Fara í efni  

Bæjarstjórn unga fólksins

1. fundur 03. desember 2002 kl. 17:00 - 17:55

Ár 2002, þriðjudaginn 3. desember, kom bæjarstjórn unga fólksins saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar í Stjórnsýsluhúsinu, Stillholti 16-18, 3. hæð og hófst hann kl. 17:00.

______________________________________________________

 

Tilefni fundarins er 60 ára afmæli Akraneskaupstaðar og voru átta fulltrúar nemenda grunnskólanna mættir til fundar.  Fundinum var útvarpað á FM 95,0. 

 

Mættir voru: Ásdís Sigtryggsdóttir 10. bekk, Brekkubæjarskóla
Eva Eiríksdóttir 9. bekk, Grundaskóla
Friðmey Jónsdóttir 10. bekk Grundaskóla
Hulda Björk Einarsdóttir 8. bekk, Brekkubæjarskóla
Karitas Gissurardóttir, 10. bekk Grundaskóla
Sölvi Páll Ásgeirsson, 10. bekk, Grundaskóla
Vésteinn Sveinsson 10. bekk , Brekkubæjarskóla
Vilborg Inga Guðjónsdóttir 9. bekk , Brekkubæjarskóla

Þorkell Steindal formaður Nemendafélags Fjölbrautaskólans  boðaði forföll. 

Fundarstjóri var Gísli Gíslason bæjarstjóri og fundarritari, Andrés Ólafsson.

_____________________________________________________________

 

Fyrir tekið:

 

1. Málefni unglinga

Vésteinn Sveinsson bæjarfulltrúi unga fólksins frá Brekkubæjarskóla hóf mál sitt á því að óska Akraneskaupstað til hamingju með 60 ára afmælið um leið og hann þakkaði það tækifæri sem unga fólkinu væri gefið með þessum fundi. Hann fjallaði síðan um félagslíf um helgar og nauðsyn þess að hafa félagsmiðstöðvar opnar um helgar. Hann sagði opnun um helgar vera góðan þátt í forvarnarstarfi, því neysla vímuefna væri mest um helgar og með því að fá krakkana inn í félagsmiðstöðvarnar væri verið að vinna gegn neyslu þeirra. Hann ræddi einnig nauðsyn þess að koma á fót sameiginlegu húsnæði fyrir ungt tónlistarfólk og þar með talið hljómsveitir. Hann sagði krakka í skólum í dag vera ánægða með fjölbreytt íþróttalíf og gott félagslíf, þó alltaf mætti bæta það sem gott væri.

 

Vilborg Inga Guðjónsdóttir bæjarfulltrúi unga fólksins frá Brekkubæjarskóla fjallaði um skort á góðum leikvöllum hér á Akranesi  sem væru með fjölbreyttum leiktækjum og einnig um fjarlægð á milli leikvalla sem hún taldi of mikla. Hún varpaði einnig fram þeirri tillögu að gerður yrði einn stór leikvöllur með frekari úrvali leiktækja. Vilborg kvað gott að búa á Akranesi, hér væri góð sjúkraaðstaða, gott dvalarheimili og fjölbreytt atvinnulíf.

 

Hulda Björk Einarsdóttir bæjarfulltrúi unga fólksins frá Brekkubæjarskóla fjallaði um opin svæði í bænum og lagði til að settur yrði gróður á þau t.d. með plöntun trjáa og runna, einnig verði komið fyrir þar leiktækjum og fleiru sem gerði þau að eftirsóknarverðum stöðum fyrir íbúa bæjarins. Hún sagði nauðsynlegt hverju bæjarfélagi að hafa gott útivistarsvæði innan sinna bæjarmarka. Hulda sagði að gott væri að búa á Akranesi, hér væri gott félagslíf og mikið og fjölbreytt íþróttalíf.


