Fara í efni  

Af bæ í borg - Akranes heiðursgestur á Menningarnótt

Frá vinstri: Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Hanna Þóra Guðbran…
Frá vinstri: Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Hanna Þóra Guðbrandsdóttir sópransöngkona og bæjarlistamaður 2011 og Birgir Þórisson undirleikari. Ljósmynd: Ragnar Th.

Sævar og Dagur fá sér köku í tilefni dagsins.

„Það er mikill heiður fyrir Akraneskaupstað að vera valin heiðursgestur menningarnætur í ár" sagði Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á blaðamannafundi um Menningarnótt 2017 sem haldinn var fyrr í dag um borð í ferjunni Akranes. Fulltrúar Akraneskaupstaðar og Reykjavíkurborgar komu þar saman og kynntu fyrirhugaða dagskrá Menningarnætur sem er nú haldin í 22. skiptið. 

Sem fyrr segir er Akranes heiðursgestur og ætlar af því tilefni bjóða uppá myndarlega dagskrá á veitingastaðnum Messanum við Sjóminjasafnið. Kynntir verða til leiks bæjarlistamenn Akraness frá upphafi og ætla þeir að taka á móti gestum og gangandi yfir daginn. Þeir bæjarlistamenn sem verða á staðnum eru: 

 • Kolbrún S. Kjarval leirlistakona (2017).
 • Slitnir strengir, þjóðlagasveit (2016).
 • Gyða L. Jónsdóttir Wells myndhöggvari (2015).
 • Erna Hafnes myndlistakona (2014).
 • Sigurbjörg Þrastardóttir rithöfundur (2013).
 • Sveinn Arnar Sæmundsson orgelleikari (2012).
 • Dýrfinna Torfadóttir gullsmiður (2010).
 • Kristján Kristjánsson rithöfundur og bókaútgefandi (2002). Kristján mun einnig vera með verk eftir Braga Þórðarson rithöfund og bókaútgefanda (2004).
 • Smári Vífilsson tenórsöngvari (2001).
 • Kristín Steinsdóttir rithöfundur (1998).
 • Bjarni Þór Bjarnason myndlistarmaður (1997).
 • Philippe Ricart handverksmaður (1996).
 • Helena Guttormsdóttir myndlistarmaður (1993). Helena mun einnig sína verk eftir föður sinn Guttorm Jónsson högglistamann (1994).  
 • Sigríður Rut Hreinsdóttir mun sína verk eftir föður sinn Hrein Elíasson myndlistarmann (1992).

Opnunarathöfn hefst kl. 13:30 og er opið til kl. 20:00. Hægt er að setjast niður í spjall, skoða og kaupa listmuni og sjá hvernig sum listaverkanna eru gerð. Nokkrir bæjarlistamenn munu stíga á stokk þennan dag og verður m.a. upplestur rithöfunda og tónlistarflutningur. Einnig verða á staðnum matvælaframleiðendur frá Akranesi, meðal annars Vignir og Norðanfiskur sem ætla að bjóða upp á karfa og Kaja Organic ætlar að bjóða upp á sínar gómsætu hrákökur. Dagskrá dagsins verður með eftirfarandi hætti:

13:30   Opnunarathöfn 
Ávarp Dags B. Eggertssonar borgarstjóri og Sævars Freys Þráinssonar bæjarstjóra ásamt því flytur bæjarlistamaður 2012, Sveinn Arnar Sæmundsson og félagar í Kalman kórnum nokkur lög.

14:30   Upplestur rithöfunda 
Bæjarlistamaður 2002, Kristján Kristjánsson les úr eigin verkum og verkum Braga Þórðarsonar, bæjarlistamanns 2004.

16:00   Tónlist
Bæjarlistamaður 2001, Smári Vífilsson flytur nokkur lög.

17:00   Upplestur rithöfunda
Bæjarlistamenn 1998 og 2013, Kristín Steinsdóttir og Sigurbjörg Þrastardóttir lesa úr eigin verkum.

18:00   Tónlist
Bæjarlistamaður 2016, Slitnir strengir flytja nokkur lög.

Ferjan Akranes mun sigla aukaferðir þennan dag og er því tilvalið fyrir Skagamenn að gera sér ferð til Reykjavíkur á Menningarnótt. Miðasala fer fram á saeferdir.is og er gott að tryggja sér miða með góðum fyrirvara. Ferðaáætlun og verðskrá fyrir laugardaginn er eftirfarandi: 

Ferðaáætlun

 • Frá Reykjavík: 08:45, 10:45, 15:45, 17:45, 20:45 og 23:45
 • Frá Akranesi: 09:30, 11:30, 16:30, 18:30, 21:30 og 00:30

Verðskrá:

 • Fullorðinn kr. 2500 fram og til baka
 • Aldraðir, öryrkjar og börn 6-16 ára kr. 1500 fram og til baka
 • Frítt fyrir 0-5 ára
 • Fjölskyldutilboð: kr. 8000 (2 fullorðnir og allt að þrjú börn 6-16 ára)

Minnum einnig á 20 miða kortin:

 • 20 miða kort (hver ferð 875 kr.) 17.500
 • 20 miða kort aldraðir, öryrkjar og börn 6-16 ára (hver ferð 500 kr.) 10.000

Hátíðin í ár verður ein allsherjar tónlistar-  og menningarveisla en í miðborginni verður boðið uppá þrenna stórtónleika og yfir hundrað tónlistarviðburðir verða haldnir um alla borg. Frítt er inná öll söfn í miðborginni sem bjóða uppá afar fjölbreytta dagskrá. Leikarar, dansarar  og fjöllistafólk verða með uppákomur og íbúar bjóða víða uppá dagskrá í húsagörðum og sundum. Hlemmur er áherslusvæði Menningarnætur í ár en þar hefur verið mikil uppbygging síðustu misseri og boðið verður uppá fjölda áhugaverðra viðburða á svæðinu. Að venju er frítt í Strætó og Flugeldasýningin verður á sínum stað á Austurbakka kl. 23. Á Menningarnótt er sérstök áhersla lögð á að fjölskyldan njóti samveru, komi saman í bæinn og fari heim saman. Hægt er að nálgast alla viðburði á Menningarnótt á vefnum menningarnott.is

Sjáumst á Menningarnótt 2017!


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00