Fara í efni  

Bæjarstjórn

1282. fundur 13. nóvember 2018 kl. 17:00 - 21:28 í bæjarþingsalnum, Stillholti 16-18
Nefndarmenn
  • Rakel Óskarsdóttir aðalmaður
  • Valgarður L. Jónsson aðalmaður
  • Elsa Lára Arnardóttir aðalmaður
  • Sandra Margrét Sigurjónsdóttir aðalmaður
  • Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir aðalmaður
  • Einar Brandsson aðalmaður
  • Ragnar B. Sæmundsson aðalmaður
  • Bára Daðadóttir aðalmaður
  • Ólafur Adolfsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri
  • Steinar Dagur Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Steinar Adolfsson sviðsstjóri
Dagskrá
Forseti býður fundarmenn velkomna til fundar.

1.Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2019-2022

1810140

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 8. nóvember 2018 fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun 2019 til 2022 sem hluta af fjárhagsáætlun vegna sama tímabils og vísaði til bæjarstjórnar til samþykktar.
Forseti gerir tillögu um að mál nr. 1 og mál nr. 2 verði tekin til umræðu saman.

Gerð verði grein fyrir framvindu fundarins varðandi afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar undir dagskrárlið nr. 2 en einnig fært sérstaklega til bókar atkvæðagreiðsla á fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun ársins 2019 undir lið nr. 1. Ekki var hreyft við andmælum við tillögu forseta.

Bæjarstjórn samþykkir fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun vegna ársins 2019 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2020 til og með 2022 sem hluta af fjárhagsáætlun vegna sama tímabils og vísar áætluninni til síðari umræðu í bæjarstjórn sem fer fram 11. desember næstkomandi.

Samþykkt 9:0.

2.Fjárhagsáætlun 2019 og þriggja ára áætlun vegna tímabilsins 2020-2022

1806199

Samþykkt bæjarráðs frá 8. nóvember síðastliðnum, þar sem fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2019 og þriggja ára áætlun vegna áranna 2020 til og með 2022 er vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn.
Til máls tóku:
Bæjarstjóri gerði grein fyrir fjárhagsáætluninni og tillögum sem henni fylgja og fór yfir helstu áhersluþætti og hagstærðir.

Framhald umræðu:

SMS, RÓ, ELA, SFÞ, EBr, ÓA, VLJ, GJJ, RÓ, RBS, SMS, ELA og SFÞ.

Bæjarstjórn samþykkir að vísa fjárhagsáætlun vegna ársins 2019 og þriggja ára áætlun vegna áranna 2020 til og með 2022, sem og tillögum sem henni fylgja til síðari umræðu í bæjarstjórn sem fer fram 11. desember næstkomandi.

Samþykkt 9:0.

3.Endurskoðun á bæjarmálasamþykkt

1805127

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum þann 8. nóvember síðastliðinn drög að breytingum á bæjarmálasamþykkt Akraneskaupstaðar og vísar afgreiðslunni til síðari umræðu í bæjarstjórn. Breytingarnar á bæjarmálasamþykktinni þurfa að hljóta tvær umræður í bæjarstjórn og staðfestingu af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og geta fyrst tekið gildi eftir birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.Fyrri umræða um breytingar á bæjarmálasamþykkt Akraneskaupstaðar fór fram þann 9. október síðastliðinn.
Til máls tóku:

Forseti bar upp svohljóðandi breytingartillögur á samþykkt um stjórn og fundarsköp Akraneskaupstaðar:

Tillaga nr. 1. er varðar 26. gr. samþykktarinnar:
Gerð er breyting varðandi kjörtímabil fastanefnda og það tilgreint eitt ár sem er til samræmis við önnur ákvæði samþykktarinnar sbr. A. lið 43. gr., 1. mgr. 44. gr., 1. mgr. 51. gr., 1. mgr. 58. gr. og 1. mgr. 65. gr.

Stafabrengl leiðrétt í 4. mgr. greinarinnar.

