Fara í efni  

Andrea Þ. Björnsdóttir er Skagamaður ársins

Andrea og Elsa Lára.
Andrea og Elsa Lára.

Á Þorrablóti Skagamanna sem haldið var þann 25. janúar síðastliðinn var Andrea Þ. Björnsdóttir útnefnd Skagamaður ársins 2019. Það var Elsa Lára Arnardóttir formaður bæjarráðs sem kynnt Skagamann ársins með eftirfarandi erindum sem Heiðrún Jónsdóttir þjónustufulltrúi á bæjarskrifstofunni orti af þessu tilefni:

Flutti hingað forðum daga
fann sinn bústað hér á Skaga .
Oft þó væri ekki gaman
endum frægum ná hér saman,
og fengjust engir fullir sjóðir
fundust aðrir kostir góðir.

Ýmis störfin unnið hefur
af sér hlýju og kærleik gefur.
Góðverkum vill gjarnan sinna
gleðja þá sem hafa minna.
Aðstoðin var áður þegin,
annarra nú greiðir veginn.

Allskonar vill englum safna
aldrei bleikum litum hafna.
Elskar sína afkomendur,
öðrum börnum réttir hendur.
Faðmar krakkaanga alla,
ömmu hana margir kalla.

Í ræðu Elsu Láru kom eftirfarandi fram „Skagamaður ársins er fæddur í Grundarfirði en flutti hingað á Flórídaskagann fyrir mörgum árum síðan. Hefur búið hér á Skaganum og utan hans frá þeim tíma, en flutti aftur heim fyrir nokkrum árum síðan. Skagamaður ársins hefur starfað í hinum ýmsu störfum, m.a. í skóla, við heimilishjálp og við HB Granda. Áhugamálin eru samvera með börnum og barnabörnum, prjónaskapur, bakstur og að láta gott af sér leiða. Undanfarin ár hefur Skagamaðurinn svo sannarlega látið gott af sér leiða með því að safna fyrir þá sem þurfa að takast á við stór verkefni í lífinu eins og alvarleg veikindi. Ég veit að stuðningurinn hefur skipt máli og sá hlýhugur sem fylgir í verki fer ekki fram hjá neinum. Leiðarljós Skagamanns ársins í þessu verkefni er að gefa til baka þann stuðning sem hann fékk fyrir sjálfan sig og börnin sín fyrir mörgum árum síðan. Þetta er merki um fallegt hjartalag og einstaka hugsun.“

Akraneskaupstaður sendir Andreu hamingjuóskir með titilinn Skagamaður ársins 2019.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00