Fara í efni  

Vinnuskóli – til hvers og af hverju?

Flest okkar sem erum komin yfir miðjan aldur höfum kynnst starfemi vinnuskóla í einhverri mynd. Á árum áður þegar undirrituð voru á unglingsaldri hét þetta Skólagarðar og uppnefnt sem Letigarðar. Þessi vinna var ekki hátt skrifuð enda börn oft búin að vinna jafnvel ár í frystihúsum þegar fermingaraldri var náð.

Í áranna rás hefur atvinnuþátttaka barna og ungmenna tekið miklum breytingum og í dag er mjög skýrt regluverk sem rammar inn vinnu barna og ungmenna. Er það gert aðallega til verndar börnum.

En hvað er Vinnuskóli?

Vinnuskóli Akraness er útiskóli og starfar eftir Reglugerð um vinnu barna og ungmenna 426/1999 Vinnuskólinn er bæði vinna og skóli. Hann er félagslega skapandi vinnustaður, með kennslu í almennri vinnuskólavinnu og er með skýrar reglur varðandi vinnuumhverfi. Auk þess leggur Vinnuskólinn m.a áherslu á eftirfarandi þætti í starfsemi sinni:

  • Að gefa ungmennum á Akranesi tækifæri til að sinna  og kynnast fjölbreyttum og skemmtilegum störfum þar sem lögð er áhersla á  gleði, vinnu og lærdó
  • Að gefa nemendum tækifæri til að þroska vinnuvitund sína.
  • Að undirbúa nemendur fyrir almennan vinnumarkað.

Í Vinnuskólanum gefst nemendum kostur á sumarstörfum í umhverfi sem einkennist af fræðslu, kennslu og þjálfun. Þar læra nemendur að bera virðingu fyrir vinnu, þau læra stundvísi og aga á vinnustað og kynnast ólíkum störfum allt eftir getu og þroska hverju sinni.

Vinnuskóli er samfélagsverkefni og þar læra nemendurnir að bera virðingu fyrir umhverfinu sínu og efla umhverfisvitund sína. Í vinnuskólanum eignast nemendur vinnufélaga og samstarfsfólk, og lærir að samvinna skilar árangri.

Vinnuskóli er frábær staður fyrir börn og ungmenni að læra að vinna og kynnast ólíkum störfum. Vinnuskólinn er stigskiptur og taka störfin breytingum í takt við aldur og þroska nemendanna. Þau ungmenni sem hafa farið í gegnum Vinnuskóla eru vel búin undir atvinnumarkaðinn, læra stundvísi, samviskusemi og sjálfstæð vinnubrögð en líka samvinnu. Allt eru þetta eftirsóttir eiginleikar þegar leitað er eftir starfsfólki á almennum vinnumarkaði.

Kæru foreldrar. Um þessar mundir er verið að skrá nemendur í Vinnuskóla Akraness. Það er gert í gegnum Vala vinnuskóli. Styðjum börnin okkar og hjálpum þeim að þjálfa vinnuvitund sína og undirbúa sig fyrir almennan vinnumarkað en ekki síður að hafa gaman í sumar með jafnöldrum undir stjórn skemmtilegra flokkstjóra.

 

Heiðrún Janusardóttir, verkefnisstjóri frístunda-og forvarnarmála

Jón Arnar Sverrisson, garðyrkjustjóri og skólastjóri Vinnuskóla Akraness


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00