Tillaga nr. 2 er varðar 43. gr. samþykktarinnar:
Gerð er tillaga um breytingu í 1. mgr. sem vísar til þess að bæjarstjórn kjósi formenn og varaformenn nefnda skv. B lið enda sérstaklega tilgreint í A lið að bæjarstjórn kjósi alla fulltrúa fastanefnda en ekki bara formann og varaformenn eins og tiltekið er í gildandi samþykkt.

Breytingar varðandi A. lið 43. gr.:
Bætt er við ákvæðið að skipa skuli einnig aðal- og varaáheyrnarfulltrúa til eins árs séu þeir til staðar en samkvæmt samþykktinni sbr. 3. mgr. 44 gr., 3. mgr. 51. gr. , 3. mgr. 58. gr. og 3. mgr. 65. gr. er gert ráð fyrir að framboð sem ekki fá aðalfulltrúa í fastanefndir (bæjarráð, skóla- og frístundaráð, velferðar- og mannréttindaráð og skipulags- og umhverfisráð) skuli fá áheyrnarfulltrúa í viðkomandi nefnd. Breytingin er fyrst og fremst gerð til áréttingar um þá framkvæmd sem verið hefur um árlega skipan áheyrnarfulltrúa með sama hætti og gildir um aðalfulltrúa.

Breyting varðandi C. lið 43. gr.:
Gerð er tillaga um að tilnefning aðalmanns í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur skv. 1. tl. C. liðar 43. gr. og stjórn Faxaflóahafna skv. 2. tl. C. liðar 43. gr. sé bundin við aðalbæjarfulltrúa. Kjörgengi varamanns er í samræmi við skipan í bæjarráð þar sem heimilt er að kjósa varamann úr hópi varabæjarfulltrúa. Tillagan er gerð með hliðsjón af sérstöðu umræddra félaga fyrir Akraneskaupstað og mikilvægi þess að viðkomandi stjórnarmenn geti beint og milliliðalaust gert grein fyrir málefnum/fundargerðum á bæjarstjórnarfundum. Lagt er til í bráðabirgðaákvæði að þessi regla taki gildi á árinu 2019 í tengslum við aðalfundi viðkomandi félaga er kosin verður ný stjórn.

Bætt er við tilnefningu í öldungaráð Akraness samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar Akraness frá því maí 2018 sem byggir á lögum sem samþykkt voru á Alþingi þann 26. apríl síðastliðinn um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Bætt er einnig við tilnefningu í samráðshóp um málefni fatlaðra sbr. framangreindar breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ennfremur er bætt við tilnefningu aðal- og varamanns í stjórn Þróunarfélags Grundartanga ehf. samkvæmt stofnsamþykktum félagsins frá 7. júlí 2016.

Felldar eru út tilnefningar samkvæmt töluliðum 9, 10, og 11, í Almannavarnanefnd (9. tl.) og í samstarfsnefndir Akraneskaupstaðar annars vegar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar (10. tl.) og Verkalýðsfélags Akraness (11. tl.) hins vegar. Ákvörðun um að fella út almannavarnanefndina er í samræmi við samkomulag sveitarfélaganna á Vesturlandi um að hafa eina sameiginlega nefnd á svæðinu og staðfest var af dómsmálaráðherra þann 29. maí 2018. Ákvörðun um að fella niður samstarfsnefndir í héraði eru samkvæmt kjarasamningum félaganna og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2015 og 2016 en báðir samningarnir gilda til 31. mars 2018. Nefndirnar eru nú starfræktar miðlægt og ekki gert ráð fyrir tilnefningum fulltrúa einstaka sveitarfélaga.

Tillaga nr. 3 er varðar 49. gr. samþykktarinnar:
Gerð er sú breyting að fella út samstarfsnefndir en eins og gerð er grein fyrir við breytingar skv. 2. gr. hér að framan voru nefndirnar lagðar niður í kjarasamningnum á árinu 2015 og 2016.

Tillaga nr. 4 er varðar 56. gr. samþykktarinnar:
Gerð er textabreyting sem felur í sér að tilgreina fullt nafn viðkomandi stofnunar þ.e. Fjölbrautarskóla Vesturlands.

Tillaga nr. 5 er varðar 60. gr. samþykktarinnar:
Gerð er leiðrétting vegna misritunar á orðinu sviðsstjóri.

