Fara í efni  

Skóla- og frístundaráð

265. fundur 20. júní 2025 kl. 08:00 - 11:00 í Lindinni Dalbraut 4
Nefndarmenn
  • Jónína Margrét Sigmundsdóttir formaður
  • Liv Aase Skarstad varaformaður
  • Ragnheiður Helgadóttir varamaður
  • Vilborg Guðný Valgeirsdóttir áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra
  • Hjörvar Gunnarsson áheyrnarfulltrúi foreldra leikskólabarna
  • Sylvía Hera Skúladóttir áheyrnarfulltrúi leikskólakennara
  • Ingunn Sveinsdóttir áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra
  • Íris Guðrún Sigurðardóttir áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra
Starfsmenn
  • Dagný Hauksdóttir sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs
  • Maren Ósk Elíasdóttir verkefnastjóri
Fundargerð ritaði: Dagný Hauksdóttir sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs
Dagskrá

1.Tillaga um samstarf - knattspyrnuæfingar á leikskólatíma

2506080

Knattspyrnufélag ÍA hefur áhuga á að koma á samstarfi við leikskóla Akraneskaupstaðar og leggur fram hugmynd um að æfingar 8. flokks drengja og stúlkna fari fram á leikskólatíma.



Aron Ýmir Pétursson fylgir málinu eftir fyrir hönd KFÍA.

Áheyrnarfulltrúar leikskóla sitja fundinn undir dagskrárliðum 1-4.
Skóla- og frístundaráð tekur jákvætt í erindið og þakkar Knattspyrnufélagið ÍA fyrir spennandi tillögu. Sviðsstjóri vinnur málið áfram í samstarfi við KFÍA og leikskólastjóra.
Aron Ýmir Pétursson víkur af fundi.

2.Verklagsreglur leikskóla - breytingar 2025

2506134

Skóla- og frístundaráð hefur unnið að endurskoðun á verklagsreglum um starfsemi leikskóla Akraneskaupstaðar og eru þær hér með lagðar fram til afgreiðslu. Umræddar breytingar eru liður í markvissri endurskoðun á starfsháttum leikskóla, meðal annars í kjölfar breytinga á kjarasamningum starfsmanna. Markmiðið er að efla faglegt starf og draga úr líkum á skerðingu á þjónustu við börn og foreldra.



Helstu breytingar fela í sér að skráningardagar verða formlega festir í verklagsreglurnar, auk þess sem opnunartímar leikskólanna verða sniðnir að raunverulegri notkun. Einnig eru lagðar til breytingar á gjaldskrá leikskólanna, þar sem gert er ráð fyrir innleiðingu á þrepaskiptu afsláttarkerfi, auk hækkunar gjalds fyrir dvalartíma utan hefðbundins dagvinnutíma, fyrir kl. 8:00 og eftir kl. 16:00.



Skóla- og frístundaráð telur umræddar breytingar á verklagsreglum um starfsemi leikskóla Akraneskaupstaðar nauðsynlegar í ljósi þróunar í starfsumhverfi og breyttra forsenda í kjölfar kjarasamninga. Með fyrirliggjandi tillögum er áhersla lögð á að styrkja faglegt starf, tryggja samfellu í þjónustu og mæta þörfum barna, foreldra og leikskólastarfs á vel ígrundaðan hátt.

Ráðið leggur því til við bæjarráð að samþykkja framlagðar breytingar á verklagsreglunum.

3.Gjaldskrá leikskóla - breytingar 2025

2506124

Skóla- og frístundaráð hefur í samstarfi við leikskólastjóra, unnið að því að móta leiðir til að mæta styttingu vinnuviku starfsfólks leikskóla án þess að skerða þjónustu við börn og foreldra. Ráðið hefur unnið að útfærslu sem felur m.a. í sér breytingar á gjaldskrá leikskóla.