Ásdís Sigtryggsdóttir bæjarfulltrúi unga fólksins frá Brekkubæjarskóla fjallaði um félagslíf á Akranesi sem hún sagði efst á baugi hjá jafnöldrum sínum í dag. Hún sagði að í félagslífinu væri  ekki um margt að velja, Arnardalur væri opinn virka daga og eitt til tvö böll í mánuði. Ásdís ræddi nauðsyn þess að boðið væri upp á félagslíf um helgar en á þeim tíma fer fram neysla áfengis og vímuefna og flest afbrot eru framin. Hún gerði það að tillögu sinni að komið væri á fót samstarfi nemenda og stjórnvalda, þar sem fjallað væri um hugmyndir um fjölbreyttara félagslíf um helgar og hvað hver og einn gæti lagt að mörkum til að koma því á. Eitt af því sem mætti gera er að koma á fót svokölluðu Lansetri t.d. á efri hæðinni í unglingahúsinu á Skólabraut, þar sem tölvuáhugamenn gætu hist og spilað tölvuleiki með vinum sínum. Þetta er verkefni sem þyrfti að styrkja alla vega til að byrja með. Ásdís sagði Akranes góðan bæ, en það væri í okkar höndum að gera hann betri.

 

Karítas Gissurardóttir bæjarfulltrúi unga fólksins frá Grundaskóla hóf mál sitt á því að þakka það tækifæri sem unga fólkinu sem hér talar til að koma á framfæri hugmyndum ungs fólks, jafnframt sem hún sem formaður nemendafélags Grundaskóla flutti góðar kveðjur frá nemendum sem  óska bænum hjartanlega til hamingju með 60 ára afmælið. Hún skýrði frá því að í tilefni þessara tímamóta og degi íslenskrar tungu unnu nemendur í unglingadeild Grundaskóla verkefni sem fjallar um Akranes og hvernig það er að vera unglingur á Akranesi. Karítas sagði að nemendum hafi verið skipt í hópa, fengnir aðilar til að fjalla um efnið og spurt spurninga t.a.m. hvernig það væri að vera unglingur á Akranesi og hvernig skóli Grundaskóli er og hvað þar mætti betur fara. Hún hvatti til þess að á þessum tímamótum væri horft til málefna unga fólksins, þau væru jú framtíðin. Karitas hvatti bæjaryfirvöld til að skoða vel hugmyndir unga fólksins og að þær verði skoðaðar með opnum huga. Hún flutti að lokum ljóð um Akranes sem heitir sjómaðurinn og er eftir eftir Inga Steinar Gunnlaugsson.

 

Sölvi Páll Ásgeirsson bæjarfulltrúi unga fólksins frá Grundaskóla fjallaði um stöðu bæjarfélagsins á þessum tímamótum, þegar fagnað er 60 ára kaupstaðarafmæli Akraneskaupstaðar. Í máli hans kom fram að mikið vatn hefði runnið til sjávar á þessum árum, bærinn hefði vaxið og blómstrað, íbúum fjölgað og mannlíf væri gott. Fram kom að þessara tímamóta hefði verið minnst í Grundaskóla með tveimur þemadögum, þar sem nemendur á unglingastigi fjölluðu um ýmis mál sem tengjast Akranesi og Grundaskóla. Sölvi sagði að almennt væru unglingar í Grundaskóla ánægðir með bæjarfélagið sitt, þó getur Akranes alltaf gert betur. Hann sagði að í umræðum hafi ýmislegt komið fram sem betur mætti fara t.d. uppbyggingu tölvuleikjamiðstöðvar, endurbætur á gatnakerfinu, gróðursetningu og snyrtingu opinna svæða, endurreisn handboltans, óskir um minni heimvinnu, efla lista og menningarlíf, útbúa skautaaðstöðu og fleira. Sölvi sagði unga fólkið í Grundaskóla óska eftir því að vera haft með í ráðum við mótun á skólastarfinu og tillit sé tekið til hugmynda ungs fólks þegar fjallað er um málefni þeirra. Hann sagði þau einnig vilja hafa áhrif á skipulag forvarnar og tómstundastarfs á Akranesi, jafnframt sem aukið sé samstarf ungs fólks og bæjaryfirvalda. Sölvi lagði til að það gæti gerst á haustþingum, þar sem fulltrúar frá Grundaskóla, Brekkubæjarskóla, Fjölbrautarskóla, Arnardal og íþróttahreyfingunni funduðu um það sem framundan væri. Sölvi sagði nemendur í Grundaskóla í vinnu sinni komið með tillögu að breytingu Vinnuskólans m.a. annars með fjölbreyttari verkefnum en að slá gras og reita arfa en það er hægt að gera með því að nýta hæfileika ungs fólks t.a.m. hafa námskeið í tengslum við leiklist, tónlist og fleira sem skilaði sér í uppákomum í verslunum og á almannafæri. Sölvi sagði Akranes gott og vaxandi samfélag, hér væri gott að vera og vænlegur kostur fyrir ungt fólk að búa í framtíðinni. Með framsýni og metnaði getum við gert enn betur. Hann flutti að lokum ljóð um Akranes sem er eftir Inga Steinar Gunnlaugsson og nefnist Mikilvægið.