Tillaga nr. 6 er varðar 63. gr. samþykktarinnar:
Gerð er breyting með hliðsjón af lagabreytingum samkvæmt lögum um félagþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 sbr. lög nr. 37/2018.

Tillaga nr. 7 er varðar 73. gr. samþykktarinnar:
Gerð er breyting til að skýra hlutverk bæjarstjóra annars og bæjarstjórnar hins vegar í ráðningum í stjórnunarstöður hjá sveitarfélaginu. Bæjarstjóra sem framkvæmdastjóri og æðsti stjórnandi Akraneskaupstaðar er ætlað það hlutverk að taka ákvörðun um ráðningar forstöðumanna sveitarfélagsins án aðkomu pólitískra fulltrúa og fagráða.

Einnig er gerð sú breyting varðandi staðgengil bæjarstjóra að bæjarstjórn geti ákveðið að annar en sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs geti gengt því hlutverki en í nútíma fyrirtækjarekstri geta þær aðstæður skapast að annað fyrirkomulag þyki hentugra og óheppilegt að binda það fyrirkomulag alfarið við tiltekna stöðu.

Tillaga nr. 8 er varðar 74. gr. samþykktarinnar:
Gerð er sú breyting að bæjarstjórn og fagráð komi eingöngu að ráðningu æðstu embættismanna sveitarfélagsins þ.e. bæjarstjóra, sviðsstjóra og fyrirtækja sveitarfélagsins. Ráðning annarra stjórnanda verði á hendi bæjarstjóra eða e.a. sviðsstjóra. Er breytingin í samræmi við fyrirkomulag hjá öðrum sveitarfélögum og að auki hefur það verið almennt viðhorf bæjarfulltrúa sem og fulltrúa í fagráðum að fyrra fyrirkomulag sé óheppilegt enda þessir aðilar ekki í stöðu til að hafa þá aðkomu að málunum sem nauðsynleg er til að standa undir þeirri ábyrgð sem ráðningarvaldinu fylgir.

Gerð tillaga um breytingu á orðalagi lokamálsgreinarinnar sem skilja má þannig að aðkomu bæjarráðs þurfi að sjálfri ráðningunni.

Tillaga nr. 9 um ákvæði til bráðabirgða í C. lið 43. gr.
Gerð er sú tillaga að fyrirkomulag er varðar skipan í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og Faxaflóahafna taki fyrst gildi á árinu 2019 vegna skipunar stjórnanna árið 2019 til 2020.
Búið er að skipa í stjórnirnar og var það gert á aðalfundi Orkuveitunnar þann 28. júní sl. og á aðalfundi Faxaflóahafna þann 27. júní sl. hvoru tveggja samkvæmt tilnefningum bæjarstjórnar Akraness þann 12. júní sl. Lagt er til að 88. gr., ákvæði til bráðabirgða, verði svohljóðandi:
a) Tilnefning aðalmanns í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur úr hópi aðalbæjarfulltrúa samkvæmt 1. tl. C. liðar 43. gr. tekur gildi árið 2019 í tengslum við skipan nýrrar stjórnar á aðalfundi félagsins.
b) Tilnefning aðalmanns í stjórn Faxaflóahafna úr hópi aðalbæjarfulltrúa samkvæmt 2. tl. C. liðar 43. gr. tekur gildi árið 2019 í tengslum við skipan nýrrar stjórnar á aðalfundi félagsins.

Tillaga nr. 10 er varðar 88. gr. samþykktarinnar:
Númeraröð breytist og verður 89. gr. í stað 88. gr. Nánari útfærsla verður unnin skv. ráðgjöf samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Til máls tóku:
ELA, EBr og RÓ sem lagði fram tillögu að eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að meirihluti Samfylkingar og Framsóknar og frjálsir hefur fallið frá hugmyndum sínum um að galopna á setu í ráðum og nefndum bæjarins og með því tekið fullt tillit til athugasemda bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Einnig er ánægjulegt að sjá meirihlutann taka undir málflutning bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að aðalmenn í bæjarstjórn veljist sem aðalmenn í stjórnum Orkuveitu Reykjavíkur og Faxaflóahafna til að auka skilvirkni og stytta boðleiðir.
Rakel Óskarsdóttir (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Ólafur Adolfsson (sign)

Framhald umræðu
VLJ

Samþykkt 9:0.

