Fara í efni  

Gagnlegar upplýsingar fyrir nýja íbúa

Akranes er heillandi bæjarfélag í vexti með rúmlega 7.500 íbúa og er stærsti íbúakjarni Vesturlands. Akranes er framsækið sveitarfélag sem leggur fyrir sig jákvæðni, metnað og víðsýni í þjónustu og uppbyggingu sveitarfélagsins með lýðheilsu og velferð íbúa að leiðarljósi. Það er mögulegt að á Akranesi búi hamingjusömustu íbúar landsins enda landslagið, sagan, menningin og samfélagið einstakt. Akranes er einstaklega fjölskylduvænt bæjarfélag þar sem gott er að búa, ala upp börn og eldast. Akranes er Heilsueflandi samfélag og unnið er að því að fá viðurkenningu UNICEF sem Barnvænt sveitarfélag. Á Akranesi eru starfandi tveir grunnskólar, fjórir leikskólar ásamt Fjölbrautarskóla Vesturlands og Tónlistaskóla Akraness. Hér er rekið öflugt íþrótta- og frístundastarf í samvinnu Akraneskaupstaðar, Íþróttabandalags Akraness og annarra hagaðila.

Vissir þú að það tekur meðal einstakling um 10 mínútur að ganga 1 km? Öll helsta þjónusta er í 2 km fjarlægð eða minna frá heimilum. Helsti kosturinn við Akranes er flatlendi þess og hversu auðvelt það er að komast ferða sinna gangandi sem og hjólandi. 

Margskonar möguleikar eru til útivistar og hreyfingar innan bæjarmarka. Þá einna helst Langisandur sem er um eins kílómetra löng náttúruleg baðströnd þar sem hægt er að baða sig í sjónum og njóta útsýnisins í Guðlaugu sem er heit laug staðsett í grjótgarðinum á Langasandi. Fyrir lengra komna er Akrafjallið skammt undan auk þess sem Garðalundur skógræktarsvæði Akraness hefur margt upp á að bjóða. Ekkert annað bæjarstæði á landinu státar að jafn mikilli fjölbreytni í fjörugerðum og Akranes.

Húsnæði

Í gegnum kortavef Akraneskaupstaðar er hægt að sjá þær lóðir sem eru lausar til umsóknar. Umsóknir um byggingarlóð fara fram í gegnum Þjónustugátt Akraneskaupstaðar.

 Söluskrá fasteigna á Akranesi er hægt að sjá á fasteignasíðum Vísis og Mbl.is. 

Skólar

Innritun í leikskóla, frístundastarf og fleira fer fram í þjónustugátt Akraneskaupstaðar

Dagforeldrar eru sjálfstæðir verktakar en Akraneskaupstaður hefur umsjón og eftirlit með starfsemi þeirra ásamt því að sjá um ráðgjöf og upplýsingar til dagforeldra og foreldra.

  • Sjá nánari upplýsingar um dagforeldra

   Leikskólar. Á Akranesi eru starfandi fjórir leikskólar sem starfa eftir lögum og reglugerðum um leikskóla sem og skólastefnu Akraneskaupstaðar. Aðeins er hægt að innrita börn í leikskóla sem eiga lögheimili á Akranesi. Þeir sem hafa tekið ákvörðun um að flytja á Akranes geta sótt um þremur mánuðum fyrir flutning. Innritað er í leikskóla á því ári sem börn verða tveggja ára og inntaka fer að jafnaði fram að loknu sumarleyfi leikskólanna.

 • Sjá nánari upplýsingar um leikskóla

 • Grunnskólar. Á Akranesi eru starfandi tveir grunnskólar, Brekkubæjarskóli og Grundaskóli, með bekkjardeildum frá 1. til 10. bekk. Skólarnir starfa eftir lögum og reglugerðum um grunnskóla og skólastefnu Akraneskaupstaðar auk þess sem þeir starfa hvor eftir sínum áherslum og stefnum. Báðir skólarnir bjóða upp á framúrskarandi stoðþjónustu við nemendur.

 • Sjá nánari upplýsingar um grunnskóla Akraneskaupstaðar

  Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi var settur í fyrsta sinn haustið 1977. Nemendur við skólann hafa undanfarin ár verið 500 til 700 talsins, þar af um helmingur á stúdentsbrautum, um fjórðungur á iðnbrautum og um fjórðungur á öðrum námsbrautum. Skólinn býður upp á nám til stúdentsprófs, starfsbraut og fjölbreytt nám til starfsréttinda, meðal annars í húsasmíði, rafvirkjun, vélvirkjun og á sjúkraliðabraut.