 

Eva Eiríksdóttir bæjarfulltrúi unga fólksins frá Grundaskóla fjallaði um skólann sinn Grundaskóla og sagði frá umfjöllun um hann á þemadögum. Fram kom að þar hafi nemendur velt fyrir sér ýmsum spurningum um skólastarfið, það sem væri gott og ekki síður það sem mætti betur fara. Eva sagði langflesta nemendur mjög ánægða með skólann sinn. Hún sagði nemendur sammála um að metnaðarfullt skólastarf væri rekið í Grundaskóla, en þegar rætt var um þá hluti sem þau töldu að betur mætti fara vildu nemendur að þeir væru hafðir meira með í ráðum við mótun á skólastarfi, þetta væri vinnustaðurinn þeirra. Eva sagði nemendur óska eftir því að sköpuð væri aðstaða fyrir tölvuáhugamenn t.d. í Arnardal, jafnframt sem hún óskaði eftir stuðningi bæjaryfirvalda við uppfærslu á söngleiknum Frelsinu sem er frumsamið verk, samstarfsverkefni kennara og nemenda. Hún sagði að almenna kynfræðslu þyrfti að bæta, hún þarf að byrja fyrr t.d. í 6. eða 7. bekk þar sem nemendum gæfist kostur á að spyrja spurninga. Eva ræddi fleiri þætti sem nemendur fjölluðu um m.a. viðhald skólahúsnæðisins, heitan mat í hádeginu, fleiri skólaferðalög, lengri frímínútur, fá hjúkku alla daga, hafa bókasafnið oftar opið, stuðningstíma, laga stundatöfluna til útrýma eyðum, fá counter strike í tölvurnar og fleira. Fram kom hjá henni að nemendur í Grundaskóla eru hlynntir öflugu foreldrastarfi í Grundaskóla og nefndi þar sem dæmi frístundaval. Eva hvatti bæjaryfirvöld til að hafa nemendur með í ráðum þegar skipuleggja ætti félags- eða skólamál. Hún flutti að lokum ljóð um Akranes sem heitir Langisandur eftir Sigurbjörgu Þrastardóttir.

 

Friðmey Jónsdóttir bæjarfulltrúi unga fólksins frá Grundaskóla sagði félaga sína hér á undan hafa reynt að gera grein fyrir helstu niðurstöðum verkefnavinnu nemenda unglingadeildar, þar sem fjallað var um málefni Akraness og Grundaskóla. Friðmey sagði nemendur vera sammála um það skólinn þeirra sé mjög góður og aðstaðan þar sé frábær, við höfum þar næstum allt til alls. Hún sagði nemendur Grundaskóla vilja þakka fyrir þetta tækifæri, þar sem þau hafa fengið að koma sínum hugmyndum og skoðunum á framfæri. Friðmey hvatti bæjarfulltrúa til að halda áfram góðu sambandi við ungt fólk í skólanum. Hún sagði framtíð Akraness vera bjarta, í framtíðinni sæi hún Akranes í sætum yfir fallegustu bæjarfélög á Íslandi. Hún flutti að lokum ljóð um Akranes sem heitir Skipaskagi  og er eftir Sigurbjörgu Þrastardóttir.