4.Borgar Sig AK 066 - forkaupsréttur

1810245

Bæjarráð tók fyrir á fundi sínum þann 25. október síðastliðinn beiðni Útgerðarfélagsins Upphaf ehf. um yfirlýsingu um afsal á forkaupsrétti Borgar Sig AK 066.

Bæjarráð samþykkti að falla frá forkaupsrétti sveitarfélagsins sbr. 3. mgr. 12. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 en núverandi lagaumhverfi tryggir sveitarfélögum einungis forkaupsrétt að fiskiskipum en ekki að þeim aflaheimildum sem kunna að fylgja viðkomandi fiskiskipi. Bæjarráð vísar málinu til bæjarstjórnar til staðfestingar.
Samþykkt 9:0.

5.Skipulag - Dalbraut-Þjóðbraut

1411116

Skipulags- og umhverfiráð leggur til við bæjarstjórn að lagfæring á skipulagsgögnum verði gerð í samræmi við 43. grein, 3. mgr., skipulagslaga nr. 123/2010 vegna lóðar nr. 4 við Dalbraut.
Bæjarstjórn samþykkir lagfæringu á skipulagsgögnum vegna lóðar nr. 4 við Dalbraut sem felst í því að nýtingarhlutfall verði 2,28 í stað 2,22. Breytingin rúmast innan óbreytts byggingarreits og hefur ekki áhrif á aðra hagsmunaaðila og er gerð í samræmi við lagaheimild 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt 9:0.

6.Aðalsk.Akraness breyting-miðsvæði Akratorg, Kirkjubraut,Stillholt

1811021

Skipulags- og umhverfisráð leggur til við bæjarstjórn að fyrirliggjandi skipulagslýsing á aðalskipulagi Akraness 2005-2017 verði auglýst til kynningar.

Breytingin tekur til miðsvæðis M2, Akratorg, Kirkjubraut, Stillholt og felst í breyttum skipulagsákvæðum um bílastæðamál. Engin breyting er gerð á skipulagsuppdrætti.
Til máls tók: RBS.

Bæjarstjórn Akraness samþykkir að skipulagslýsing á aðalskipulagi Akraness 2005-2017 verði auglýst til kynningar í blöðum og dreifiritum, á vef Akraneskaupstaðar og í þjónustuveri Akraneskaupstaðar að Stillholti 16-18.

Samþykkt 9:0.

Á kynningartíma verði almenningi og umsagnaraðilum gefinn kostur á að koma með ábendingar og sjónarmið um fyrirhugaðar breytingar. Athugasemdir og ábendingar skulu vera skriflegar og sendar á netfangið skipulag@akranes.is merkt Miðsvæði M2 eða til þjónustuvers Akraneskaupstaðar að Stillholti 16-18, 300 Akranes.

7.Íbúaþing um skólamál

1811110

Tillaga bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um íbúaþing um skólamál á árinu 2019.
Til máls tóku:
SMS, sem leggur fram svohljóðandi tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til við bæjarstjórn Akraness að haldið verði íbúaþing um skólamál á Akranesi og skóla- og frístundaráði verði falið að útfæra og undirbúa slíkt íbúaþing á næsta ári með það að markmiði að hægt verði að nýta niðurstöðurnar af íbúaþinginu í vinnu við fjárhags- og fjárfestingaráætlun fyrir árið 2020.

Rakel Óskarsdóttir (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Ólafur Adolfsson (sign)

Framhald umræðu:

BD, RÓ, ELA, RÓ og ELA. Forseti óskar eftir að taka til máls og GJJ, fyrsti varaforseti, tók við stjórn fundarins.

Framhald umræðu:

VLJ, EBr, ÓA

Samþykkt 9:0.

Forseti tekur við stjórn fundarins að nýju.

