkum hefur hækkað um 36% frá árinu 2017 og var því ákveðið að hækka almennt miðaverð í sund um 10% og verður kr. 700. Ásamt því fá eldri borgara og öryrkjar frá 50% afslátt af stökum miðum og kortum og atvinnulausir fá sama afslátt af stökum miðum.

Við skoðun á gjaldskrá máltíða í leik- og grunnskólum leiddi samanburðargreining í ljós að Akraneskaupstaður er 33% undir meðalverði máltíða í grunnskólum og 28% undir meðalverði hádegismáltíða í leikskólum sé litið til áðurnefndra sveitarfélaga. Þá hafa einnig matarinnkaup hækkað töluvert sl. ár hjá stofnunum Akraneskaupstaðar m.t.t. hækkandi vöruverðs. Við endurskoðun á framangreindum gjaldskrám var ákveðið að grípa til hækkana sem voru umfram almenna hækkun í ljósi þeirra ástæðna. Vakin er athygli að áfram er Akraneskaupstaður með mjög hagstætt verð fyrir á máltíðum í leik- og grunnskólum í samanburði við nokkur sveitarfélög þrátt fyrir þessar breytingar. Máltíðir í grunnskólum hækka um 20% og er greitt fyrir staka máltíð kr. 455 sem var áður kr. 379. Hádegisverður á leikskólum hækkar einnig um 20% og er á mánuði kr. 5.467 en var áður 4.556. Ásamt því hækkuðu aðrir fæðisliðir á leikskólum, morgunmatur og síðdegishressing um 4%.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurStillholti 16-18, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00