Fara í efni  

Ályktun bæjarstjórnar Akraness - vegna banns við hvalveiðum

Bæjarstjórn Akraness furðar sig á vinnubrögðum matvælaráðherra í tengslum við skyndilegt bann við hvalveiðum sem tilkynnt var í gærmorgun. Bendir bæjarstjórn á að ráðuneyti hafa sjálfstæða rannsóknarskyldu og eðlilegt er að ákvarðanir sem ráðherrar taka hvíli á niðurstöðum vandaðra rannsókna sem þegar hafi farið fram. Að stöðva veiðar nú og rannsaka síðan forsendur þeirrar ákvörðunar er ekki góð stjórnsýsla og getur ekki talist einkennast af meðalhófi. Álit fagráðs um vernd dýra getur ekki eitt og sér dugað til að rökstyðja svo afdrifaríka ákvörðun sem snertir afkomu fjölda heimila með beinum hætti. Ráðuneytið verður sjálft að sinna eigin rannsóknarskyldu.

Íbúar Akraness hafa vitaskuld fylgst með þeirri umræðu sem fram hefur farið um veiðarnar og öllum er ljóst að hvalveiðar eru umdeildar. Hins vegar hefði átt að vera hægt að komast að niðurstöðu áður en til þessa kom, til þess hefur verið nægur tími.

Bannið var óvænt og kemur flatt upp á fjölda Akurnesinga sem gerðu ráð fyrir atvinnu og tekjum á hvalveiðivertíð sumarsins. Um er að ræða skyndilegan atvinnu- og tekjumissi fyrir fjölmarga íbúa að ógleymdri afleiddri starfsemi, en fjölmörg fyrirtæki sem þjónusta hvalveiðina á einn eða annan hátt höfðu gert ráðstafanir, jafnvel ráðist í kostnað og voru klár í vertíð. Þá hefur ákvörðun ráðherra bein áhrif á útsvarstekjur Akraneskaupstaðar og þar með möguleika hans til að fjármagna þjónustu við íbúa, en bæjarstjórn áætlar að tapaðar útsvarstekjur kaupstaðarins vegna þessa hlaupi á tugum milljóna.

Bæjarstjórn hvetur ráðherra til að aflétta hinu tímabundna banni á meðan ráðuneytið uppfyllir rannsóknarskyldu sína


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00