 

UMRÆÐUR

 

Forseti bað  Ásdísi bæjarfulltrúa frá Brekkubæjarskóla að útskýra betur hugmyndir um Lansetrið og hvernig hún sjái það fyrir sér að það eigi að vera jafnstætt íþróttum hvað styrki varðar, einnig bað hann Véstein bæjarfulltrúa frá Brekkubæjarskóla að útskýra betur með félagslíf um helgar hvort það væri þá bara Arnardalur sem væri góð viðbót um helgar eða hvort það væru einhverjar fleiri hugmyndir um félagslíf um helgar sem ætti að skoða, jafnframt bað hann Sölva bæjarfulltrúa frá Grundaskóla að útskýra hvernig samstarfi er í dag háttað við nemendur í Grundaskóla og hvernig nemendur gætu séð að slíkt samtarf yrði í framtíðinni og hvort nemendafélagið væri sá tengiliður við skólastjórnendur sem þau töluðu um.

 

Ásdís bæjarfulltrúi frá Brekkubæjarskóla sagði tölvur vera framtíðina og samtíðina, því ekki að færa tölvunotkunina úr heimahúsum í sameiginlegt húsnæði fyrir unglinga. Hún taldi tölvunotkun ætti að standa jafnfætis íþróttum hvað fjárveitingar varðar.

 

Vésteinn  bæjarfulltrúi frá Brekkubæjarskóla ræddi um tölvuklúbb sem gæti verið staðsettur í Arnardal, jafnframt sem hann ítrekaði forvarnargildi sem slík starfsemi gæti haft. Hann taldi það góða byrjun að hafa Arnardal  opin um helgar, jafnframt sem hann lagði áherslu á að samráð væri haft við unga fólkið um þeirra málefni því þau vissu best hvað þau vildu.

 

Sölvi bæjarfulltrúi frá Grundaskóla sagði nemendur best vita hvað þeir vildu sjálfir, það væri alltaf erfitt fyrir kennara að ákveða það fyrir þá, því ætti að hafa nemendur meira með í ráðum um hvað sett væri fyrir þá almennt í skólum og þá sérstaklega í félagslífi. Það má bæta samstarf nemenda og skólastjórnenda.

 

Forseti bað Karitas bæjarfulltrúa frá Grundaskóla að útskýra betur hvaða verkefni Vinnuskólinn ætti að leggja áherslu á, jafnframt spurði hann Huldu Björk bæjarfulltrúa frá Brekkubæjarskóla um viðhorf hennar til opinna svæða, hvort ætti að dreifa þeim um bæinn eða hvort leggja ætti áherslu á uppbyggingu útvistarsvæðis uppi í skógrækt.

 

Karitas bæjarfulltrúi frá Grundaskóla sagði meiri fjölbreytni vanta í verkefnaval Vinnuskólans, til lengdar er ekki skemmtilegt að slá gras og reita arfa alla daga.

 

Hulda Björk  bæjarfulltrúi frá Brekkubæjarskóla útskýrði frekar hugmyndir sínar um opnu svæðin og lagði til að leiktækjum væri komið fyrir á þeim, en að  frekari trjárækt færi fram í Garðalundi sem væri byggður upp sem skemmtilegt útvistarsvæði.

 

Forseti spurði Evu bæjarfulltrúa frá Grundaskóla út á hvað söngleikurinn Frelsið gengi, hverjir hafa staðið þar að verki og hvað þetta væri stór sýning.

 

Eva bæjarfulltrúi frá Grundaskóla sagði söngleikinn Frelsið frumsamið verk af kennurum í skólanum, þetta er svipað verk og sýnd hafa verið í Fjölbrautarskólanum.

 

Forseti sagði það mikinn viðburð að frumflutt væri verk hér á Skaganum og það eftir Skagamenn. Hann spurði Vilborgu bæjarfulltrúa frá Brekkubæjarskóla um frekari sýn sína á leikvelli og staðsetningu stórs leikvallar.

 

Vilborg bæjarfulltrúi frá Brekkubæjarskóla sagðist ekki hafa ákveðinn stað í huga við uppbyggingu á stórum leikvelli sem hún lýsti áhuga á að væri byggður upp hér á Akranesi, síðan ræddi hún um litlu leikvellina og við endurbætur á þeim mætti vanda betur til verka. Hún ítrekaði síðan áhuga sinn á að byggja upp einn stóran eða þá fleiri litla leikvelli.

