Fara í efni  

Ályktun bæjarstjórnar Akraness um ástand vegamála á Kjalarnesi - áskorun til samgönguyfirvalda um úrbætur

Á 1266. fundi bæjarstjórnar Akraness þann 9. janúar 2018 var samþykkt eftirfarandi ályktun:

Bæjarstjórn Akraness skorar á samgönguyfirvöld að bregðast nú þegar við ástandi Vesturlandsvegar á Kjalarnesi og veita frekari fjármunum til nauðsynlegra úrbóta vegna tvöföldunar vegkaflans. Ljóst er að við núverandi ástand verður ekki unað og vegamálastjóri hefur sjálfur stigið fram og sagt vegkaflann hættulegan og brýnt að aðskilja akstursstefnur. Þegar æðsti embættismaður vegamála á Íslandi lýsir því yfir að banaslys á tilteknum vegkafla sé kannski ekki mjög óvæntur atburður þá verður að bregðast við því með viðeigandi hætti.

 Í Samgönguáætlun 2015-2018 er gert ráð fyrir 700 milljónum króna til endurbóta á Vesturlandsvegi. Þrátt fyrir auknar fjárveitingar í þágu umferðaröryggis í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi, er vegkaflanum um Kjalarnes raðað enn aftar í röðina en áður og einungis gert ráð fyrir að verja 200 milljónum til endurbóta með uppbyggingu hringtorgs við Esjumela, sem verður það áttunda í röð hringtorga frá Keldnaholti að Esjumelum.

Bæjaryfirvöld á Akranesi hafa margsinnis undanfarin ár vakið athygli á brýnni nauðsyn þess að framkvæmdum á Vesturlandsvegi verði hraðað umfram þær áætlanir sem þó birtast í langtímasamgönguáætlun. Það er með öllu óviðunandi að árið 2018 sé enn verið að keyra Vesturlandsveg sem einu einbreiðu og óupplýstu þjóðleiðina út úr Reykjavík og er það ástand ekki í samræmi við áherslur stjórnvalda um forgangsröðun í þágu umferðaröryggis. 


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00