 • Sjá nánari upplýsingar um Fjölbrautarskóla Vesturlands

  Tónlistarskólinn á Akranesi býr við góðan aðbúnað til kennslu að Dalbraut 1 og býður upp á fjölbreytileika í skólastarfinu. Hlutverk Tónlistarskólans á Akranesi er að stuðla að öflugu tónlistarlífi, jafnframt því að vinna að aukinni hæfni, þekkingu og þroska einstaklinga.

 • Sjá nánari upplýsingar um Tónlistarskólann

  Símenntunarmiðstöð Vesturlands rekur starfsemi sína á Akranesi að Suðurgötu 57. Hlutverk Símenntunarmiðstöðvarinnar er að auka þekkingu og stuðla að bættum búsetuskilyrðum á Vesturlandi með því að greina og svara menntunarþörf og hvetja til símenntunar í samvinnu við atvinnulíf og íbúa svæðisins. Ásamt því veitir Símenntununarmiðstöðin fjarnemum í háskólanámi kost á að taka próf í sinni heimabyggð.

Háskólar. Á Vesturlandi er að finna tvo háskóla sem bjóða upp á fjölbreyttar námsleiðir á háskólastigi. Það eru Háskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskóli Íslands.

Íþróttir og tómstundir

Á vefnum Skagalíf er að finna ýmsar upplýsingar varðandi tómstundir á Akranesi.

Frístundaheimili.
Akraneskaupstaður starfrækir frístundaheimili fyrir börn í 1. - 4. bekk.

Tómstundaframlag.
Akraneskaupstaður styrkir frístundaiðkun allra barna og unglinga á aldrinum 6-18 ára sem hafa lögheimili á Akranesi. Við skráningu barna í þjónustugáttinni í gegnum skráningarkerfi Nóra er hægt að ráðstafa framlaginu og skipta því einnig á milli íþróttafélaga, æfi viðkomandi fleiri en eina grein.

Íþróttahús.
Á Akranesi er boðið upp á fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf sem nær til allra aldurshópa. Tvö íþróttahús eru á Akranesi, annars vegar á Jaðarsbökkum og hins vegar við Vesturgötu 120.

Sundlaugar.
Á Akranesi eru tvær sundlaugar, Jaðarsbakkalaug og Bjarnalaug, ásamt Guðlaug sem er heit laug staðsett í grjótgarðinum á Langasandi.

Hér má nálgast upplýsingar um starfsemi íþrótta- og tómstundafélaga ásamt virkum félagasamtökum á Akranesi.  

Menningarlíf

Á Akranesi er blómlegt menningarlíf allan ársins hring. Á vefnum Skagalíf má finna upplýsingar um fjölbreytta menningarviðburði á Akranesi.

Byggðasafnið að Görðum hefur á undanförnum árum skipað sér verðugan sess sem eitt helsta aðdráttarafl Akraness enda mikil upplifun að koma þangað, jafnvel fyrir þá sem hafa annars ekkert gaman af söfnum.

Bókasafn Akraness er almenningsbókasafn og er rekið af Akraneskaupstað. Hlutverk þess er að veita fólki, bæði börnum og fullorðnum, greiðan aðgang að fjölbreyttum bókakosti og öðrum miðlunargögnum, þar á meðal tölvubúnaði og upplýsingum á tölvutæku formi. Barnahornið er sérlega notalegt og er aðstaða til fyrirmyndar.

Tónberg er glæsilegur tónleika- og ráðstefnusalur í húsnæði Tónlistarskólans á Akranesi, búinn fullkomnustu tækjum til hverskyns flutnings bæði á töluðu máli og tónlist.

Akranesviti er reglulega er opinn og er hann notaður undir listsýningar og tónleikahald enda er hljómburður í vitanum einstakur.