Í úttekt KPMG á mönnunarlíkani og rekstri leikskóla kemur fram að opnunartími leikskóla á Akranesi er almennt rýmri en gengur og gerist á landsvísu. Þá kemur jafnframt fram að tækifæri felist í því að endurskoða og stýra betur dvalartíma barna í leikskólum, þar sem í dag greiða margir foreldrar fyrir dvalartíma umfram hefðbundinn dagvinnutíma kl. 8:00 - 16:00, án þess að nýta hann að fullu.
Skóla- og frístundaráð leggur til eftirfarandi breytingar á gjaldskrá leikskóla og vísar málinu til afgreiðslu hjá bæjarráði.
- Gjald verði kr. 15.000 á klukkustund fyrir vistun utan hefðbundins dagvinnutíma, þ.e. fyrir tíma utan kl. 8:00-16:00.
- Veittur verði 25% afsláttur af dvalargjaldi ef vistunartími barns er að meðaltali 7 klukkustundir á dag (35 klukkustundir á viku).
- Veittur verði 30% afsláttur af dvalargjaldi ef vistunartími barns er að meðaltali 6,5 klukkustundir á dag (32,5 klukkustundir á viku).
- Veittur verði 35% afsláttur af dvalargjaldi ef vistunartími barns er að meðaltali 6 klukkustundir á dag (30 klukkustundir á viku).
- Veittur verði 25% afsláttur af dvalargjaldi ef vistun lýkur kl. 14:00 á föstudögum (38 klukkustundir á viku).
- Allir liðir í gjaldskrá sem kveða á um vistun umfram 8 klukkustundir á dag verða felldir brott.

4.Skráningardagar 2025-2026

2506081

Skráningardagar í leikskólum Akraneskaupstaðar hafa fest sig í sessi og gefið góða raun. Markmið þeirra er að skapa svigrúm innan starfsemi leikskólanna til að uppfylla kjarasamningsbundinn rétt starfsfólks til 36 klukkustunda vinnuviku, án þess að draga úr gæðum leikskólastarfsins.
Skóla- og frístundaráð undirstrikar mikilvægi verkefnisins og leggja sviðsstjóri og leikskólastjórar fram eftirfarandi tillögur að fyrirkomulagi skráningardaga skólaárið 2025-2026:
Skráningardagar verði 10 á starfsárinu; vetrarfrí grunnskóla í október (2 dagar), í kringum jól og áramót (3 dagar), vetrarfrí grunnskóla í febrúar (2 dagar) og Dymbilvika (3 dagar).

- Foreldrar/forráðamenn sem skrá börn sín í 10 daga fjarveru fá niðurfellingu leikskólagjalda fyrir nóvembermánuð (sem kemur til lækkunar á greiðslu í desember).
- Þeir sem nýta þjónustu leikskóla að einhverju leyti þessa skilgreindu skráningardaga fá einungis gjaldfrelsi í samræmi við fjölda fjarverudaga í viðkomandi mánuði.
- Skráningar eru bindandi og skulu berast viðkomandi leikskólastjóra eigi síðar en 15. september 2025, eigi foreldrar að njóta gjaldfrelsis í nóvembermánuði.
- Á skráningardögum verður aðeins einn leikskóli opinn, þar sem safnskóli verður starfræktur. Tilkynnt verður fyrir hverja skráningardagalotu hvaða leikskóli gegnir því hlutverki hverju sinni.

Skóla- og frístundaráð vísar málinu til umfjöllunar hjá bæjarráði.
Áheyrnarfulltrúar leikskóla víkja af fundi.

5.Golfklúbburinn Leynir - æfingaaðstaða innanhúss

2506125

Erindi frá Golfklúbbnum Leyni vegna stöðu klúbbsins hvað varðar æfingaaðstöðu innanhúss.

Rakel Óskarsdóttir framkvæmdastjóri Leynis og Birkir Þór Baldursson íþróttastjóri fylgja erindinu eftir. Fundarliðinn sitja einnig Guðmundu Ólafsdóttur framkvæmdarstjóri ÍA, Anna Sólveig Smáradóttir fulltrúi í skipulags- og umhverfisráði og Ragnar B. Sæmundsson varafulltrúi í skipulags- og umhverfisráði.
Skóla- og frístundaráð þakkar Rakel, Birki og öðrum gestum fundarins fyrir gott samtal. Ráðin fagnar þeim öra vexti sem orðið hefur í barna- og ungmennastarfi golfklúbbsins og áréttar mikilvægi þess að áfram verði unnið að ásættanlegri lausn fyrir vetrarstarfsemi barna og ungmenna. Markmið Akraneskaupstaðar er að starfsemi aðildarfélaga Íþróttabandalags Akraness geti farið fram í mannvirkjum kaupstaðarins. Sviðsstjóra er falið að vinna málið áfram og er því vísað til umfjöllunar hjá bæjarráði.


Fundi slitið - kl. 11:00.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-12:00