Fara í efni  

Gleðilega Barnamenningarhátíð!

Hér má sjá þau Viktoríu Dís og Liljar Pál sem tóku á móti gjöfinni fyrir hönd Teigasel, ásamt Írisi …
Hér má sjá þau Viktoríu Dís og Liljar Pál sem tóku á móti gjöfinni fyrir hönd Teigasel, ásamt Írisi leikskólastjóra og Dagný Hauksdóttur sviðsstjóra mennta- og menningarsviðs. Neðst í fréttinni má svo sjá myndir af öllum flottu hópunum sem tóku á móti okkur í menntastofnunum Akraneskaupstaðar!

Barnamenningarhátíð var sett með formlegum hætti í dag þegar öllum mennta- og menningarstofnunum kaupstaðarins var afhent bókin Sjónarafl: Þjálfun í myndlæsi.

Bókin er hluti af verkefni Listasafns Íslands sem miðar að því að auka aðgengi barna og ungmenna að menningarfi þjóðarinnar sem finna má í söfnum landsins. Sjónarafl er byggt á þróunarverkefni sem fræðsludeild Listasafns Íslands hefur unnið að undanfarin ár og byggir á alþjóðlegum rannsóknum í myndlæsi. Kennsla í myndlæsi eykur þekkingu yngri safngesta á myndlist, eflir gagnrýna hugsun, rökhugsun og hugtakaskilning ásamt því að þjálfa nemendur í virkri hlustun og skoðanaskiptum. 

Fyrir áhugasöm má lesa meira um verkefnið hér.

Þess má geta að Héraðsskjala- og Bókasafn Akraness hafa í samvinnu við verkefnastjóra menningarmála nú stillt upp sýningu í anda bókarinnar þar sem fjögur áhugaverð verk í eigu Listaverkasafns Akraneskaupstaðar eru til sýnis. Við hvetjum öll áhugasöm til að líta við og rýna í verkin: Sjá viðburð hér.

Á Barnamenningarhátíð í ár er þemað Skrímsli, hátíðardagskrá stendur yfir 23. – 31. maí og þar má finna fjölbreytt úrval af smiðjum og afþreyingu fyrir börn á öllum aldri og fjölskyldur þeirra. Lögð verður áhersla á náttúruperlurnar okkar, fjörurnar á hátíðinni og hefur að því tilefni verið útbúin nýr fræðsluvefur og samantekt um fjörurnar sem faðma bæinn okkar ásamt því að upplýsingaskiltum hefur verið komið fyrir í fjörunum þar sem bæjarbúar og gestir okkar geta skannað QR kóða og fundið umrædda fræðslusíðu. Öll börn í leik- og grunnskólum kaupstaðarins fengu einnig afhendan bækling með fræðslu um fjörurnar og upplýsingum um dagskrá hátíðarinnar.

Sérstakar þakkir fá Ása Katrín Bjarnadóttir og Helena Guttormsdóttir fyrir gagnaöflun um fjörurnar.

Hér má sjá Sæskrímsli Kalmansvíkur sem börn á elstu deild í Garðarseli sköpuðu í tilefni af hátíðinni. Ljósmynd: Guðni Hannesson.

Til þess að tengja þema hátíðarinnar og fjörurnar okkar saman eru börn í leik- og grunnskólum í samvinnu við kennara, starfsfólk menningarstofnanna og frístundar að vinna glæsileg verkefni í völdum fjörum, þar sem börnin skapa sitt eigið sæskrímsli. Upplýsingar um verkefnin eru væntanleg á fjörusíðuna og verða kynnt sérstaklega á öllum miðlum.

Að barnamenningarhátíð lokinni viljum við benda á lokafögnuð Barnamenningarhátíðar þar sem Akraneskaupstaður tekur höndum saman með Listahátíð í Reykjavík. Um er að ræða flutning á verkinu Sæskrímslin, götuleikhús-sýningu Sirkúshópsins Hringleiks sem frumflutt verður á Listahátíð í Reykjavík þann 1 júní. Sæskrímslin hefja ferð sína í höfuðborginni og fara svo á Akranes, Ísafjörð, Húsavík og Neskaupsstað og allir þessir viðburðir eru hluti af Listahátíð. Hérna má lesa meira um viðburðinn en hann verður 4. júní á Akraneshöfn klukkan 17:15, rétt á undan kvikmyndahátíð Grundaskóla!

Við hlökkum til að sjá sem allra flest á Barnamenningarhátíð. Hvetjum ykkur til að njóta gæðastunda með fjölskyldunni.

Barnamenningarhátíð fékk veglegan styrk frá Barnamenningarsjóði og SSV.

Gleðilega barnamenningarhátíð!

Glæsilegur hópur barna á elstu deild leikskólans Vallarsels tók vel á móti okkur!

Börn í þriðja bekk í Brekkubæjarskóla voru gríðarlega hress og tóku vel á móti okkur á Bókasafni Brekkubæjarskóla.

Dröfn aðstoðarskólameistari tók á móti bókinni fyrir hönd Fjölbrautarskólans á Vesturlandi. 

Flottir fulltrúar nokkurra árganga úr Grundaskóla tóku vel á móti okkur á Bókasafni Grundaskóla.

Kátir krakkar á Akrasel tóku okkur fagnandi.

Það var aldeilis glæsileg gomman sem tók á móti okkur á skólalóðinni í Garðaseli! 

Erla Dís forstöðumaður Héraðsskjalasafnsins tók á móti bókinni fyrir hönd Héraðsskjala- og Bókasafn Akraneskaupstaðar. Fyrir aftan hana má sjá glitta í sýninguna sem stendur nú yfir í tengslum við bókina.

 

Rut Berg tónlistarskólastjóri tók á móti bókinni fyrir hönd Tónlistarskólans á Akranesi.

Tinna Royla myndlistakona og starfsmaður á Byggðarsafninu í Görðum tók á móti bókinni fyrir hönd Byggðarsafnsins.


   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00