Fara í efni  

Athugasemdir Akraneskaupstaðar um þjónustustig sýsluskrifstofunnar – Viðvera löglærðs fulltrúa o.fl.

Á fundi bæjarráð Akraness þann 24. janúar síðastliðinn var svohljóðandi bréf samþykkt og sent dómsmálaráðherra um eflingu á starfsemi Sýslumannsins á Akranesi:

Bæjarráð ítrekar alvarlegar athugasemdir sínar við þjónustustig sýsluskrifstofunnar á Akranesi og endurómar með því óánægju Akurnesinga, nær helmings allra íbúa á Vesturlandi með þjónustuna. Athugasemdirnar lúta bæði að skorti á viðveru löglærðs fulltrúa og úrlausn þeirra almennu viðfangsefna sem þjónustuþegar bera upp og leysa þarf úr.

Rétt er að taka fram að þessar athugasemdir beinast á engan hátt að því hæfa starfsfólki sem starfar hjá embættinu hér á Akranesi og reynir sitt allra besta í því að leysa úr verkefnum sem til þeirra berast.

Þá vill bæjarráð einnig minna ráðherra á að bæjaryfirvöld á Akranesi hafa allt frá árinu 2014 mótmælt því harðlega að hvorki sýslumaður né lögreglustjóri umdæmisins séu staðsettir á Akranesi og þeirri staðreynd að einungis á Vesturlandi var gengið framhjá stærsta byggðarkjarna umdæmis við val á staðsetningu umræddra embætta. Nú síðast bréfi dagsettu 1. mars 2018 sem sent var ráðherra í tilefni uppsagna starfsfólks á starfstöð sýslumannsins á Akranesi og fólu það m.a. í sér að ekki yrði lengur  föst starfsstöð löglærðs fulltrúa á Akranesi með tilheyrandi þjónustuskerðingu við íbúa og lögaðila.

Yfirlýsingar um að þjónustuþörf yrði mætt með fastri viðveru löglærðs fulltrúa á skrifstofu hafa ekki gengið eftir þrátt fyrir að bæjaryfirvöld hafi vakið athygli sýslumanns á vanefndum loforða þar um. Í ljósi þess að uppsagnir starfsfólks á Akranesi voru gerðar í hagræðingarskyni verður að telja illskiljanlegt hvernig það markmið næst með akstri löglærða fulltrúa á milli starfstöðva umdæmisins ef reiknaður er út raunkostnaður vegna aksturs, reksturs bifreiða og óvirks vinnutíma þeirra starfsmanna sem í hlut eiga hverju sinni, ekki síst ef keyrt er alla leið frá Stykkishólmi, þar sem nú eru reyndar þrír löglærðir einstaklingar með fasta starfsstöð. Bæjarráð hlýtur því að velta upp þeirri spurningu hvort aldrei hafi raunverulega staðið til að efna loforð um óbreytt þjónustustig á Akranesi heldur hafi einvörðungu verið sett fram að drepa málinu á dreif og sem svar við eindregnum mótmælum bæjaryfirvalda.

Raunveruleikinn í dag er að minnsta kosti sá að íbúar á Akranesi þurfa að sæta því að eiga einungis aðgang að löglærðum fulltrúa á sýsluskrifstofunni einn dag í viku hverri og ef sá dagur fellur niður þurfa íbúar jafnvel að bíða í tvær vikur eftir að eiga kost á að hitta löglærðan fulltrúa.

Framangreindar aðstæður eru einfaldlega með öllu óásættanlegar fyrir Akurnesinga og bæjaryfirvöld fara þess á leit við ráðherra að úr þessu verði bætt, með auknum fjárveitingum, tilfærslu verkefna eða hverjum öðrum þeim aðgerðum sem leiða til bættrar þjónustu á Akranes.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00