Fara í efni  

Magnús Oddsson fyrrverandi bæjarstjóri Akraness látinn

Magnús Oddsson fyrrverandi bæjarstjóri Akraness lést í gær þann 11. apríl 2017. Magnús var fæddur 17. nóvember árið 1935 og var bæjarstjóri á árunum 1974 til 1982.

Magnús, sem var lærður tæknifræðingur, var fyrst ráðinn til starfa hjá Akraneskaupstað í ársbyrjun 1968 sem rafveitustjóri Rafveitu Akraness og gegndi hann því starfi til haustsins 1974, en þá var hann ráðinn bæjarstjóri Akraness. Hann gegndi starfi bæjarstjóra fram á haustið 1982, en tók þá aftur við starfi rafveitustjóra og gegndi því starfi til ársloka 1995. Hann tók við starfi veitustjóra Akranesveitu við sameiningu orkufyrirtækja í ársbyrjun 1996 og gegndi því starfi fram í október árið 2000. Hann var jafnframt á sama tíma framkvæmdastjóri Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og Andakílsárvirkjunar. Magnús var í stjórn Lífeyrissjóðs Akraneskaupstaðar.

Í starfi sínu fyrir Akraneskaupstað leiddi hann eða kom mörgum framfaramálum fyrir sveitarfélagið, þar má nefna Uppbyggingu Rafveitu Akraness, byggingu íþróttahússins á Vesturgötu, stofnun og uppbyggingu Fjölbrautaskólans, fyrsta áfanga Grundaskóla, uppbyggingu Akraneshafnar og fyrsta áfanga Höfða hjúkrunar- og dvalarheimilis. Magnús kom að stofnun Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar og síðar að rekstri hennar sem framkvæmdastjóri. Jafnframt kom hann að fyrstu skrefum í uppbyggingu Grundartangasvæðis og átaki í gatnagerð með nýlagningu gatna. Magnús var veitustjóri Akranesveitu á starfstíma veitunnar, jafnframt gegndi hann framkvæmdastjórastöðu HAB og Andakílsárvirkjunar á umbrotatímum í orkumálum starfsvæðisins.

Magnús átti farsælan feril í starfi innan íþróttahreyfingarinnar bæði hér á Akranesi og á landsvísu. Magnús var í stjórn Íþróttabandalags Akraness frá árunum 1983 til 1992, þar af sem formaður frá 1984 og var þar meðal annars í forystu um byggingu Íþróttahússins á Jaðarsbökkum. Magnús var varaforseti Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) 1992 til 1997 og heiðursfélagi ÍA og ÍSÍ.

Eftirlifandi eiginkona Magnúsar er Svandís Pétursdóttir fyrrverandi sérkennari. Sonur þeirra er Pétur Magnússon forstjóri Hrafnistu.

Akraneskaupstaður þakkar Magnúsi Oddssyni fyrir ómetanlegt starf í þágu Akraneskaupstaðar og íþrótta á Akranesi og sendir eiginkonu og syni og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur. Af virðingu við minningu Magnúsar Oddssonar er flaggað í hálfa stöng við bæjarskrifstofur Akraness í dag.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00