Fara í efni  

Ný nálgun í þjónustu við eldra fólk

Á myndinni eru (frá vinstri til hægri): – Laufey Jónsdóttir tengiráðgjafi Gott að eldast hjá SSV, Jó…
Á myndinni eru (frá vinstri til hægri): – Laufey Jónsdóttir tengiráðgjafi Gott að eldast hjá SSV, Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir forstjóri HVE, Kristín Björg Jónsdóttir forstöðumaður stuðnings- og stoðþjónustu Akraneskaupstaðar, Hulda Gestsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á HVE, Ragnheiður Helgadóttir deildarstjóri heimahjúkrunar á HVE, Valdís Eyjólfsdóttir framkvæmdastjóri Höfða, Líf Lárusdóttir verkefnastjóri Gott að eldast hjá SSV, Sveinborg L. Kristjánsdóttir deildarstjóri farsældarþjónustu fullorðinna, Herdís Björnsdóttir sérfræðingur hjá Félags- og húsnæðismálaráðuneytinu og Hildigunnur Árnadóttir sviðsstjóri velferðar- og mannréttindasviðs Akraneskaupstaðar.

Verkefnið Gott að eldast var sett á laggirnar af stjórnvöldum, en í því felst að tekið verður utan um málefni eldra fólks með nýjum hætti. Aðgerðir verkefnisins beinast að því að finna góðar lausnir sem samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk. Sérstök áhersla er lögð á að samhæfa þjónustu ríkis og sveitarfélaga, efla heilbrigða öldrun með heilsueflingu, tryggja sveigjanlega þjónustu og bæta aðgang að ráðgjöf og upplýsingum fyrir eldra fólk. Markmiðið er að skapa þjónustu sem styður við virkt og heilsuhraust eldra fólk og gerir því kleift að taka þátt í samfélaginu sem allra lengst.

Akraneskaupstaður hefur nú stigið mikilvægt skref í tengslum við verkefnið með stofnun svokallaðs Móma-teymis (móttöku- og matsteymis). Teymið mun fara yfir allar umsóknir sem berast um félagslega heimaþjónustu og heimahjúkrun. Í teyminu eiga sæti fulltrúar frá Akraneskaupstað, Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi (HVE) og hjúkrunarheimilinu Höfða. Með því er stigið skref í átt að samþættri og samfelldri þjónustu við eldra fólk.

„Með stofnun Móma-teymisins erum við að stíga raunhæft skref í átt að samþættingu þjónustu fyrir eldra fólk,” segir Hildigunnur Árnadóttir sviðsstjóri velferðar- og mannréttindasviðs Akraneskaupstaðar. “Það er okkur mikilvægt að fólk upplifi að þjónustan sé samfelld, sveigjanleg og í takt við þarfir hvers og eins.“

Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir forstjóri HVE segir að samvinna við Akraneskaupstað og Höfða sé lykillinn að farsælli þróun þjónustunnar. “Með því að samþætta þjónustuna getum við tryggt að einstaklingar fái heildstæða og skilvirka þjónustu.“

Valdís Eyjólfsdóttir framkvæmdastjóri Höfða tekur í sama streng. „Við á Höfða leggjum mikla áherslu á að stuðla að heilbrigðri öldrun og góðum lífsgæðum. Þátttaka okkar í Móma-teyminu er liður í að styrkja tengsl milli stofnana og gera þjónustuna skilvirkari og manneskjulegri.“


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00