Fara í efni  

Landsbankahúsið selt

Gamla Landsbankahúsið mun í framtíðinni hýsa hótel og veitingastað.
Gamla Landsbankahúsið mun í framtíðinni hýsa hótel og veitingastað.

Bæjarstjórn Akraness samþykkti í dag samning um sölu á gamla Landsbankahúsinu við Akratorg. Kaupandi er Hraun fasteignafélag ehf. Ætlunin er að í húsinu verði hótel og veitingastaður, en til stendur að gera húsið upp og leita eftir heimild til að byggja hæð ofan á það. Að öðru leyti er ætlunin að húsið haldi upprunalegum stíl og einkennum eins og kostur er.

Fyrir tæpu ári auglýsti Akraneskaupstaður eftir aðila til samstarfs um skipulag og þróun á reit sem inniheldur lóðirnar Suðurgötu 57, 47 og Skólabraut 24, vestan við Akratorg. Jafnframt var þá óskað eftir kauptilboði í gamla Landsbankann. Engin tilboð bárust, en nokkrir aðilar sýndu húsinu áhuga í framhaldi af því. Söluverðið nú er 70 milljónir króna sem er í samræmi við útboðsgögn. Samkomulag er um að kaupendur hafi tíma til að vinna að skipulagi á þeim reitum og ákveða síðar um kaup á byggingarrétti þar.

„Þetta eru tímamót fyrir Akranes,” segir Haraldur Benediktsson bæjarstjóri um sölu hússins. “Fyrir það fyrsta er hér samkomulag við kaupendur sem hafa reynslu af uppbyggingu á ferðaþjónustu og endurnýjun á eldri húsum. Í öðru lagi er nú loksins að komast á skrið undirbúningur að opnun á hóteli á Akranesi. Mestu máli skiptir að salan er upphaf að eflingu miðbæjarins. Akraneskaupstaður mun í framhaldinu leita leiða til að efla ferðaþjónustu sem atvinnugrein á Akranesi.“
Samkvæmt kaupsamningi hafa kaupendur tíma til að huga nánar að ástandi hússins á næstu vikum. “Ef allt gengur eftir munum við sjá framkvæmdir í og við húsið á vordögum. Bygging fjórðu hæðar á húsið fer í skipulagsferli.”

„Við sjáum mikil tækifæri í Akranesi sem áfangastað ferðamanna,“ segir fulltrúi Hrauns fasteignafélags ehf. „Bærinn býr yfir sterkri sérstöðu bæði hvað varðar náttúru, sögu og nálægð við höfuðborgarsvæðið, en einnig í öflugu samfélagi og miðbæ sem hefur burði til frekari uppbyggingar. Með þessu verkefni viljum við leggja okkar af mörkum til að styrkja miðbæinn, skapa lifandi þjónustu og taka þátt í markvissri uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu, í nánu samstarfi við sveitarfélagið og aðra hagsmunaaðila.“


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu