Fara í efni  

Auknar fjárfestingar hjá Akraneskaupstað

Samþykkt var á fundi bæjarstjórnar Akraness þann 10. nóvember að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2016 svo og þriggja ára áætlun fyrir árin 2017-2019 til síðari umræðu í bæjarstjórn þann 8. desember næstkomandi.

Á árinu 2016 er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu í A hluta, rúmlega 154 milljónum króna og 51,5 milljón króna afgangi í samstæðunni í heild, A og B hluta. Í B hlutanum er hjúkrunarheimilið Höfði en lífeyrisskuldbindingar vega þar þungt.

Í ræðu bæjarstjóra kom fram að Akraneskaupstaður muni halda áfram að leggja áherslu á að greiða niður skuldir en langtímalán hafa verið greidd niður um tæpa tvo milljarðar frá árinu 2008. Veltufé frá rekstri er 12,74% í A hlutanum, skuldahlutfall 106,30% og veltufjárhlutfall 1,01.

Fjárfestingar hækka verulega á milli áranna 2015 og 2016 og verða framkvæmdir og fjárfestingar tæplega 388 milljónir á árinu 2016. Helstu fjárfestingar verða á Sementsreitnum svokallaða en gert er ráð fyrir 100 milljónum í það verkefni á árinu og  um 80 milljónir í fjárfestingu á sundlaugarsvæðinu Jaðarsbökkum. Í framkvæmdir og fjárfestingar vegna opinna svæða er ráðgert að setja 70 milljónir, meðal annars vegna heitrar laugar á Langasandi og í frekari framkvæmdir á Breið. 63,5 milljónir fara í götur og gangstéttir, 25 milljónir vegna nýrrar kennslustofu við Grundaskóla, 10 milljónir í hönnun vegna FEBAN húsnæðisins að Dalbraut 6 og 5 milljónir króna til að ljúka byggingu bátahúss við Byggðasafnið í Görðum. 

Samþykkt var að auka niðurgreiðslur til foreldra sem eru með börn 2 ára og eldri hjá dagforeldrum þar til leikskólapláss hefur verið tryggt. Íbúafjölgun á Akranesi er tæplega 2 % á milli áranna 2014 og 2015 en íbúum hefur fjölgað um 131  og eru nú  6.884 manns.

Frumvarp að fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar 2016 

Tillögur bæjarráðs samhliða framlagningu frumvarps


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00