Fara í efni  

Bæjarstjórn

1140. fundur 26. janúar 2012 kl. 20:00 - 20:30 í bæjarþingsalnum, Stillholti 16-18
Nefndarmenn
  • Gunnar Sigurðsson aðalmaður
  • Guðmundur Páll Jónsson 1. varaforseti
  • Hrönn Ríkharðsdóttir aðalmaður
  • Þröstur Þór Ólafsson aðalmaður
  • Einar Brandsson aðalmaður
  • Dagný Jónsdóttir aðalmaður
  • Ingibjörg Valdimarsdóttir aðalmaður
  • Einar Benediktsson aðalmaður
  • Gunnhildur Björnsdóttir varamaður
  • Árni Múli Jónasson bæjarstjóri
  • Jón Pálmi Pálsson bæjarritari
Fundargerð ritaði: Jón Pálmi Pálsson bæjarritari
Dagskrá
Hátíðarfundur bæjarstjórnar Akraness 26. janúar 2012 í tilefni 70 ára afmælis kaupstaðarréttinda þann 1. janúar 2012.
1. varaforseti, Guðmundur Páll Jónsson, setti fundinn og bauð bæjarfulltrúa og gesti velkomna til fundarins.

1.70 ára afmæli Akraneskaupstaðar 2012

1106157

Þann 26. janúar árið 1942 hélt bæjarstjórn Akraness sinn fyrsta fund fund, en sveitarfélagið hafði þann 1. janúar það ár fengið kaupstaðarréttindi með lögum frá Alþingi. Sem kunnugt er var frá landnámi eitt sveitarfélag sunnan og vestan við Akrafjall allt til ársins 1885, þegar Akraneshreppur skiptist í Innri- og Ytri-Akraneshrepp. Ytri-Akraneshreppur óx og dafnaði þannig að árið 1942 voru þar um 2000 íbúar. Á árunum fyrir 1942 fjölgaði íbúum og hreppurinn stóð í margs konar framkvæmdum, svo sem hafnargerð, lagningu vatnsveitu og gatnagerð, en að auki átti sér einnig stað mikil uppbygging atvinnulífsins, einkanlega á sviði útgerðar og fiskvinnslu. Þann 7. febrúar 1941 barst hreppsnefnd Ytri- Akraneshrepps erindi um að hreppsnefndin beitti sér fyrir því að sveitarfélagið fengi kaupstaðarréttindi. Hreppsnefndin tók erindinu vel og hélt borgarafund þar sem samþykkt var að leita eftir því að Akranes fengi bæjarréttindi.
Eftir að lög Alþingis tóku gildi var boðað til bæjarstjórnarkosninga þann 25. janúar 1942 og daginn eftir tók nýkjörin bæjarstjórn til starfa og hélt sinn fyrsta fund. Í henni sátu: Ólafur B. Björnsson, sem var forseti bæjarstjórnar, Hálfdán Sveinsson, Sveinbjörn Oddsson, Guðmundur Guðjónsson, Þórhallur Sæmundsson, Jón Sigmundsson, Guðmundur Kr. Ólafsson, Haraldur Böðvarsson og Jón Árnason. Fyrsti bæjarstjórinn var Arnljótur Guðmundsson.
Bæjarstjórn Akraness hélt fyrstu fundi sína á nokkrum stöðum í bænum, en frá árinu 1943 hefur bæjarstjórn aðallega haldið fundi sína á fjórum stöðum í bænum. Í svonefndu bæjarhúsi við Kirkjubraut 8, í Stúkuhúsinu við Háteig, en það hús hefur nú verið flutt á safnasvæðið að Görðum, í bæjarþingsalnum að Heiðarbraut 40 og nú í bæjarþingsalnum að Stillholti 16-18, en þangað flutti bærinn skrifstofur sínar árið 1995.
Í dag, 26. janúar 2012, heldur bæjarstjórn Akraness sinn 1140. fund en á því tímabili sem liðið er hafa 19 bæjarstjórnir setið, en ein þeirra sat aðeins um nokkurra mánaða skeið því ekki náðist niðurstaða um myndun meirihluta og var þá kosið að nýju. Bæjarstjórar þennan tíma hafa verið 14 talsins. Íbúar á Akranesi eru í dag tæplega 6600 manns.
Öllum er ljóst að á þeim 70 árum sem liðin eru frá því að Akranes fékk kaupstaðarréttindi þá hafa öflugir einstaklingar lagt samfélaginu á Akranesi til starfskrafta sína. Þeir hafa af fórnfýsi og einurð fylgt eftir hagsmunamálum bæjarbúa og lagt grundvöllinn að því velferðarsamfélagi sem Akranes er í dag. Á þessum tímamótum er þeim sem setið hafa í bæjarstjórn Akraness færðar þakkir fyrir ómetanlegt framlag um leið og þeim bæjarfulltrúum sem taka munu sæti í bæjarstjórn á komandi tíð er óskað farsældar í því mikilvæga starfi. Umfram allt er ætíð brýnast að hafa hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi og leiða mál fram af skilningi og velvilja.

