Fara í efni  

Skipulagsnefnd (2000-2002)

43. fundur 07. mars 2000 kl. 13:00 - 17:00
43. fundur skipulagsnefndar Akraness haldinn í fundarsal bæjarskrifstofu Stillholti 16-18, þriðjudaginn 7. mars 2000, kl. 13:00.

Mættir: Jóhannes Snorrason formaður, Heiðrún Janusardóttir, Guðbjartur Hannesson, Sigurlína Guðrún Júlíusdóttir og Lárus Ársælsson.
Auk þeirra Skúli Lýðsson byggingar- og skipulagsfulltrúi og Hafdís Sigurþórsdóttir sem ritaði fundargerð.

1. Flatahverfi, rammaskipulag.
Bréf frá Kanon arkitektum dags. 2. mars 2000. Bréf AB4/AVT dags. 2. mars 2000.
Á fundi bæjarstjórnar dags. 8. febrúar sl. var lögð fram tillaga sem vísað var til skipulagsnefndar. Jafnframt var á sama fundi tillögu skipulagsnefndar til bæjarstjórnar vísað til skipulagsnefndar til frekari umfjöllunar. Við umfjöllun skipulagsnefndar voru eftirtalin gögn lögð til grundvallar.
§ Bréf bæjarstjórnar til skipulagsnefndar dags. 10. febrúar 2000.
§ Tillaga AB4 og AVT, deiliskipulag Flatahverfis á Akranesi, hefti dagsett í febrúar 2000.
§ Tillaga Kanon arkitekta, Flatahverfi á Akranesi, drög að rammaskipulagi, hefti dagsett í desember 1999.
§ Minnispunktar um umferðarskipulag unnið af Línuhönnun.
§ Bréf byggingar- og skipulagsfulltrúa dags. 21. febrúar 2000 til Kanon arkitekta og til AVT/AB4.
§ Bréf frá Kanon arkitektum dags. 3. mars 2000.
§ Bréf frá Ævari Harðarsyni og Nirði Tryggvasyni dags. 2. mars 2000.
§ Samantekt byggingar- og skipulagsfulltrúa á tímaáætlun og kostnaði vegna vinnu við ramma- og deiliskipulag Flatahverfis.
§ Kynningar á einstaklingum í vinnuhóp Kanon arkitekta og AVT/AB4.

Þau atriði sem eru veigamest í ákvörðun meirihluta nefndarinnar um val á tillögu eru:

1. Markmiðstenging í rammaskipulagi.
Skipulagsnefnd telur að markmið skipulagshöfunda komist vel til skila í báðum tillögum.
2. Tenging við umhverfi.
Skipulagsnefnd telur jákvætt við tillögu Kanon arkitekta að í henni kemur fram sannfærandi hugmynd að útvíkkun skipulagshugmyndar Flatahverfis yfir í Skógarhverfi. Í báðum tillögunum þarf að taka tengingar við byggðasafn og golfvallarsvæði til skoðunar.
3. Umferðarskipulag.
Meiri hluti skipulagsnefndar telur að megin mismunur á tillögunum sé fólginn í mun á uppbyggingu umferðarkerfis innan svæðisins og mismun í fyrirkomulagi umferðartenginga við umferðarkerfi Akraness. Tillaga AB4/AVT byggir á safngötu 800-1000m að lengd sem gengur í gegnum svæðið og út frá henni eru botnlangagötur inn í íbúðaklasa. Meirihluti skipulagsnefndar telur neikvætt að öll dagleg umferð í fjölmennu íbúðarhverfi þurfi að fara eftir einni götu sem hefur aðeins 2 tengingar við aðliggjandi umferðarkerfi Akraness, þ.e. 1 tenging inn á Garðagrund og 1 tenging inn á götu sem miðað er við að liggi frá Garðagrund að þjóðvegi. Tillaga Kanon arkitekta miðar við íbúðahverfi sem byggir á gatnakerfi sem að meginhluta myndar net með rétthyrndum reitum, þar sem götur standast ekki á og beinir kaflar án hraðahindrandi aðgerða verða ekki langir. Tillagan miðar við umferðarkerfi sem tengist á 6 stöðum við umferðarkerfi Akraness, þ.e 1 tenging inn á Garðagrund, 3 tengingar inn á götu sem miðað er við að liggi frá Garðagrund að þjóðvegi, 1 tenging inn á Innnesveg og 1 tenging inn á Þjóðbraut. Umsögn Haraldar Sigþórssonar Verkfræðistofunni Línuhönnun um umferðarskipulag Flatahverfis styður þá skoðun skipulagsnefndar að umferðarskipulag og fyrirkomulag umferðartenginga í tillögu Kanon artkitekta hafi kosti umfram tillögu AB4/AVT. Jafnframt er vísað í lið nr. 3 í bréfi Kanon arkitekta dags. 2. mars 2000 þar sem gerð er grein fyrir mismun á umferðarkerfum.
Guðbjartur telur hugmynd AVT/AB4 um safngötu og botnlanga henta uppbyggingu Flatahverfis betur meðal annars vegna greiðari umferðar í heild og öruggari umferðar í lokuðum botnlöngum.
4. Fráveita og lagnamál.
Samkvæmt umsögn Þorvaldar Vestmann fyrir hönd Akranesveitu er ekki munur á tillögunum með tilliti til uppbyggingar aðveitu- og fráveitukerfa.
5. Áfangaskipting og sveigjanleiki í uppbyggingu svæðisins.
Báðar tillögurnar gera ráð fyrir skiptingu skipulagssvæðisins í reiti eða klasa, sem hver um sig er sjálfstæð eining. Skipulagsnefnd telur að vegna fleiri umferðartenginga bjóði tillaga Kanon arkitekta upp á meira val um það, í hvaða röð reitir eru teknir til uppbyggingar svo sem að hefja uppbyggingu svæðisins út frá einum eða fleiri jöðrum svæðisins, eða þá út frá klapparhryggnum fyrir miðju svæðinu.
Guðbjartur telur aftur á móti sveigjanleika og möguleika á áfangaskiptingu og fjölbreytileika í uppbyggingu svæðisins meiri í tillögu AVT/AB4.
6. Húsagerðir.
Báðar tillögurnar gera ráð fyrir skiptingu skipulagssvæðisins í reiti eða klasa, þar sem innan hvers reits eða klasa er möguleiki á fjölbreyttum húsagerðum í takt við þarfir markaðarins hverju sinni. Skipulagsnefnd telur jákvætt við tillögu Kanon arkitekta að tengja Flatahverfi við núverandi byggð með 2-3 hæða rað- og/eða fjölbýlishúsabyggð í suðurjaðri svæðisins.
7. Einkenni byggðar ? skjólmyndun.
Báðar tillögurnar gera ráð fyrir fjölbreyttum húsagerðum innan hvers reits eða klasa. Skipulagsnefnd telur jákvætt að miða við 2-3 hæða þétta byggð í norðurkanti reitanna eins og gert er í tillögu Kanon arkitekta, og byggðinni þannig gefið einkennandi yfirbragð ásamt því að veita skjól fyrir norðanáttum. Auk þess er gert ráð fyrir gróðurbelti meðfram klapparhrygg sem liggur í gegnum svæðið. Í tillögu AB4/AVT er gert ráð fyrir trjágróðri til skjólmyndunar.
8. Aðlögun að núverandi landslagi.
Skipulagssvæðið er flatt mýrlendi með stöku klapparhólum og klapparhrygg sem liggur eftir miðju svæðinu. Skipulagsnefnd telur jákvætt við tillögu Kanon arkitekta að nýta það landslag sem fólgið er í nefndum klapparhrygg sem liggur eftir miðju svæðinu, þannig að hann verði hluti af útivistar- og leiksvæði í gróðurbelti sem miðað er við að liggi eftir endilöngu hverfinu. Gróðurbelti myndar þannig skjólgóða umgjörð um megingönguleiðir innan svæðisins. Tillaga AB4/AVT tekur að þessu leyti ekki í sama mæli mið af núverandi landslagi innan svæðisins.
9. Grundun.
Jarðgrunnur skipulagssvæðisins er nokkuð mismunandi frá einum stað til annars. Báðar tillögurnar gera ráð fyrir skiptingu skipulagssvæðisins í reiti eða klasa. Við vinnslu deiliskipulags er möguleiki á að taka tillit til mismunandi aðstæðna í jarðgrunni svæðisins þar sem innan hvers reits eða klasa er gert ráð fyrir fjölbreyttum húsagerðum. Skipulagsnefnd telur því að ekki sé munur á tillögunum með tilliti til aðlögunar nýrrar byggðar að mismunandi aðstæðum í jarðgrunni svæðisins.
10. Aðlögun að núverandi byggð innan svæðisins.
Báðar tillögurnar gera ráð fyrir skiptingu skipulagssvæðisins í reiti eða klasa. Við vinnslu deiliskipulags er möguleiki á að taka fullt tillit til núverandi byggðar innan hvers reits eða klasa. Skipulagsnefnd telur því að ekki sé munur á tillögunum með tilliti til aðlögunar nýrrar byggðar að núverandi byggð innan svæðisins.
11. Þéttleiki byggðar ? kennitölur
Í samantekt sem unnin var og lögð fram í skipulagsnefnd, var gerð tilraun til að bera tillögurnar saman með tilliti til þéttleika byggðar. Á þessu stigi eru slíkar tölur ekki nákvæmar þar sem aðeins er um að ræða tillögur að skipulagi en ekki fullunnið rammaskipulag. Við frekari vinnslu rammaskipulags er í báðum tillögum auðvelt að hafa áhrif á þéttleika byggðar.
12. Mat á kostnaði bæjarfélagsins
Stærstu kostnaðarliðir bæjarfélagsins við uppbyggingu Flatahverfis er kostnaður við gatnagerð og veitukerfi. Sá kostnaður er að öllu jöfnu í réttu hlutfalli við lengd gatnakerfisins og þar með lengd veitukerfa. Við frekari vinnslu rammaskipulags er í báðum tillögum auðvelt að hafa áhrif á kostnað bæjarfélagsins á uppbyggingu svæðisins.
Nánari athugun á tímaáætlun og kostnaði vegna vinnu við ramma- og deiliskipulag Flatahverfis, sbr. samantekt byggingar- og skipulagsfulltrúa dags. 7. mars 2000 sýnir óverulegan mismun tíma og kostnaði við að fullvinna framkomnar tillögur að rammaskipulagi og deiliskipulagi 4-6 hektara svæðis.
Tímaáætlun miðar við að heildar verktími áætlaður af AVT/AB4 er 1 mánuði styttri en heildartími áætlaður af Kanon arkitektum.