 

Forseti spurði Friðmey bæjarfulltrúa frá Grundaskóla frekar um könnun sem fram fór í Grundaskóla.

 

Friðmey  bæjarfulltrúi frá Grundaskóla sagði að flestir nemendur væru mjög ánægðir með aðstöðu sína, þau væru með góða tölvustofu, stóran sal, gott bókasafn og flestir væru ánægðir með aðstöðu sína í skólanum. Hún sagði að alltaf væri hægt að gera góðan skóla betri er forseti spurði hvort eitthvað væri hægt að bæta.

 

Vésteinn bæjarfulltrúi frá Brekkubæjarskóla gerði að umtalsefni framtíð gömlu slökkvistöðvarinnar á Laugarbraut, hann sagði að lanararnir hefðu mikinn áhuga á húsnæðinu, jafnframt varpaði hann fram þeirri hugmynd að nota húsnæðið undir æfingarhúsnæði fyrir hljómsveitir, þar sem tónlist væri mjög gefandi. Umræð um æfingarhúsnæði fyrir hljómsveitir er búinn að standa yfir í nokkra mánuði. Vésteinn spurði líka um framhald á fundum eins og verið er að halda hér í dag. Þetta er fyrsti bæjarstjórnarfundurinn með ungu fólki, verður annar, spurði Vésteinn?

 

Forseti sagði að störfum væri vinnuhópur sérfræðinga sem ætlað væri að gera tillögur að framtíðarnotum gömlu slökkvistöðvarinnar. Vinnuhópurinn á að skila af sér tillögum í byrjun næsta árs og verður fróðlegt að sjá hvað út úr starfi hans kemur. Það eru margir hópar sem hafa áhuga á að komast í húsnæði gömlu slökkvistöðvarinnar.

 

Friðmey bæjarfulltrúi frá Grundaskóla ræddi um hæfileika unglinga hvað varðar ýmsar hluti t.d. söngs, leiks og fleiri hluta, tengingu þess við Vinnuskólann og möguleika á að nýta það við hinar ýmsu uppákomur.

 

Ásdís bæjarfulltrúi frá Brekkubæjarskóla fjallaði frekar um Lansetrið sem hún sagði mjög stórt mál hjá mörgum af hennar jafnöldrum, jafnframt sem skipulögð tölvustarf hefði forvarnargildi en það ætti að vekja áhuga yfirvalda.
  

2. Önnur mál

 

Vésteinn bæjarfulltrúi frá Brekkubæjarskóla kvaddi sér hljóðs sem formaður nemendafélags Brekkubæjarskóla og færði Akraneskaupstað að gjöf listaverkið Bangsi bæjarstjóri í Brekkubæ í tilefni 60 ára afmæli kaupstaðarins.

 

Friðmey bæjarfulltrúi í Grundaskóla kvaddi sér hljóðs sem fulltrúi nemenda í Grundaskóla og færði Akraneskaupstað að gjöf glerlistaverk í tilefni af 60 ára afmæli Akranekaupstaðar.

 

Forseti þakkaði góðar gjafir til bæjarins og þakkaði jafnframt þær góðu hugmyndir og umræður sem bæjarfulltrúar unga fólksins hafi staðið fyrir á þessum fundi. Hann lýsti ánægju með viðhorf bæjarfulltrúa unga fólksins til bæjarins.

 

Forseti þakkaði bæjarfulltrúunum unga fólksins fyrir góðan fund um leið og hann sleit fyrsta en ekki síðasta bæjarstjórnarfundi unga fólksins hér á Akranesi.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl.17:55.

Andrés Ólafsson, fundarritari (sign)

   
Fara efst
á síðu
  • AkraneskaupstaðurDalbraut 4, 300 Akranes
    Kt: 410169-4449

    Persónuverndarstefna
  • 433 1000
    Skrifstofan er opin sem hér segir:
    Mánu- fimmtudaga kl. 09:00-15:00
    Föstudaga kl. 09:00-14:00