Til máls tóku:

Tillagan:
Í tilefni 70 ára afmælis Akraneskaupstaðar er hér lögð fram eftirfarandi tillaga:
,,Bæjarstjórn Akraness samþykkir í tilefni 70 ára kaupstaðarafmælis Akraneskaupstaðar að veita framlag að fjárhæð 8 milljónir króna í sérstakan sjóð sem stofnaður verður vegna verkefnis um endurnýjun sýningarbúnaðar Bíóhallarinnar á Akranesi. Áætlaður heildarkostnaður vegna verkefnisins er 17-19 milljónir króna. Akraneskaupstaður verður bakhjarl verkefnisins og hefur umsjón með sjóðnum. Til styrktar sjóðnum verði efnt til söfnunarátaks, s.s. styrktartónleika auk þess sem leitað verður stuðnings hjá bæjarbúum og fyrirtækjum".


Greinargerð:
Á þessu ári eru liðin 70 ár frá vígslu Bíóhallarinnar á Akranesi, en það voru hjónin Haraldur Böðvarsson og Ingunn Sveinsdóttir sem færðu Akraneskaupstað húsið að gjöf. Eins og fram kemur í gjafabréfi og skipulagsskrá kvikmynda- og tónleikahússins Bíóhallarinnar var tilgangur gjafarinnar að styðja mannúðar- og menningarmál innan Akraneskaupstaðar. Óhætt er að fullyrða að á þessum 70 árum sem liðin eru hafi Bíóhöllin verið ómetanleg fyrir leikhúslíf og alla menningu á Akranesi. Akurnesingar standa því í þakkarskuld við gefendur.

Á undanförnum árum hafa farið fram gagngerar endurbætur á húsinu og nánasta umhverfi þess. Nú er hins vegar svo komið að búnaður Bíóhallarinnar til kvikmyndasýninga er orðinn úreltur, enda eru kvikmyndavélar hússins liðlega hálfrar aldar gamlar. Vélunum hefur verið vel við haldið og gegna þær hlutverki sínu sem slíkar en hins vegar er það tæknin sjálf sem er úrelt, þ.e. ekki er lengur hægt að fá kvikmyndir til sýninga á því formi sem umræddar kvikmyndavélar nota, þ.e. á filmur á stórum spólum.

Tæknin sem notuð er til kvikmyndasýninga hefur tekið miklum breytingum og það hefur áhrif á notkun og framtíð Bíóhallarinnar. Hér eftir verða filmur óþarfar en kvikmyndum þess í stað hlaðið niður af veraldarvefnum til sýningar - ekki ósvipuð þróun og orðið hefur með ljósmyndavélar þar sem hin stafræna tækni hefur leyst filmur af hólmi.

Með því að endurnýja sýningarbúnaðinn opnast margvíslegir nýir möguleikar sem ekki hafa verið í boði áður, s.s. beinar útsendingar frá menningar- og íþróttaviðburðum, tónleikum o.s.frv. Með þeim breytingum sem gera þarf þegar nýr búnaður er settur upp breytast mjög nýtingarmöguleikar Bíóhallarinnar. Þetta felur í sér að þó að húsið sé nýtt t.d. til tónleika eða leiksýninga er samt hægt að sýna þar kvikmyndir á sama tíma. Við núverandi aðstæður þarf að leggja af bíósýningar á meðan húsið er í annarri notkun. Þetta hefur í för með sér að t.d. leikfélög og -flokkar, skólar bæjarins og fleiri geta nýtt húsið betur án þess að trufla hefðbundnar bíósýningar. Með tilkomu hins nýja sýningarbúnaðar getur Bíóhöllin því enn betur þjónað hlutverki sínu sem menningarhús Akraness.

Til máls tóku: HR, ÞÓ, GS, bæjarstjóri.

Tillagan samþykkt 9:0.

Forseti færði fundinum kveðjur frá Sveini Kristinssyni, forseta bæjarstjórnar og þeim Jóni Hálfdánarsyni og Ingvari Ingvarssyni, fyrrverandi bæjarfulltrúum.
Í lok fundarins tóku til máls: Bæjarstjóri, forseti.

Fundi slitið - kl. 20:30.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00