Fara í efni  

Ársreikningur Akraneskaupstaðar samþykktur

Á fundi bæjarstjórnar Akraness þann 10. maí síðastliðinn var ársreikningur Akraneskaupstaðar samþykktur. Ólafur Adolfsson formaður bæjarráðs kynnti eftirfarandi bókun sem var samþykkt með átta atkvæðum:

,,Bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar leggja sameiginlega fram eftirfarandi bókun við framlagningu ársreiknings 2015 í bæjarstjórn Akraneskaupstaðar þann 10. maí 2016:

Á rekstrarárinu 2015 skilar Akraneskaupstaður rúmlega 75 milljón króna afgangi eða um 24 milljónum króna umfram áætlun og verður það að teljast góður árangur ef horft er til rekstrarskilyrða og rekstrarútkomu sveitarfélaga á árinu.  Rekstrarárið 2015 var sveitarfélögum veruleg áskorun vegna mikilla launahækkana og tilsvarandi hækkunar á lífeyrisskuldbindingum.

Rekstur A-hluta Akraneskaupstaðar skilaði rúmum 200 m.kr. á árinu en tap á B-hluta Akraneskaupstaðar var um 125 m.kr.  og þar af er hluti hjúkrunar og dvalarheimilisins Höfða um 116 m.kr. 

Rekstur Akraneskaupstaðar er traustur og bera lykiltölur í rekstri bæjarfélagsins þess merki. Skuldahlutfall samstæðunnar fer lækkandi og er 116%, eiginfjárhlutfallið er 45%, veltufjárhlutfall er yfir 1 og veltufé frá rekstri nam rúmum 689 m.kr. á árinu 2015.  Í fyrsta sinn um nokkurra ára skeið hækkar hlutfall útsvars í rekstratekjum og er það ánægjulegur viðsnúningur.

Í ársreikningi 2015 birtast einnig áskoranir sem þarf að takast á við og ber þá helst að nefna að lífeyrisskuldbindingar eru háar og fara hækkandi en ánægjulegt er að samningaviðræður eru hafnar við ríkið um uppgjör á lífeyrisskuldbindingum Hjúkrunar og dvalarheimilisins Höfða til samræmis við samninga sem gerðir voru við sjálfstæð hjúkrunarheimili á árinu 2014.

Framlegðarhlutfall rekstrar er 4,3% og hækkar lítillega milli ára sem er ánægjulegt en betur má ef duga skal því markmiðið er að ná þessu hlutfalli yfir 10% á næstu árum og unnið er að því markmiði.

Það verður áfram verkefni bæjarfulltrúa á Akranesi að byggja betri grunn undir rekstur Akraneskaupstaðar þannig að tekjur og gjöld verði í góðu jafnvægi og Akraneskaupstaður geti sinnt þeim mikilvægu verkefnum og þjónustu sem honum ber til framtíðar.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00