Fara í efni  

Margt um að vera í tengslum við Vökudaga

Tónleikar í anddyri Tónlistarskólans á Vökudögum.
Tónleikar í anddyri Tónlistarskólans á Vökudögum.

Lista- og menningarhátíðin Vökudagar var formlega sett þann 29. október síðastliðinn og stendur hún yfir til 8. nóvember. Margt er um að vera á Akranesi í tengslum við hátíðina.

Í dag kl. 16 eru nemendur af deildunum Hnúki og Stekk í Leikskólanum Vallarseli með Vökudagatónleika í Tónbergi. Sérstakir gestir þar verða Margrét Saga Gunnarsdóttir, stjarnan úr ,,Ísland got talent“ og Marinó Rafn Guðmundsson. Kl. 17 eru nemendur í 5.-7. bekk í Grundaskóla að sýna verk sem þeir unnu undir heitinu Lagt í vörðuna, leið að sjálfbærni. Bjóða nemendur þar einnig upp á tónlistaratriði og kaffi. Í kvöld, kl. 19 er fyrirlestur um forsendur árangursríkrar hefðar í íþróttastarfi barna, unglinga og fullorðinna. Það er Viðar Halldórsson sem flytur erindi og er fyrirlesturinn opinn öllum og frítt inn. Kl. 20.00 kemur dúettinn Duo Ultima fram í Tónbergi. Dúettinn skipa þeir Guido Bäumer saxófónleikari og Aladár Rácz píanóleikari. Þeir hafa starfað saman í rúm 13 ár, meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.

Akranesviti er opinn frá kl. 12-16.00 frá 2.-6. nóvember en þar eru ljósmynda- og myndlistarsýningar á öllum hæðum. Hafið og fjaran er listasýning 4. bekkjar í Brekkubæjarskóla. Nemendur hafa unnið myndverk, þrívíddarverk, ljósmyndir, skartgripi og ljóð. Allt eru þetta verk sem tengjast þemanu hafið og fjaran og eru unnin sérstaklega til að sýna á Vökudögum. Sýningin er á 3 hæð vitans ásamt sýningu leikskólabarna frá elstu deildum leikskóla á Akranesi. Á 4 hæð vitans er Jón Hilmarsson, skólastjóri Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit með ljósmyndasýningu. Á 1 hæð vitans er málverkasýning Önnu S. Helgadóttur og á 2 hæð vitans er ljósmyndasýning Þórdísar Björnsdóttur. 

Í anddyri Tónlistarskólans er Leikskólinn Vallarsel með ljósmyndasýningu. Á Smiðjutorgi er myndlistarsýning frá Leikskólanum Akraseli, klettabúar sýna myndir og myndverk og elstu börnin í Leikskólanum Garðaseli eru með ljósmyndasýningu á Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimili. 


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00