Fara í efni  

Ríkharður Jónsson heiðursborgari Akraness látinn

Við vígslu Rastarinnar, árið 1961. Mynd: Ólafur Árnason.
Við vígslu Rastarinnar, árið 1961. Mynd: Ólafur Árnason.

Ríkharður Jónsson, einn þekktasti íþróttamaður Íslands fyrr og síðar, lést í gærkvöldi, 14. febrúar 2017. Ríkharður var fæddur 12. nóvember árið 1929.

Ríkharður átti farsælan feril að baki sem knattspyrnumaður og var jafnframt formaður ÍA um árabil. Á sínum fótboltaferli hampaði hann sex Íslandsmeistaratitlum, þar af fimm með Íþróttabandalagi Akraness og var lykilmaður í Íslenska landsliðinu í fjölda ára. Ríkharður Jónsson lék alls 184 leiki með ÍA og skoraði í þeim 136 mörk, þar af skoraði hann 68 mörk í 95 leikjum í efstu deild. Hann er þriðji markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi. Ríkharður var sæmdur heiðurskrossi KSÍ og hinni íslensku Fálkaorðu og var heiðursfélagi bæði ÍA og KFÍA. Ríkharður var tekinn inn í heiðurshöll ÍSÍ þann 30. desember 2015.

Ríkharður var bæjarfulltrúi á Akranesi árin 1974-1982. Árið 2008 var Ríkharður gerður að heiðursborgara Akraness við hátíðlega athöfn í Akraneskirkju að viðstöddum forseta Íslands, forseta alþingis, bæjarfulltrúum, fjölskyldu Ríkharðs og félögum úr knattspyrnunni á Akranesi. Í ávarpi þáverandi forseta bæjarstjórnar Akraness, Gunnars Sigurðssonar sem veitti Ríkharði og eiginkonu hans viðurkenninguna, var tekið til þess hvað framgangur knattspyrnunnar á Akranesi undir forystu Ríkharðs Jónssonar hefði átt ríkan þátt í jákvæðri ímynd bæjarfélagsins.  

Eiginkona Ríkharðs, Hallbera G. Leósdóttir lést þann 9. janúar síðastliðinn. Börn þeirra eru fimm og eru í aldursröð Ragnheiður, Hrönn, Ingunn, Sigrún og Leó.

Akraneskaupstaður þakkar Ríkharði Jónssyni fyrir ómetanlegt starf í þágu knattspyrnunnar á Akranesi og sendir börn­um hans og öðrum aðstand­end­um innilegar samúðarkveðjur.

Af virðingu við minningu Ríkharðs Jónssonar er flaggað í hálfa stöng við bæjarskrifstofur Akraness í dag.

 


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00