8.Samgönguáætlun 2019-2023

1811111

Ályktun bæjarstjórnar Akranes um samgöngumál.
Forseti ber upp eftirfarandi ályktun bæjarstjórnar Akraness:

Bæjarstjórn Akraness fagnar því að Vesturlandsvegur um Kjalarnes sé kominn á samgönguáætlun fyrir árin 2019-2023 og áætlað sé að verja 3,2 milljörðum í verkefnið á því tímabili. Einnig fagnar bæjarstjórn því að Samgönguáætlun Vesturlands 2017-2029, sem unnin var í samvinnu sveitarfélaga á Vesturlandi, skuli hafa verið höfð til hliðsjónar við gerð samgönguáætlunar og hvetur til þess að svo verði áfram.

Bæjarstjórn Akraness áréttar að mjög brýnt er að flýta framkvæmdum á Kjalarnesi þar sem ástand vegarins er með öllu óásættanlegt og öryggi vegfarenda er teflt í hættu. Daglega fara um veginn þúsundir bíla og sífellt eykst fjöldi óöruggra vegfarenda sem fara um veginn. Brýnt er að framkvæmdir hefjist sem fyrst.

Einnig skorar bæjarstjórnin á samgönguráðherra að hefja án tafar undirbúning að lagningu Sundabrautar, sem bætir umferð til og frá höfuðborginni og eykur umferðar- og almannaöryggi. Því fyrr sem raunhæfur undirbúningur verkefnisins hefst eru meiri líkur á að framkvæmdir geti farið af stað innan fárra ára.

Þess vegna hvetur bæjarstjórn Akraness samgönguráðherra til þess að íhuga alla möguleika varðandi fjármögnun mikilvægra samgönguverkefna svo unnt verði að ráðast fyrr í nauðsynlegar vegaumbætur eins og lagningu Sundabrautar. Bæjarstjórn Akraness hvetur jafnframt samgönguráðherra að gæta jafnræðis milli landshluta í ákvörðunum sínum um samgönguverkefni sem fara í blandaða fjármögnunarleið.

Áskorunin er send samgönguráðherra, formanni samgönguráðs, þingmönnum Norðvesturkjördæmis og þingmönnum Reykjavíkur.

Valgarður L. Jónsson (sign)
Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Ragnar B. Sæmundsson (sign)
Bára Daðadóttir (sign)
Gerður J. Jóhannsdóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Ólafur Adolfsson (sign)
Rakel Óskarsdóttir (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)

Framhald umræðu:

ELA, ÓA, RÓ, VLJ,

Samþykkt 9:0.

9.Umhverfisstefna Akraneskaupstaðar

1811112

Tillaga bæjarstjórnar Akraness um gerð umhverfisstefnu Akraneskaupstaðar.
RÓ leggur fram eftirfarandi tillögu bæjarstjórnar Akraness:

Bæjarstjórn Akraness felur skipulags- og umhverfisráði að vinna drög að umhverfisstefnu fyrir Akraneskaupstað sem lögð verði fyrir bæjarstjórn Akraness eigi síðar en í apríl 2019. Umhverfisstefnunni fylgi aðgerðaráætlun um hvernig Akraneskaupstaður hyggst mæta fyrirliggjandi áskorunum til sveitarfélaga á Íslandi um aðgerðir í umhverfismálum s.s. loftslagsmálum og aðgerðum til að draga úr plastnotkun.

í greinargerð sem meðfylgjandi er tillögunni kemur eftirfarandi fram:
Stærstur hluti sveitarfélaga á Íslandi hefur ekki sett sér umhverfisstefnu þrátt fyrir að umhverfismál og þá sérstaklega loftslagsmál verði að líkindum eitt stærsta verkefni núverandi og komandi kynslóða á Íslandi og í heiminum öllum. Akraneskaupstaður hefur átt aðild að margs konar umhverfisverkefnum en umhverfis- og velferðarmál eru auk þess á ýmsan hátt þættuð saman við aðalskipulag kaupstaðarins. Hins vegar hefur ekki hefur verið mótuð heildstæð stefna í umhverfismálum fyrir Akraneskaupstað og er mikilvægt að þar verði bætt úr ekki síst til að auka áherslu á umhverfismál og til að mæta kröfum og áskorunum framtíðarinnar.