Í framhaldi af ofantöldu ítrekar meirihluti skipulagsnefndar fyrri tillögu og leggur til við bæjarstjórn að gengið verði til samninga við Kanon arkitekta um að fullgera rammaskipulag Flatahverfis og deiliskipulag fyrir 4-6 hektara svæði.
Guðbjartur telur rétt að gengið verði til samninga við AVT/AB4.
Heiðrún situr hjá við afgreiðslu málsins.

2. Skólabraut 14. (01.000.912.01)
Áður frestuðu erindi byggingarnefndar varðandi umsókn Sæmundar Víglundssonar um að setja upp auglýsingarskilti við gatnamót Þjóðvegar 51 og Þjóðveg 509 eins og sýnt er á meðfylgjandi myndum (72 gr.)
Lagt fram, frestað.


3. Sólmundarhöfði.
410169-4449 Akraneskaupstaður, Stillholti 16-18, 300 Akranesi.
Umræður um tillögu að breytingu á deiliskipulagi að Sólmundarhöfða.
Lagt fram, frestað.

4. Garðabraut 2. (01.000.681.01)
Bréf bæjarritara dags 24. febrúar sl. varðandi umsögn vegna leyfis til áfengisveitinga. Svar byggingar- og skipulagsfulltrúa.
Lagt fram, frestað.


Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 17:00.
   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00