Fara í efni  

Námskeið fyrir foreldra um uppeldi og nám að hefjast

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og Haraldur Benediktsson bæjarstjóri Akraneskau…
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og Haraldur Benediktsson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar ásamt þjálfurum Invest in Play og leiðbeinendum sem taka þátt í þjálfuninni á Akranesi.

Akranes er fyrsta sveitarfélagið til að bjóða upp á foreldranámskeið á vegum þróunarverkefnisins Föruneyti barna – samstarf um stuðning við uppeldi og nám. Þessa dagana hljóta 25 leiðbeinendur frá Akranesi og víðar þjálfun í að halda námskeiðin. Markmið námskeiða er að valdefla foreldra í uppeldishlutverki sínu og efla þjónustu við börn og foreldra. Stefnt er að því að hafa þau aðgengileg í sem flestum leik- og grunnskólum landsins.

Þróunarverkefnið var sett af stað af mennta- og barnamálaráðherra í febrúar í fyrra í samstarfi við Háskóla Íslands. Árangur verður metinn með rannsókn á áhrifum þess á börn og foreldra en einnig mögulegum hagrænum áhrifum. Foreldrafræðsla er liður í grunnþjónustu sem á að vera aðgengileg öllum börnum og foreldrum í anda löggjafar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Það er fagnaðarefni að sjá ný námskeið um foreldrafærni líta dagsins ljós á Akranesi. Ef þau gefa jafn góða raun hér á landi og erlendis þá þurfum við að setja fullan kraft í að koma þessu af stað sem víðast. Mikilvægt er að brúa bilið milli aðstandenda barna og skóla og styðja við foreldra í uppeldishlutverki sínu. Það er ein arðbærasta fjárfesting sem hægt er að ráðast í,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Unnið hefur verið að þróun og útfærslu námskeiðanna í samstarfi Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Akraneskaupstaðar og mennta- og barnamálaráðuneytisins. Ákveðið var að styðjast við fræðsluefnið Tengjumst í leik (e. Invest in Play) en það byggir á leiðum sem efla sjálfsöryggi, meðvitund, sjálfstjórn og samskiptafærni foreldra. Áhersla er lögð á jákvæð samskipti og samveru foreldra og barna í leik. Rannsóknir hafa sýnt að það eflir sjálfstraust barna, tilfinningalæsi og félags- og námsfærni. Efnið byggir á gagnreyndum aðferðum og þátttöku í alþjóðlegum rannsóknarhópi.

Íslensk myndbönd hafa verið gerð til notkunar á námskeiðum fyrir foreldra og námsefnið þýtt á íslensku. 

Fyrsta þjálfunarnámskeið leiðbeinenda innan leik- og grunnskóla á sér stað á Akranesi í þessari viku undir leiðsögn Caroline White og Siri Gammelsæter frá Invest in Play. Í kjölfarið verður foreldrum barna á Akranesi boðin þátttaka í foreldranámskeiðum þeim að kostnaðarlausu, sem á eftir að útfæra nánar.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00