Ríkisstjórn Íslands hefur sett fram aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem þjónar þeim tvíþætta tilgangi, að staðið verði við skuldbindingar Íslands vegna Parísarsamkomulagsins árið 2030 og að markmiðum ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi þjóðarinnar verði náð árið 2040. Megináhersla er lögð á bæði kolefnisbindingu og orkuskipti í samgöngum og eru endurheimt votlendis, skógrækt, almenningssamgöngur og úrgangsmál dæmi um málaflokka sem munu koma til kasta sveitarstjórna um land allt og sveitarfélög munu gegna veigamiklu hlutverki við framkvæmt þessara alþjóðlegu samninga hér á landi.

Samráðshópur um aðgerðaráætlun í plastmálefnum sem Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði í sumar hefur skilað tillögum um, hvernig draga má úr plastnotkun hér á landi, hvernig bæta megi endurvinnslu plasts og hvernig taka eigi á plastmengun í hafi. Hluti þessara tillagna snýr að sveitarfélögum á Íslandi og skal efni skýrslunnar haft til hliðsjónar við gerð umhverfisstefnu fyrir Akraneskaupstað.

Áætlaður kostnaður við gerð umhverfisstefnu rúmast innan fjárheimilda skipulags- og umhverfisráðs. Gert er ráð fyrir að skipulags- og umhverfisráð geri kostnaðarmat á innleiðingu umhverfisstefnunnar og gert verði ráð fyrir kostnaði vegna innleiðingar í fjárhagsáætlanagerð á árunum 2020-2022.

Rakel Óskarsdóttir (sign)
Valgarður L. Jónsson (sign)
Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Ragnar B. Sæmundsson (sign)
Bára Daðadóttir (sign)
Einar Brandsson (sign)
Ólafur Adolfsson (sign)
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir (sign)

Framhald umræðu:
VLJ, RBS, GJJ.

Samþykkt 9:0.

10.Fundargerðir 2018 - bæjarráð

1801005

3356. fundargerð bæjarráðs frá 25. október 2018.
3357. fundargerð bæjarráðs frá 1. nóvember 2018.
3358. fundargerð bæjarráðs frá 8. nóvember 2018.
Til máls tóku:
ELA um fundagerð nr. 3356, fundarliði nr. 6, nr. 7, nr. 8. nr. 9, nr. 10, nr. 11, nr. 12, nr. 19 og nr. 20.
ELA um fundargerð nr. 3357, fundarliði nr. 1, nr. 2, nr. 3 og nr. 5.
ELA um fundargerð nr. 3358, fundarliði nr. 1, nr. 2, nr. 5 og nr. 6.

Fundargerðirnar eru lagðar fram til kynningar.

11.Fundargerðir 2018 - skóla- og frístundaráð

1801007

91. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 29. október 2018.
92. fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 6. nóvember 2018.
Til máls tók:
SMS um fundargerð nr. 92, fundarlið nr. 2.

Fundargerðirnar eru lagðar fram til kynningar.

12.Fundargerðir 2018 - skipulags- og umhverfisráð

1801008

95. fundargerð skipulags- og umhverfisráðs frá 5. nóvember 2018.
Til máls tóku:
RÓ um fundarlið nr. 8.
RBS um fundarlið nr. 1, nr. 3, nr. 7 og nr. 8.

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

13.Fundargerðir 2018 - velferðar- og mannréttindaráð

1801006

90. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 29. október 2018.
91. fundargerð velferðar- og mannréttindaráðs frá 7. nóvember 2018.
Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

14.Fundargerðir 2018 - Orkuveita Reykjavíkur

1801026

264. fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 24.09.2018
265. fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 05.10.2018
Til máls tóku:
EBr um fundargerð nr. 264, fundarlið nr. 10.
RÓ um fundargerð nr. 264, fundarliði nr. 5 og nr. 10.
SFR um fyrirhugaðan eigendafund Orkuveitunnar sem verður síðar í þessum mánuði.
VLJ um fundargerð nr. 264, fundarliði nr. 5 og nr. 10.

Fundargerðirnar eru lagðar fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 21:28.

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00