Fara í efni  

Hvað er á seyði í fjörunum okkar! Barnamenningarhátíð 2024

Teikningar af skrímslum eftir börn á elstu deild Garðaseli
Teikningar af skrímslum eftir börn á elstu deild Garðaseli

Barnamenningarhátíð verður haldin hátíðleg í maí, leikskólarnir okkar hafa þegar hafist handa við sín verkefni og dagana 23. maí – 31.maí, verður sérstök hátíðardagskrá í boði fyrir fjölskyldur bæjarfélagsins. Þema barnamenningar hátíðarinnar 2024 eru SKRÍMSLI.

Á barnamenningarhátíðinni í ár viljum við leggja áherslu á náttúruperluna sem faðmar bæinn okkar – Fjörurnar okkar. Börn í leikskólum Akraneskaupstaðar fengu það verkefni að skapa sitt eigið sæskrímsli í völdum fjörum. Þannig tengjast börnin náttúrunni okkar á skemmtilegan og skapandi hátt og við kynnumst fjörunni einnig í gegnum þeirra augu.

Verkefnið er nú þegar hafið og hafa elstu deildir leikskólanna fengið fræðandi og skemmtilega heimsókn frá þeim Helenu Guttormsdóttur (Hellu) og Kristrúnu Sigurbjörnsdóttur (Krissu) þar sem þær fjölluðu um lífríki fjaranna og skapandi kveikjur sem finna má í fjörum.

Heimsóknin snerti á hinum ýmsu skynfærum, þau sáu áhugaverð og endurtekin form kuðunga, líkindin með appelsínu og ígulkeri, hlustuðu á kuðungana, komu við þang og þefuðu ásamt því að fá að smakka söl.

   

Á næstu dögum munu börnin síðan fara með þetta veganesti í fjöruna sem hver leikskóli valdi sér og skapa sitt eigið sæskrímsli. Garðasel í Kalmansvík, Teigasel í Krókalón, Akrasel og Vallarsel á Langasand. Bæjarbúum verður kynnt sérstaklega afrakstur þessa verkefnis.

Kristrún Sigurbjörnsdóttir heimsótti leikskólana síðan á nýjan leik og fjallaði þar um Katanesskrímslið og aðrar skemmtilegar sögur í okkar næsta nágrenni. Börnin voru hrifin og þótti skemmtilegt að læra um þessar kynjaverur.

Dagana 28.maí og 29.maí fá síðan allir leikskólar heimsókn frá söngdúettnum Birte og Immu sem ætla að syngja vel valin skrímslalög fyrir allar deildir. Leikskólinn Skýjborg í Hvalfirði fær einnig umræddar heimsóknir.

Grunn- og leikskólabörn fá afhendan barnamenningarhátíðar bækling í næstu viku. Í þessum bækling má finna skemmtilegan fróðleik um fjörurnar. Við hvetjum foreldra og forráðarmenn til þess að nýta tækifærið og fara í heimsóknir í fjörurnar með börnunum og eiga þar skemmtilegar og fróðlegar stundir.

Síðan er aldeilis vert að fylgjast með dagskrá barnamenningarhátíðar sem mun birtast á www.skagalif.is í heild sinni í dag.

En einnig er ganglegt að melda sig á facebook viðburðinn þar sem við verðum dugleg að segja frá því sem verður í gangi.


   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00