Fara í efni  

Akranesviti

Gamli vitinnUppbygging á vitakerfi í kringum Ísland var fyrst rædd á Alþingi árið 1903 og var viti á Skipaskaga talinn sérstaklega nauðsynlegur ef hafnar yrðu reglulegar gufuskipaferðir milli Borgarness og Reykjavíkur að vetrarlagi.  Árið 1918 var byggður steinsteyptur viti yst á Suðurflös á Akranesi, eftir teikningum Thorvalds Krabbe, verkfræðings. Vegna stálskorts af völdum fyrri heimsstyrjaldar var ljóshús vitans smíðað úr járnplötum úr flaki Goðafoss sem strandaði undir Straumnesfjalli 1917. Í ljóshúsi var 300 millimetra linsa og gasljósatæki til lýsingar. Gamli Akranesvitinn er ferstrendur, 10 metra hár og var starfræktur til ársins 1947. Heimamenn annast viðhald gamla vitans.

Vitarnir á AkranesiÁrin 1943-1944 var byggður á Breiðinni steinsteyptur viti eftir teikningum Axels Sveinssonar, verkfræðings og var hann tekinn í notkun árið 1947. Vitinn er 22,7 metrar á hæð með sívölu kónísku turnformi þar sem er 3,5 metra hátt sænskt ljóshús á steinsteyptri undirstöðu. Í ljóshúsi var 500 millimetra linsa og í upphafi gasljósatæki til lýsingar en vitinn var síðan rafvæddur árið 1956 og gas haft til vara til ársins 1995. Ljóshæð vitans er 24 metrar yfir sjávarmáli og sjónlengd 15 sjómílur. Vitinn stendur á lóðréttum sökkli, áttstrendum hið ytra en sívölum hið innra. Út frá hverju horni sökkulsins gengur stoðveggur. Í vitanum eru fjögur steinsteypt milligólf og stigar milli hæða. Akranesvitinn er siglingarviti í eigu og umsjón Siglingamálastofnunar Íslands.

Í marsmánuði árið 2012 var Akranesviti í fyrsta sinn opnaður almenningi til skoðunar en að þeim tíma voru það einungis vitaverðir sem höfðu aðgang að vitanum. Það var hugmynd Hilmars Sigvaldasonar að opna vitann og gera hann að áhugaverðum áfangastað fyrir ferðamenn. Akranesviti er orðinn eitt mesta aðdráttarafl í komu ferðamanna á Akranes. Vitinn sem reglulega er opinn, er notaður undir listsýningar og tónleikahald enda er hljómburður í vitanum einstakur. Útsýni frá toppi vitans er stórfenglegt, fjallasýn frá Reykjanesskaga að Snæfellsjökli. Frá mars 2012 til mars 2017 hafa rúmlega 38 þúsund manns heimsótt Akranesvita frá öllum heimshornum. 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
 • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
  Kt: 410169-4449

  Persónuverndarstefna
 • 433 1000
  Skrifstofan er opin sem hér segir:
  Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
  Föstudaga kl. 09:00-14:00