Fara í efni  

Akraneskaupstaður og Merkjaklöpp ehf. undirrita samstarfssamning um uppbyggingu vistvænna iðngarða í Flóahverfi

Alexander Eiríksson, Sævar Freyr Þráinsson og Guðmundur Sveinn Einarsson.
Alexander Eiríksson, Sævar Freyr Þráinsson og Guðmundur Sveinn Einarsson.

Bæjarráð, skipulags- og umhverfisráð Akraneskaupstaðar ásamt bæjarstjóra og forsvarsmönnum Merkjaklappar ehf. hafa að undanförnu unnið hörðum höndum að þróun verkefnis um uppbyggingu vistvænna iðngarða í Flóahverfi á Akranesi. Hugmyndafræðin um vistvæna iðngarða byggir á alþjóðlegri fyrirmynd og heildrænni nálgun við uppbyggingu iðnaðarsvæða, með sjálfbærni og umhverfisvernd að leiðarljósi. Mótaður er ákveðinn rammi um uppbyggingu tiltekins svæðis og lagður grunnur að víðtæku samstarfi fyrirtækja og ýmissa hagsmunaaðila sem samnýta innviði, aðföng og hráefnastrauma sína til að draga úr umhverfisáhrifum framleiðslu og styðja við nýsköpun og atvinnuuppbyggingu. Akraneskaupstaður mun næstu mánuði vinna frekar að útfærslu vistvænna iðngarða og hvaða þjónusta verður skilgreind á svæðinu og verður það kynnt síðar.

Flóahverfið - skipulagSamstarfs- og markaðssamningur var undirritaður í dag af Sævari Frey bæjarstjóra og forsvarsmönnum Merkjaklappar ehf. en samningurinn markar upphaf af spennandi samstarfi í mikilvægu verkefni við atvinnuuppbyggingu á Akranesi og felur einkum í sér samstarf milli þessara aðila um að veita fyrirtækjum brautargengi að vistvænum iðngörðum á Akranesi og stuðla að hraðri uppbyggingu Flóahverfisins. Merkjaklöpp ehf. mun hafa það að sérstöku markmiði að þarfagreina og mæta þörfum fyrirtækja sem sjá sér hag í því að því að flytja starfsemi sína í Flóahverfi og taka þátt í uppbyggingu á vistvænum iðngörðum.

Merkjaklöpp ehf. er fyrirtæki á Akranesi sem hefur látið til sín taka að undanförnu í þessum málum en forsvarsmenn fyrirtækisins hafa í samvinnu með Runólfi Sigurðssyni hjá Al-hönnun ehf. unnið að hönnun og skipulagi atvinnuhúsnæða í Flóahverfi en fyrrgreindur samningur felur í sér að Merkjaklöpp ehf. fær sex lóðir á svæðinu til markaðssetningar sem forsvarsmenn félagsins koma til með að nýta til bygginga á atvinnuhúsnæði í takt við vistvæna iðngarða í samvinnu við þau fyrirtæki sem vilja taka þátt í verkefninu.

„Akraneskaupstaður sér mikil tækifæri í því að skapa sérstöðu með vistvænum iðngörðum og laða til okkar framúrskarandi fyrirtæki sem munu starfa í atvinnuhverfi þar sem forsvarsmenn fyrirtækja geta treyst því að sömu kröfur eru gerðar til annarra fyrirtækja í nágrenninu sem nær til stjórnunar, vöktunar, þjónustu, eftirfylgni umhverfisþátta, flokkun og losun úrgangs. Kröfurnar munu einnig ná til þess að fyrirtækin starfi í sátt við samfélagið með virkri umræðu með íbúum ásamt því að stuðla að efnahagslega jákvæðum áhrifum með fjölgun starfa. Kröfurnar verða ekki íþyngjandi fyrir fyrirtækin heldur mun þetta styðja enn betur við fyrirtækin í þeirra starfsemi og auka á trúverðugleika þeirra hvort sem þeirra þjónusta nær til innanlands eða alþjóða markaðar. Við erum ánægð með að hefja samstarf með frumkvöðlum sem deila hugmyndum bæjarstjórnar um eflingu atvinnulífs á Akranesi. Samningurinn við Merkjaklöpp ehf. er því frábært upphaf þessarar vegferðar og við hlökkum til samstarfsins. Ánægjulegt er að áhugi er á uppbyggingu á atvinnuhúsnæðis á Akranesi og erum við að undirbúa frekari gatnagerð í Flóahverfi til að mæta þeim áhuga”, segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri.

„Við teljum að Akraneskaupstaður sé nú í dauðafæri til að koma fram á sjónarsviðið með fyrsta vistvæna iðngarðinn hér á landi sem verði í takt við alþjóðlega umgjörð, kolefnisjöfnun og aðlaðandi markaðsumhverfi. Sú sérstaða sveitarfélagsins muni falla vel að markmiðum fjölda fyrirtækja hér á landi sem vilja vera til fyrirmyndar og auk þessa vera í takt við umhverfismarkmið stjórnvalda og sveitarfélags. Okkar markmið og sýn er að Flóahverfið á Akranesi verði öðrum til fyrirmyndar hvað varðar skipulags- og umhverfismál en jafnframt verði svæðið skilgreint sem vistvænn iðngarður þar sem margháttuð þjónusta og framleiðsla geti átt sér stað innan svæðisins auk samstarfs milli fyrirtækja innan svæðisins. Þannig sjáum við Akranes verða að eftirsóttustu áfangastöðunum á Íslandi fyrir fyrirtæki í sókn og vexti en fyrirmyndar fyrirtæki í dag eru að gera ríkar kröfur til umhverfisverndar og leitast eftir tækifærum til að ná fram sjálfbærni í aðlaðandi umhverfi“, segja Alexander Eiríksson, framkvæmdastjóri og Guðmundur Sveinn Einarsson, stjórnarformaður Merkjaklappar ehf.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um verkefnið á vefsvæðunum; www.merkjaklopp.is og www.300akranes.is


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00