Árlegir menningarviðburðir

 • Hefð hefur skapast fyrir því að halda Vetrardaga í mars þar sem leitað er leiða til að brjóta upp hversdaginn með almennri menningarhátíð. Dagskrá hátíðarinnar hefur verið nokkuð fjölbreytt frá ári til árs og má nefna fyrirlestra, tónleika, örnefnagöngur, upplestur, listsýningar og fleira.
 • Norðurálsmótið er knattspyrnumót fyrir stráka í 7. flokki og fer fram á Akranesi um miðjan júní ár hvert. Yfir þúsund keppendur í rúmlega 100 liðum eru árlega á mótinu og síðustu árin hafa yfir 6.000 manns verið gestkomandi á Akranesi yfir mótsdagana og því liggur nærri að íbúafjöldi bæjarins tvöfaldist meðan á móti stendur en íbúar á Akranesi eru nú ríflega 7.000
 • Í byrjun júlí ár hvert halda Skagamenn hátíðlega hina svokölluðu Írsku daga til að minnast hinnar keltnesku arfleifðar sinnar og gera sér glaðan dag um leið.
 • Í lok október og byrjun nóvember ár hvert bjóða bæjaryfirvöld á Akranesi til menningarhátíðarinnar Vökudaga en tilgangur hátíðarinnar er að efla menningarlíf í bænum og lífga um leið upp á skammdegið.
 • Jólagleði í Garðalundi er haldin skömmu fyrir jól. Hugmynd er að fara út eftir kvöldmat, sem getur verið mjög spennandi í hugum litla fólksins. Hollvinasamtök Grundaskóla tendra ljósin hans Gutta og í skógræktinni ræður ævintýraheimur jólanna ríkjum.

Garðavellir er frístundamiðstöð rekin af Golfklúbbi Leynis. Þar er hægt að bóka sali fyrir ýmsa viðburði.

Bíóhöllin á Akranesi er eitt elsta kvikmyndahús landsins, byggt árið 1942. Fylgstu með nýjustu fréttum á Facebook síðu Bíóhallarinnar.

Smiðjuloftið er afþreyingarsetur á Akranesi. Þar er m.a. hægt að skella sér í klifur, taka þátt í fjölskyldutímum og halda upp á barnaafmæli.

Verslun og þjónusta

Á Akranesi má finna alla helstu þjónustu og verslun. Hægt að skoða nánar HÉR

Matvörubúðir, Kaffihús, Veitingahús, Apótek, Nytjamarkaður, Skemmtistaðir, Fataverslanir, Gjafavöruverslanir, Hárgreiðslustofur, snyrtistofur, Vínbúðin Gæludýraverslun, Bankar, Bakarí, Handavinnuverslun, Bókabúð, Byggingavöruverslun, Raftækjaverslanir, Pósthús, Bílaverkstæði, listagallerý o.s.frv.

Heilbrigðisþjónusta

Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi er deildarskipt umdæmasjúkrahús og heilsugæslustöð að Merkigerði 9. Afgreiðsla og tímapantanir virka daga kl. 07:45 - 18:00 í síma 432 1000.

Samgöngur

Akranesstrætó.
Á Akranesi er innanbæjarakstur/Akranesstrætó sem gengur alla virka daga frá 7.10 - 18.00, ekki er ekið um helgar. Strætóinn er án endurgjalds fyrir notendur hans.

Strætó.
Leið 57 gengur milli Akureyrar og Reykjavíkur og stoppar á sjö stöðum á Akranesi.

Rafhleðslustöð
ON hefur komið upp hraðhleðslustöð fyrir rafbíla sem staðsett er á bílastæði við Dalbraut 1.

Sorphirða og endurvinnsla

Almenn sorphirða, leiga, sala og losun sorpíláta og gáma og söfnun úrgangs til endurvinnslu er í umsjón (Gámaþjónustu Vesturlands ehf.) nú Terra að Höfðaseli 16. 

Búkolla er nytjamarkaður sem hefur verið starfandi á Akranesi síðan árið 2009. Þar er m.a. tekið við fatnaði, húsgögnum og öðrum húsbúnaði sem fær þess kost að öðlast nýtt líf á öðrum heimilum.  

Endurvinnsla á flöskum og dósum fer fram í Fjöliðjunni að Dalbraut 10.

Aðrar hagnýtar upplýsingar (flutningstilkynning, dýrahald o.s.frv.)

Dýrahald.
Á Akranesi er bæði hunda- og kattahald leyft að uppfylltum skilyrðum sem kveðið er á um í samþykkt um hunda- og kattahald á Akranesi. Sækja þarf sérstaklega um leyfi fyrir hunda- og kattahaldi á Akranesi.

Veitur ohf. sér um rafmagn, vatnsveitu og fráveitu á Akranesi.

Á vefnum Skagalíf er að finna upplýsingar um tómstundir, menningarviðburði og tækifæri til útivistar á Akranesi.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00